KR stúlkur voru 0-5 þegar sjötta umferðin hjá þeim hófst í kvöld í DHL höllinni með nýliða deildarinnar, Breiðablik í heimsókn. Nýbúnar að fá nýjan erlendan leikmann til landsins voru þær bjartsýnar á að landa sínum fyrsta sigrí vetur í kvöld.
Blikastúlkur voru sterkari lengst af í fyrri hálfleik. Hittu betur á meðan KR-ingum gekk illa að koma boltanum í körfuna. KR-ingar létu einnig eftir allt of mikið af sóknarfráköstum í hendur Blikastúlkna sem iðulega nýttu þau aukatækifæri til afreka. KR gaf eftir 24 sóknarfráköst í leiknum og þar af 15 í fyrri hálfleik. Nokkuð sem liðið verður að taka á þegar líður á mótið.
Blikum tókst illa að nýta sér 4 mínútna þurk hjá KR í lok fyrsta hluta og byrjun annars, tóks sjálfum aðeins að skora 4 stig á þessum leikkafla. KR hins vegar nýtti sér vel 4 mínútna kafla hjá Blikum þar sem ekkert fór ofan í og komust aftur inn í leikinn með góðum sprettum og tókst þeim að jafna leikinn áður en hálfleikurinn var úti.
Simone Holmes, nýr erlendur leikmaður KR sem hafði komið inn á eftir 5 mínútur af fyrsta hluta þurfti að fara út af í byrjun þriðja hluta með, að því er virtist, krampa í kálfa. Hún snéri ekki aftur en það virtist litlu skipta fyrir heimamenn.
Þær héldu sínu striki og þrátt fyrir stigalausa kafla héldu þær Blikum í baksýnisspeglinum – aðallega með því að spila fantagóða vörn á Arielle og halda henni í aðeins 10 stigum allan leikinn.
Eftir spennandi lokamínútur þar sem KR brenndi af 4 vítum af 6 tókst þeim að halda út og landa sigrinum eftir ítrekaðar tilraunir gestanna sem allar runnu út í sandinn. Fyrsti sigur KR í Dominosdeild kvenna á þessari leiktíð var staðreynd, 53-48.
Til gamans má geta að samanlagt liðu 19 mínútur af leiktíma án þess að KR skoraði stig í leiknum og samtals voru þær 17 hjá Breiðablik.
Björg Einarsdóttir var frábær í liði KR. Keyrði miskunnarlaust á körfuna en átti erfitt uppdráttar fyrir utan. Setti þó 14 stig og tók 7 fráköst. Þorbjörg Andrea var einnig mjög góð með 11 stig.
Unnur Lára setti 13 stig fyrir Blika og Arielle bætti við 10 stigum eins og áður sagði en tók 15 fráköst og vantaði aðeins 3 stoðsendingar í aðra þrennu sína í vetur.



