
KR konur gerðu sér lítið fyrir og slógu út Íslandsmeistara Keflavíkur í kvöld með því að sópa þeim út úr úrslitakeppninni. 62:71 voru lokatölur kvöldsins en þessi leikur var besti leikur Keflavíkur gegn KR í seríunni. Þrátt fyrir það voru það KR konur sem héldu uppteknum hætti með góðri vörn og öguðum sóknarleik sem skilaði þeim sigri í kvöld.
Keflavík mættu gríðarlega einbeittar til leiks í kvöld og ætluðu að selja sig dýrt. Varnarleikur þeirra var hertur til muna og var ströng gæsla á lykil leikmanni KR í þessari seríu, Hildi Sigurðardóttir. Sú gjörgæsla virkaði svo sannarlega því Hildur náði sér aldrei á strik í fyrri hálfleik. En þrátt fyrir grimman varnarleik var sóknarleikur liðsins ennþá hálf ryðgaður. KR konur höfðu litlu breytt frá fyrri leikjum gegn Keflavík nema hvað að nú mættu þær grimmari varnarleik frá fyrri leikjum.
Baráttan hélst allt til loka þriðja fjórðungs en í byrjun þess fjórða þá fóru KR konur að síga framúr. Varnarleikur Keflavíkur virtist slaka örlítið á og sóknarleikur þess var einnig gríðarlega tilviljanakenndur. Svo fór að það voru KR konur sem héldu haus allt til loka og sigruðu sem fyrr segir 62:71. Lið Keflavíkur var einfaldlega 2 leikjum of seinar að byrja leikinn frá fyrstu mínútu. Á móti kemur að lið KR var greinilega mjög vel undirbúið fyrir þessa seríu og áttu svör við öllum þeim tilburðum Keflvíkingar sóttu að þeim.



