spot_img
HomeFréttirKR stal sigri í lokahlutanum og oddaleikur staðreynd

KR stal sigri í lokahlutanum og oddaleikur staðreynd

 
Íslandsmeistarar KR hafa tryggt sér oddaleik í undanúrslitum gegn Snæfell eftir 72-76 seiglusigur í Stykkishólmi í kvöld. Morgan Lewis fór mikinn í liði KR með 31 stig og 10 fráköst. Hlynur Bæringsson var atkvæðamestur hjá Hólmurum með 20 stig og 6 fráköst. Heimamenn leiddu framan af leik en þétt vörn gestanna reið baggamuninn á lokasprettinum.
Morgan Lewis opnaði leikinn eftir 2 mínútur en boltinn vildi ekki ofaní hjá liðunum sem voru með varnarleikinn í fyrirrúmi. Staðan var ennþá 0-2 fyrir KR þegar Lewis setti þrist og staðan 0-5 eftir 4 mínútur og erfið fæðing heimamanna að koma boltanum í möskvana og KR komst svo í 0-7 áður en Snæfell kom loks 2 stigum í eftir 5 mínútur.
 
Varnarleikurinn var verulega stífur beggja megin en Snæfell var að klaufast heldur mikið framan af fyrsta hluta. Burton setti svo einn ískaldann eftir að Ingi hafði rætt við lið sitt. KR komst í 5-14 en Snæfell fór að komast betur inn í leikinn og náðu að klóra í 10-14 af harðfylgi en mikið “tension” var í húsinu og tölur eftir fyrsta hluta 12-16 fyrir KR sem voru pínu tilbúnari fyrstu mínúturnar.
 
Hlynur jafnaði 16-16 og allir að vakna í húsinu í upphafi annars hluta og Snæfell fór að ná stoppum á KR með stolnum boltum. Snæfell leiddi um miðjann hlutann 25-20 og fór mikið fyrir Martins Berkis í vörn og sókn á meðan Lewis hafði verið aðalnúmer KR manna. Snæfell leiddi framan af hlutanum mjög naumt og voru hressari en KR andaði alltaf í hálsmálið og staðan í hálfleik var 33-30.
 
Atkvæðamestu menn í hálfleik voru hjá Snæfelli Sigurður Þorvalds með 10 stig og 5 fráköst, Sean Burton með 9 stig og Martins Berkis með 7 stig. Hjá KR var Morgan Lewis gríðarheitur með 17 stig og 5 fráköst en næstir honum voru Fannar og Finnur með 4 stig hvor.
 
Pavel opnaði seinni hálfleikinn með þrist 33-33 en hann var einungis með eitt stig í fyrri hálfleik og var Snæfell að taka hann vel út úr plönum KR. Berkis kom og setti 5 stig hratt á KR og annars fínan varnarleik á Pavel en sá svaraði fyrir sig og setti 4 stig strax á eftir og Snæfell leiddi 40-39 um miðjan þriðja leikhluta.
 
Finnur Magnússon var kominn í villuvandræði með fjórar villur og KR voru að þreytast á eltingaleiknum og staðan 47-41 fyrir Snæfell þegar Páll tók leikhlé fyrir sína menn og eins og tölurnar gefa til kynna var hart barist og hefðu geta verið hálfleikstölur. En Snæfell hélt haus og leiddi 55-51 eftir þriðja hluta þrátt fyrir tilraunir KR að koma sér í gírinn þar sem Lewis og Jón Orri tróðu með tilþrifum.
 
KR gerðu sig líklega til að komast yfir í stöðunni 60-58 með þrist frá Brynjari sem geigaði en Fannar uppskar sína fjórðu villu í staðin og Snæfell var að ná að rífa fráköstin sín betur niður en Morgan Lewis fór í fjögurra villu hópinn hjá KR en Nonni Mæju var einn með 4 villur hjá Snæfelli um miðjan fjórða fjórðung. Pavel jafnaði fyrir KR 62-62 og kom þeim svo yfir á vítalínunni 62-64.
 
Brynjar setti einn ískaldann þrist og kom KR í 64-67 og Finnur fór út af með 5 villur. KR virtist vera að koma sér í þægilegri stöðu á vellinum undir lokin þegar Morgan Lewis stal boltanum og kom þeim í 66-70. Staðan var 70-72 fyrir KR þegar síðasta mínútan byrjaði að tikka. Darri Hilmars klikkaði á skoti en Snæfell missti boltann þeagr 9 sek voru eftir og Morgan Lewis setti niður tvö víti, staðan 70-74 og leikhlé. Berkis fór svo á línuna og 7 sek eftir og komst í 72-74 og Morgan Lewis á línuna sem hann klikkaði á en Snæfell blakaði boltanum út af og KR átti innkastið þar sem boltinn rataði á Fannar Ólafsson sem setti auðvelt lay – up niður og KR komu til baka í fjórða hluta og sigruðu 72-76 í háspennuleik og klósettpappírinn rúllaði inn á völlinn aftur frá stuðnigsmönnum KR sem voru greinilega með í maganum en áttu nóg af pappír. En oddaleikur staðreynd í Vesturbænum fimmtudaginn 15. apríl.
 
Atkvæðamestir í liði Snæfells voru Hlynur með 20 stig og 6 fráköst, Martins Berkis 18 stig, Sean Burton 15 stig. Sigurður Þorvalds með 15 stig og 13 fráköst. Hjá KR var Morgan Lewis í sérflokki með 31 stig og 10 fráköst. Pavel Ermolinskij 16 stig og 10 fráköst. Brynjar 9 stig og Fannar 8 stig.
_________________________________________________________________________
 
Umfjöllun: Símon B. Hjaltalín.
 
Byrjunarliðin:
 
Snæfell: Sean Burton, Emil Þór Jóhannsson, Sigurður Á. Þorvaldsson, Jón Ólafur Jónsson og Hlynur Bæringsson.
 
KR: Pavel Ermolinskij, Morgan Lewis, Brynjar Þór Björnsson, Finnur Atli Magnússon og Fannar Ólafsson.
 
Dómarar leiksins: Kristinn Óskarsson og Sigmundur Már Herbertsson.
Fréttir
- Auglýsing -