spot_img
HomeFréttirKR sigur í Stykkishólmi

KR sigur í Stykkishólmi

Snæfell og KR áttust við í Stykkishólmi í fyrsta leik á nýju ári. Fyrir leikinn var Snæfell í næst neðsta sæti með 6 stig en KR sat í efsta sæti Iceland Express deildar kvenna með 22 stig. KR unnu fyrri leik þessara liða örugglega og því var ljóst að um erfiðan leik var að ræða fyrir Snæfell.
Snæfellskonur tefldu fram nýjum erlendum leikmanni en hin bandaríska Kristen Green sem hafði verið ein af þeirra bestu leikmönnum leikur ekki meira með liðinu þar sem hún er farin til síns heima. Hún sleit liðbönd fyrir jól. Í hennar stað er komin samlandi hennar Sherell Hobbs.
 
Leikurinn var í járnum framan af og virtust bæði lið vera að ná áttum eftir langt og gott jólafrí. Staðan var 7-8 fyrir KR þegar um 4 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Sóknaleikur Snæfellinga virkaði ráðleysislegur og áttu Snæfellingar erfitt með að brjótast upp að körfu mótherjanna en þar réð Signý Hermannsdóttir ríkjum. KR-ingar klúðruðu mörgum opnum skotum og gerðu bæði lið sig oft sek um að missa boltann klaufalega. KR-ingar skoruðu síðustu 7 stig fyrsta leikhluta og leiddu 8-15. Margrét Sturludóttir var komin með 7 stig hjá KR en hjá Snæfelli var Sherell Hobbs komin með 6 stig.
 
Snæfellingar skoruðu fyrstu 5 stig annars leikhluta og liðu næstum 5 mínútur þangað til KR konur komust á blað. Það segir margt um gang leiksins en hittni hjá leikmönnum var ekki góð og mikið var um slæmar sendingar. Snæfellingar náðu svo forystu í leiknum þegar Sherell Hobbs setti niður þriggja stiga körfu í þann mund sem skotklukkan rann út og breytti stöðunni í 18-17. Benedikt Guðmundsson þjálfari KR sá ástæðu til þess að taka leikhlé þá og lesa yfir sínum konum enda voru KR konur bara búnar að skora 2 stig á fyrstu 7 mínútum leikhlutans. Snæfellingar héldu uppteknum hætti með pressuvörninni sem hafði virkað ágætlega framan af leik og náðu að halda aftur af KR konum. Björg Einarsdóttir skoraði svo flautukörfu í lok annars leikhluta og leiddu Snæfellskonur 22-21. Hjá Snæfelli var Sherell Hobbs með 11 stig og 3 fráköst en hjá KR konum var Margrét Sturludóttir með 9 stig og Hildur Sigurðardóttir og Signý Hermannsdóttir með 4 stig hvor.
 
Í byrjun þriðja leikhluta fór svo að draga í sundur með liðunum en þá keyrðu KR konur upp hraðann með Snæfellinginn Hildi Sigurðardóttur fremsta í flokki. Þær settu niður 9 stig í röð og komust aftur yfir. Ráðleysi virtist einkenna sókn Snæfellinga og áttu þær í stökustu vandræðum með að brjóta upp þétta vörn gestanna úr vesturbænum. KR konur voru grimmar og pressuðu bakverði Snæfellinga strax við miðlínu sem leiddi oft til þess að þær tóku upp boltann og áttu erfitt með að koma honum frá sér. KR-ingar náðu svo 14 stiga forystu áður en þriðji leikhluti var úti og róðurinn því orðinn þungur fyrir heimakonur. Margrét Sturludóttir var kominn með 14 stig og Sherell Hobbs með 17 stig fyrir Snæfellinga.
 
Jafnræði var með liðunum í byrjun fjórða leikhluta og skiptust liðin á að skora. Leikmenn fóru svo að týnast útaf með 5 villur, fyrst Gunnhildur Gunnarsdóttir hjá Snæfelli og svo Margrét Sturludóttir í KR. KR konur náðu svo 20 stiga forystu um miðjan fjórðunginn sem þær héldu út leikinn og sigruðu loks 47 – 76. Stigahæstar í liði KR voru þær Jenny Finora með 15 stig og 4 fráköst en Margrét Sturludóttir var með 14 stig og þrjú fráköst. Í liði Snæfells var Sherell Hobbs með 18 stig og fjögur fráköst en þar á eftir kom Björg Einarsdóttir með 10 stig. Snæfell situr en í næstneðsta sæti eftir þennan leik með 6 stig en KR konur eru sem fyrr á toppnum með 24 stig. Næsti leikur Snæfells er heimaleikur á móti Keflavík en KR konur fá Hamar í heimsókn í DHL höllina.
 
Þorsteinn Eyþórsson
Fréttir
- Auglýsing -