spot_img
HomeFréttirKR skrefinu á undan Haukum

KR skrefinu á undan Haukum

KR vann í kvöld góðan sigur á Haukum í DHL-höllinni í Iceland Express deild kvenna.  Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum með 22 stig hvor og því um hörkuleik að ræða.  KR var þó sterkari aðilinn megnið af leiknum og spiluðu hörku vörn sem gerði Haukum lífið leitt.  KR vann 18 stiga sigur sem segir kannski ekki alla söguna en Haukar áttu oft góða spretti en vantaði þó herslu muninn til þess að koma sér inní leikinn.

 

Stigahæst í liði KR var Bryndís Guðmundsdóttir með tröllatvennu, 19 stig og 13 fráköst en hún átti virkilega góðan leik í kvöld.  Næstar á eftir henni voru Sigrún Ámundardóttir og Erica Prosser með 17 stig og 8 fráköst hvor og Margrét Kara Sturludóttir með 11 stig og 14 fráköst.  Í liði Hauka var Jence Ann Rhoads stigahæst með 18 stig, 11 fráköst og 9 stoðsendingar en næstar voru Margrét Rósa Hálfdánardóttir með 10 stig og Guðrún Ámundardóttir með 6 stig og 5 fráköst. 

 

Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar og skiptust liðin á að skora.  Haukar voru fyrri til að taka af skarið og höfðu 6-10 yfir þegar um það bil þrjár mínútur voru liðnar.  Hvorugt liðið náði þó afgerandi forskoti í fyrsta leikhluta og skiptust liðin á að leiða leikinn.  Þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta höfðu KR eins stigs forskot,20-19, en Margrét Kara Sturludóttir var send á línuna þegar 1 sekúnda var eftir og nýtti bæði vítin.  Jence Ann Rhoads var gríðarlega sterk og leiðandi í sóknarleik hauka með 11 af 19 stigum liðsins í fyrsta leikhluta. 

 

 

KR átti góðan kafla í upphafi annars leikhluta og skoruðu fyrstu 5 stig leiksins.  Þegar tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum höfðu þær náð 6 stiga forskoti, 27-21.  Heimastúlkur juku smám saman við forskotið og þegar leið á leikhlutan náði það mest 11 stiga forskoti, 35-24.  Sóknarleikur Hauka var ekki sannfærandi en þær skoruðu aðeins 8 stig í öðrum leikhluta.  KR hafði því 12 stiga forskot þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 39-27.

 

Stigahæstar í liði KR í hálfleik voru Erica Prosser og Sigrún Ámundardóttir með 12 stig hvor en næst var Bryndís Guðmundsdóttir með 7 stig og 6 fráköst.  Stigahæst í liði Hauka í hálfleik var Jence Ann Rhoads með 14 stig og 6 fráköst en næstar voru Guðrún Ósk Ámundardóttir með 4 stig og Íris Sverrisdóttir með 3 stig.  

 

Haukar mættu vel stemmdar til leiks í þriðja leikhluta og minnkuðu forskot KR strax niður í 8 stig, 40-32.  KR hleypti þeim þó ekki nær en það og þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu þær aftur náð 11 stiga forskoti, 45-34.  Haukar gerðu í kjölfarið annað áhlaup á KR með góðum stuðningi úr stúkunni.  Liðið minnkaði muninn smám saman og þegar tvær mínútur voru eftir munaði 7 stigum á liðunum, 50-43. Aftur tókst KR að stöðva áhlaup gestana tímanlega og munurinn minnkaði því ekki meira en svo. Haukar gerðu sig svo seka um mikinn klaufaskap á lokamínútunum og sendu KR tvisvar á línuna á seinustu 5 sekúndum leiksins.  Sara Pálmadóttir braut tvisvar af sér en KR tókst þó ekki að nýta sér vítin betur en svo að setja tvö víti ofaní af fjórum.  Það munaði því 12 stigum á liðunum þegar einn leikhluti var eftir, 55-43.  

 

KR náði forskotinu uppí 15 stig í upphafi fjórða leikhluta,60-45, og virtust á tíma ætla að stinga af.  Það kom þó annað á daginn og þegar fjórar mínútur voru liðnar var munurinn kominn aftur niður í 9 stig, 60-51, og mikil stemming í liði Hauka. KR svaraði enn á ný þangað til  Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka tók leikhlé stuttu seinna  en munurinn var þá aftur kominn upp í 14 stig, 65-51. Ari Gunnarsson tók leikhlé fyrir KR stuttu seinna en hvorugt liðið hafði náð að skora frá seinasta leikhléi.  Það gekk lítið sem ekkert hjá Haukum að minnka muninn og KR gekk á lagið.  Þegar ein mínúta var eftir af leiknum höfðu KR 16 stiga forskot og sigurinn því í höfn.  Þegar flautað var til leiksloka stóðu tölur 72-54.  

 

Umfjöllun og mynd : [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -