spot_img
HomeFréttirKR valtaði yfir Hamar og komst í 8 liða úrslitin

KR valtaði yfir Hamar og komst í 8 liða úrslitin

 
KR er komið í 8 – liða úrslit Poweradebikarsins eftir öruggan 99-74 sigur á Hamri. Vesturbæingar tóku leikinn í sínar hendur strax á fyrstu mínútnum og litu aldrei til baka. Gestirnir úr Hveragerði gerðu nokkrar heiðarlegar tilraunir til að komast nærri gestgjöfum sínum en höfðu ekki árangur sem erfiði. Brynjar Þór Björnsson var atkvæðamestur hjá KR í kvöld með 25 stig og 22 þeirra komu í fyrri hálfleik. Andre Dabney gerði 16 stig í liði Hamars sem hefur átt betri daga en þennan.
Röndóttir hófu leik með látum, mættir með maður á mann pressu strax í upphafi leiks og náðu að setja gesti sína á hælana. Eftir tvo þrista frá Brynjari Þór Björnssyni á upphafsmínútunum leiddu heimamenn 12-3. Varnarleikur Hamarsmanna var ekki dottinn í hús og heimamenn nýttu það vel, keyrðu upp hraðann og settu nokkur góð stig í bakið á Hvergerðingum.
 
Í stöðunni 16-6 höfðu Brynjar Þór Björnsson og Fannar Ólafsson gert öll stig Vesturbæinga með sín hvor 8 stigin. Nerijus Taraskus kom með smá fútt inn í lið Hamars af bekknum og minnkaði muninn í 19-9 með þriggja stiga körfu en KR-ingar léku á als oddi og eftir aðeins sjö mínútna leik voru þeir farnir að bjóða upp á ,,sirkus-atriði” þar sem Marcus Walker var með alley-up sending á Brynjar sem skoraði að vild fyrstu 10 mínúturnar.
 
Heimamenn leiddu 33-16 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Brynjar var kominn með 13 stig og Fannar Ólafsson 12.
 
Hin margfræga svæðisvörn Hvergerðinga var mætt inn í annan leikhluta og skilaði vel framan af. Snorri Þorvaldsson átti góðar rispur í liði gestanna sem náðu að minnka muninn í 44-35 en þá kom 10-4 kafli hjá heimamönnum og staðan því 54-39 KR í vil þegar flautað var til leikhlés.
 
Brynjar Þór var með 22 stig í leikhléi og 6 af 9 þristum rötuðu rétta leið hjá kappanum. Hjá Hamri voru Dabney og Nerjus báðir með 9 stig.
 
KR-ingar voru fljótir að koma muninum upp fyrir 20 stigin í þriðja leikhluta og sama hvað Hvergerðingar reyndu áttu heimamenn ávallt svar, KR lék flotta vörn í kvöld og leiddu 75-54 að loknum þriðja leikhluta og engin merki um að Hamar ætlaði sér nærri sem og varð raunin.
 
Andre Dabney gerði fjögur stig í röð fyrir Hamar í upphafi fjórða leikhluta en þá svaraði KR með 13-3 áhlaupi og þar með var björninn unninn. KR leiddi frá upphafi til enda og unnu að lokum verðskuldaðan 99-74 sigur.
 
 
Heildarskor
 
KR: Brynjar Þór Björnsson 25/6 stoðsendingar, Marcus Walker 21/6 stoðsendingar, Fannar Ólafsson 17/5 fráköst, Ólafur Már Ægisson 9, Jón Orri Kristjánsson 8/6 fráköst, Pavel Ermolinskij 7/11 fráköst/12 stoðsendingar, Hreggviður Magnússon 7, Matthías Orri Sigurðarson 3, Finnur Atli Magnússon 2/7 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 0/4 fráköst, Ágúst Angantýsson 0.
 
Hamar: Andre Dabney 16/5 fráköst, Snorri Þorvaldsson 15, Nerijus Taraskus 12/6 fráköst, Darri Hilmarsson 8, Ellert Arnarson 7, Ragnar Á. Nathanaelsson 4/6 fráköst, Svavar Páll Pálsson 4/7 fráköst, Bjarni Rúnar Lárusson 4, Hilmar Guðjónsson 2, Kjartan Kárason 2, Emil F. Þorvaldsson 0, Stefán Halldórsson 0.
 
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jón Guðmundsson, Josefin Winther
 
Umfjöllun og myndasafn: Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -