spot_img
HomeFréttirKR sökkti Stólunum í Síkinu

KR sökkti Stólunum í Síkinu

 

KR sigraði Tindastól með 21 stigi, 54-75, í fyrsta leik lokaúrslita Dominos deildar karla. KR því komið með einn sigur, en liðin þurfa að vinna þrjá leiki til þess að hampa Íslandsmeistaratitlinum.

 

 

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins höfðu liðin mæst í þrjú skipti í vetur. KR sigraði fyrsta leik liðanna í deildinni í desember. Seinni tvo leikina sigraði Tindastóll virkilega sannfærandi, þann fyrri í bikarúrslitum og svo seinni nú í byrjun mars.

 

 

Gangur leiks

Bæði lið komu nokkuð vel stemmd til leiks í Síkinu í kvöld. Tindastóll var þó skrefinu á undan í fyrsta leikhlutanum. Leiddir áfram af leikstjónanda sínum, Pétri Rúnari Birgissyni, voru þeir með þriggja stiga forystu að loknum fyrsta, 17-14.

 

Inn í annan leikhlutann mættu gestirnir úr Vesturbænum enn betur til leiks. Með einbeittum varnarleik vinna þeir niður nauma forystu heimamanna. Mikið til þeir Kristófer Acox og Pavel Ermolinski sem lokuðu teig Stólanna, Antonio Hester 2 af 9 í fyrri hálfleiknum. KR yfir þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 31-38.

 

Í upphafi seinni hálfleiksins hélt þessi ótrúlegi varnarleikur gestanna áfram. Leyfðu heimamönnum aðeins tvö stig fyrstu 5 mínútur þriðja leikhlutans. Gef þó aðeins eftir, en fyrir lokaleikhlutann var munurinn þó 10 stig, 43-53.

 

Í lokaleikhlutanum gerðu heimamenn sig svo aldrei líklega til þess að gera atlögu að forystu KR-inga. Þvert á móti, jókst forskot gestanna jafn og þétt fram að lokum leiks, sem endaði 54-75.

 

 

Kjarninn

Hattinn ofan fyrir KR vörninni. Það er hæpið að þú vinnir marga leiki í úrslitum þegar að þú skorar aðeins 54 stig. Stólarnir hreinlega verða að fara betur yfir hvar þeir geti komið fleiri stigum á töfluna fyrir sunnudaginn.

 

Stutt á milli leikja

Ökklameiðsli Antonio Hester úr undanúrslitunum virtust vera að hamla honum í leiknum. Bað t.a.m. um skiptingu undir lok fyrri hálfleiksins. Spilar aðeins 20 mínútur í kvöld, skorar aðeins 4 stig úr 11 skotum af vellinum. Gríðarlegt áhyggjuefni fyrir Stólana í ljósi þess hversu stutt er á milli leikja. Þeir þurfa svo sannarlega á honum að halda í næstu leikjum, en aðeins einn frídagur er í næsta leik liðanna.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

KR fékk 32 stig af bekk í leiknum á móti aðeins 16 hjá Tindastól. Munaði þar mikið um framlög Jóns Arnórs Stefánssonar og Björns Kristjánssonar sem saman settu 23 stig, stigahæstur af bekk Stólana var Chris Davenport með 9.

 

Hetjan

Pavel Ermolinski var frábær í liði KR í kvöld. Skilaði 9 stigum, 11 fráköstum og 9 stoðsendingum á þeim 33 mínútum sem hann spilaði. Tekið skal fram að Pavel fór útaf vellinum þegar að rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Augljóslega drullusama þó hann væri aðeins stigi og stoðsendingu frá fallegri þrennu.

 

 

Næsti leikur

Annar leikur liðanna er komandi sunnudag kl. 19:15 í DHL Höllinni í Reykjavík.

 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn #1

Myndasafn #2

 

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur

Viðtöl / Ólafur Þór

Myndir / Bára Dröfn og Hjalti Árna

 

Viðtöl:

 

Fréttir
- Auglýsing -