spot_img
HomeFréttirKR skaut Keflavík í kaf (Umfjöllun)

KR skaut Keflavík í kaf (Umfjöllun)

21:32
{mosimage}

(Jakob Örn var stigahæstur hjá KR í kvöld)

,,Í fyrri hálfleik virtust þristarnir bara ekki ætla að klikka en við vorum samt að spila þá skelfilega vörn,“ sagði Helgi Már Magnússon sæll eftir sigurleik KR gegn Íslandsmeisturum Keflavíkur í annarri umferð Iceland Express deildar karla í kvöld. Lokatölur leiksins voru 93-72 KR í vil þar sem Helgi fór á kostum og gerði 22 stig í leiknum og þar af 18 úr þriggja stiga skotum.

,,Svona er þetta bara stundum, boltinn dettur. Það er engin græðgi í þessu og við erum margir búnir að spila lengi saman og vitum að sá sem er opinn skýtur og sá sem er heitur fær boltann,“ sagði Helgi en þeir félagar Helgi, Jón Arnór og Jakob Örn fóru fyrir sterku liði KR í kvöld. Þessir öflugu landsliðsmenn hafa leikið saman síðan þeir voru guttar en það þarf meira en þristahlaðborð til að seðja hungrið hjá Helga því hann var ekkert voðalega ánægður með vörn KR í kvöld þrátt fyrir að halda Keflavík í 72 stigum.

,,Mér fannst vörnin léleg í fyrri hálfleik og Keflvíkingar voru að fá auðveld skot,“ sagði Helgi en kvaðst spenntur fyrir því að leika loksins á parketi í Smáranum og ljóst að eflaust fleiri eru á sama máli. Nýliðar Breiðabliks fá KR í heimsókn í þriðju umferð en það verður jafnframt fyrsti útileikurinn á Íslandsmótinu sem KR leikur.

KR hóf leikinn betur og með þrist frá Jakobi Erni var staðan orðin 13-5 fyrir KR. Keflvíkingar skiptu þá í 2-3 svæðisvörn sem virtist henta þeim betur. Sverrir Þór Sverrisson jafnaði metin í 15-15 með þrist en heimamenn voru ávallt fljótir að svara og taka forystuna að nýju. Helgi Már og Jón Arnór svöruðu Sverri með tveimur þristum og lauk fyrsta leikhluta í stöðunni 27-26. Landsliðsmiðherjinn Fannar Ólafsson gerði 8 stig í leikhlutanum og var að finna sig vel en hjá Keflavík var Gunnar Einarsson helsti broddurinn í sókninni.

Allir sem voru í DHL-Höllinni í kvöld áttu von á spennuleik eftir fyrsta leikhlutann sem lofaði góðu. Sterkt lið KR sá til þess að svo varð ekki! Eftir fimm mínútna leik í öðrum leikhluta höfðu KR skorað 10 stig gegn 2 frá Keflavík. KR lék magnaða vörn og neyddu Keflvíkinga í erfiðar sendingar sem og erfið skot. Síðustu fimm mínúturnar af leikhlutanum voru svo ekkert annað en þriggja stiga fyllerí! Heimamenn í KR hrukku í gang og þeir Jón Arnór Stefánsson, Jakob Örn Sigurðarson og Helgi Már Magnússon skiptust á því að raða niður þristum.

Á meðan þristarnir komu á færibandi hjá KR gekk hvorki né rak hjá Keflavík og heimamenn byggðu upp góða forystu og leiddu í hálfleik 55-37. KR setti niður 12 af 18 þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleik og það reyndist allt of mikið fyrir Keflavík. Í öðrum leikhluta hættu Keflvíkingar að leika svæðisvörn og þá opnaðist oft vel fyrir Helga, Jón og Jakob. Þó skal það tekið fram að nokkrir þristarnir hjá KR komu úr mjög erfiðri stöðu en þetta var bara einn af þessum leikjum þar sem allt dettur.

Keflvíkingar eru ekki mikið fyrir að láta rassskella sig í körfubolta og náðu að klóra í bakkann í þriðja leikhluta og í reynd unnu þeir leikhlutann 19-23 en munurinn var þegar orðinn of mikill. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 74-60 en snögglega í þeim fjórða voru KR-ingar komnir að nýju með 20 stiga mun og lokatölur urðu því 93-72.

Þetta er í annað sinn sem gestalið í DHL-Höllinni nær ekki að skora 80 stig eða meira á KR og vörn heimamanna mun vafalítið fleyta þeim langt í vetur.

Landsliðsþrenna KR bara hitanna og þungann í dag þar sem Jakob Örn var stigahæstur með 23 stig, 4 stoðsendingar og 3 fráköst. Helgi Már Magnússon var með 22 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar og Jón Arnór Stefánsson gerði 19 stig og tók 3 fráköst.

Hjá Keflvíkingum var Gunnar Einarsson með 17 stig en næstur honum var Sverrir Þór Sverrisson með 16 stig.

KR setti niður 17 af 29 þristum sínum í kvöld á meðan Keflavík setti aðeins niður 4 af 19 þristum sínum. Bæði lið náðu mest 9 stiga áhlaupi án þess að andstæðingurinn næði að svara og nokkrum sinnum leit út fyrir að Keflavík ætlaði að ná KR en heimamenn héldu ró sinni og unnu öruggan sigur. Nú hefur KR leikið tvo heimaleiki í röð en leika næst gegn Blikum á útivelli og Keflavík mætir ÍR.

[email protected]

{mosimage}

(Helgi Már Magnússon í kunnuglegri stellingu í kvöld)

Fréttir
- Auglýsing -