KR vann í kvöld gríðarmikilvægan sigur á Grindavík og jafnað undanúrslitaeinvígi liðanna 1-1. Röndóttir fóru á kostum og létu meistarana oft og tíðum líta út sem byrjendur, lokatölur 90-72 KR í vil. Ótrúlegt andleysi í herbúðum Grindavíkur gerði sigurinn bæði sætan og auðveldan fyrir KR-inga sem í kvöld áttu einn af sínum betri leikjum á vertíðinni. Lykilmenn Grindavíkur þurfa í ærlega naflaskoðun og henni þarf að ljúka fyrir sunnudagskvöld þegar liðin mætast í sínum þriðja leik í Röstinni í Grindavík.
Vallargestir máttu bíða í rúma mínútu eftir fyrstu stigum leiksins en þau gerði Darshawn McClellan fyrir KR og heimamenn umtalsvert beittari á upphafsmínútunum þar sem þeir komust í 13-5 þegar Finnur Atli hafði skorað snöggtum eftir að hafa hámað í sig sóknarfrákast og Sverrir Þór kallaði sína menn í Grindavík á bekkinn til að ræða málin.
Heimamenn í KR fengu strax eftir leikhlé körfu og villu að auki þar sem Helgi þjálfari Magnússon var að verki og kom hann röndóttum í 16-5 áður en Grindvíkingar tóku á rás og skoruðu sex stig í röð og minnkuðu muninn í 16-11 og þá var komið að heimamönnum að taka leikhlé og ráða sínum ráðum. Leikhléið virkaði vel á heimamenn sem lokuðu fyrsta leikhluta með 6-0 skvettu og staðan því 22-11 að loknum fyrsta leikhluta og þeir Brandon, Helgi og Finnur frískir hjá heimamönnum í upphafi leiks og Davíð Ingi Bustion kom inn með flotta baráttu í Grindavíkurliðið en hann hefur verið nokkuð frá undanfarið vegna meiðsla.
Martin Hermannsson lét rigna fyrir KR í upphafi annars leikhluta, tveir þristar og teigkarfa frá kappanum komu KR í 30-13 og Grindvíkingar heillum horfnir tóku leikhlé. Fyrstu mínútur annars leikhluta voru gestunum þungbærar þar sem heimamenn fóru hreinlega á kostum, þétt og sterk vörn og léttleikandi og óeigingjarnar sóknir skiluðu þeim stöðunni 36-16. Grindvíkingar rönkuðu aðeins við sér og náðu að minnka muninn í 36-23 eftir þrist frá Þorleifi og höfðu þá skorað sjö stig í röð.
Ryan Pettinella kom sterkur af bekknum hjá Grindavík í fyrri hálfleik, stolinn bolti hjá kappanum og myndarlegur sprettur sem lauk með enn myndarlegri troðslu minnkaði muninn í 10 stig, 36-26 en lengra komust gestirnir ekki og KR leiddu 38-26 í hálfleik. Martin Hermannsson var stigahæstur KR-inga í hálfleik með 10 stig og Finnur Atli var með 9 og 9 fráköst. Hjá Grindavík var Sammy Zeglinski með 7 stig og 4 stoðsendingar og þeir Pettinella og Davíð Ingi áttu einnig sínar rispur en lykilmenn Grindavíkurliðsins á borð við Broussard, Sigurð og Jóhann voru týndir fyrstu 20 mínúturnar. Forysta KR var verðskulduð í leikhléi en þeir leiddu frákastabaráttuna 34-14 og með því áframhaldi yrði síðari hálfleikur svartnættið eitt fyrir gestina.
Þorleifur Ólafsson gerði fyrstu stig Grindavíkur í síðari hálfleik eftir þriggja mínútna leik, allt var við sama heygarðshornið, KR við stýrið og ríkjandi Íslandsmeistarar Grindavíkur með buxurnar á hælunum gegn einbeittum heimamönnum. Martin Hermannsson var áfram hárbeittur og kom KR í 53-37 er hann ,,drop-steppaði” þrist yfir miðherjann Sigurð Gunnar Þorsteinsson, lagleg tilþrif hjá Martin.
KR-ingar leiddu svo 62-41 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og viðeigandi að Martin Hermannsson ætti lokaorðið með þriggja stiga körfu en hann var stigahæsti maður vallarins eftir 30 mínútna leik með 16 stig og ljóst að nánast kraftaverk þyrfti að fæðast í herbúðum Grindavíkur til að þeir ættu afturkvæmt inn í þennan leik.
Snemma í fjórða leikhluta kom Kristófer Acox KR í 64-44 og Darshawn McClellan var ekki löngu síðar með þrist sem jók muninn 70-49 og úrslitin ráðin þegar um sex mínútur lifðu leiks. Bæði lið héldu sínum sterkustu mönnum á vellinum allt of lengi og það kom í kollinn á KR þar sem Brandon Richardson þurfti að yfirgefa völlinn er hann varð fyrir meiðslum, hver staðan á honum sé greinum við frá eins fljótt og auðið er.
Svo fór að lokaflautið gall að endingu, þéttsetin DHL Höllin fagnað vel sterkum sigri sinna manna þar sem lokatölur reyndust 90-72 eins og áður segir. Glæsilegur leikur hjá Martin Hermannssyni sem gerði 23 stig og gaf 7 stoðsendingar. Alls fimm liðsmenn KR voru með 10 stig eða meira í leiknum í kvöld. Grindavíkurmegin var Aaron Broussard með 20 stig og 8 fráköst en var andlega fjarverandi þegar mest á reyndi, þeir Davíð Ingi Bustion og Ryan Pettinella fá klapp á bakið fyrir sterkar innkomur í Grindavíkurliðið en byrjunarliðsmenn meistaranna þurfa að gyrða í brók eftir þetta kvöld.
Byrjunarliðin:
KR: Brandon Richardson, Brynjar Þór Björnsson, Helgi Magnússon, Darshawn McClellan og Finnur Atli Magnússon.
Grindavík: Sammy Zeglinski, Þorleifur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, Aaron Broussard og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Mynd/ [email protected]
Umfjöllun/ [email protected]



