spot_img
HomeFréttirKR tók annað sætið með öruggum sigri á Tindastól

KR tók annað sætið með öruggum sigri á Tindastól

KR gefur ekkert eftir í toppbáráttunni í Iceland Express deildinni og fikruðu sig upp í annað sætið með öruggum sigri á Tindastól í DHL-höllinni í kvöld.  KR hefur þar með náð sér í 24 stig sem er jafn mikið og Stjarnan og Þór Þorlákshöfn sem eiga bæði leik annað kvöld.  Sigur KR var aldrei í hættu í kvöld en þeir náðu mest 22 stiga forskoti í leiknum og voru öruggir í sínum aðgerðum í kvöld.
Stigahæstur í liði KR var Joshua Brown með 21 stig, 4 stoðsendingar og 7 fráköst en næstir voru Dejan Sencanski með 19 stig og Robert Ferguson með 18 stig og 9 fráköst.  Í liði TIndastóls var Maurice Miller atkvæðamestur með 23 stig en næstir voru Curtis Allen með 14 stig og Friðrik Hreinsson með 8 stig.  
 

Gestirnir frá Sauðakróki byrjuðu leikinn vel og settu fyrstu fjögur stig leiksins.  Það tók KR töluverðan tíma að koma sér inní leikinn en þeir hleyptu Tindastól þó ekki lengra frá sér.  Þeir skoruðu næstu 6 stig leiksins og höfðu yfir 6-4 þegar rúmlega fjórar mínútur voru liðnar af leiknum.  Robert Ferguson ákvað þá að taka leikinn í sínar hendur og skoraði næstu 8 stig KR og staðan var því 14-11 þegar átta mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta.  KR hafði frumkvæðið það sem eftir lifði fyrsta leikhluta og höfðu náð sex stiga forskoti þegar honum var lokið, 21-15.  Dejan Sencanski átti þar seinasta orðið þegar hann hirti sóknarfrákast með 4 sekúndur á klukkunni og fór beint upp í skot.  

 

Sóknarleikur KR var half bragðdaufur á fyrstu mínútum annars leikhluta og Tindastóll nýtti tækifærið því þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar var munurinn kominn niður í tvö stig, 23-21. KR hrökk þó í gang stuttu seinna og höfðu náð 5 stiga forskoti á ný þegar Bárður Eyþórsson tók leikhlé fyrir Tindastól, 28-23 og fjórar mínútur liðnar af leikhlutanum.  Dejan Sencanski náði forskoti KR upp í 9 stig þegar mest lét í stöðunni 35-26.  Tindastóll svaraði þó með næstu 5 stigum leiksins og þau hefðu orðið 7 ef ekki hefði verið fyrir varið skot frá Dejan Sencanski þegar Maurice Miller var í þann mund að fara að troða með stæl.  Þetta var vafalaust glæsilegasti varnarleikur sem undirritaður hefur séð til á íslandi í vetur og gott betur en það.    Joshua Brown átti síðasta orð fyrri hálfleiks um það leiti sem flautan gall og jók forskot heimamanna í 8 stig, 39-31.  

 

Stigahæstur í liði KR í hálfleik voru félagarnir Robert Ferguson og Dejan Sencanski með 12 stig hvor en næstur á blað var Joshua Brown með 9 stig.  Hjá Tindastól voru Curtis Allen og Maurice Miller stigahæstir með 7 stig hvor en Miller bætti 5 fráköstum við.  Næstur á blað var Þröstur Leó Jóhannsson með 4 stig og 3 fráköst.  

 

KR var langt um betra liðið í byrjun þriðja leikhluta og náðu forskotinu upp í 13 stig, 45-32, þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum.  Tindastóll hafði þá aðeins skorað eitt stig í leikhlutanum, af vítalínunni.  KR hélt uppteknum hætti næstu mínúturnar og forskotið var komið upp í 20 stig, 59-39, þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum.  Joshua Brown og Dejan Sencanski áttu þar stóran hlut í máli en þeir áttu báðir glimrandi góðan leik fyrir KR í kvöld.  Þegar þriðja leikhluta var lokið höfðu KR-ingar 16 stiga forskot, 69-53.  Maurice Miller hafði þá lagað stöðuna nokkuð fyrir sína menn með tveimur þristum á skömmum tíma.  Hrafn Kristjánsson spilaði síðustu 2-3 mínúturnar í þriðja leikhluta með Jón Orra, Emil, Hreggvið, Martin og Björn sem er lið sem ekki hefur sést oft til hjá KR í vetur.  Á bekknum voru þá handhafar 55 af 69 stigum KR.  

 

Stigamaskínurnar voru þó aftur mættar á parketið í fjórða leikhluta og KR gaf hvergi eftir.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu þeir 18 stiga forskot, 77-59.  Bárður Eyþórsson tók þá leikhlé fyrir Tindastól en það virtist ekki duga til.  Tindastólsmenn fengu þrjú þriggjastiga skot í sömu sókninni stuttu eftir það sem öll geiguðu og það skipti því engu hvort liðið spilaði vörn eða ekki, þeim hreinlega tókst ekki að nýta sér þau stop sem þeir náðu.  KR sigldi því sigrinum örugglega heim á lokamínútunum og höfðu á endanum 18 stiga sigur, 84-66.  

 

KR: Joshua Brown 21/7 fráköst, Dejan Sencanski 19, Robert Lavon Ferguson 18/9 fráköst, Hreggviður Magnússon 9, Finnur Atli Magnusson 6/11 fráköst, Kristófer Acox 4/5 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 3, Martin Hermannsson 3, Jón Orri Kristjánsson 1, Ágúst Angantýsson 0, Skarphéðinn Freyr Ingason 0, Björn Kristjánsson 0.

 

Tindastóll: Maurice Miller 23/7 fráköst, Curtis Allen 14, Friðrik Hreinsson 8, Þröstur Leó Jóhannsson 6/6 fráköst, Hreinn Gunnar Birgisson 5, Helgi Rafn Viggósson 5/5 fráköst, Friðrik Þór Stefánsson 3, Igor Tratnik 2/4 fráköst, Pálmi Geir Jónsson 0, Ingvi Rafn Ingvarsson 0, Páll Bárðason 0.

 

Mynd: [email protected]

Umfjöllun: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -