11:28
{mosimage}
(Monique Martin gerði 18 stig og tók 13 fráköst fyrir KR gegn Fjölni í gær)
KR fóru í Grafarvog í gærkvöld og öttu kappi við Fjölni í Iceland Express deild kvenna. Leikurinn var ekki sá besti sem sést hefur hjá KR konum og á sama tíma áttu Fjölnisstelpur flottan dag. Neistinn var þó kveiktur á réttum tíma og KR náði siglingu á síðustu mínútunum sem skilaði sigri 58 – 68. Frá þessu er greint á www.kr.is/karfa
Fyrri hálfleikur var erfiður af hálfu KR kvenna, það vantaði flæði í leikinn og á sama tíma áttu Fjölnisstelpur ágætis start. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 19-13. Í öðrum leikhluta skiptust liðin á að skora en Fjölnir var þó alltaf skrefinu á undan leiddar af erlenda leikmanni sínum Slavica og Grétu Maríu, þjálfara sínum sem átti góðan leik. Staðan í hálfleik var 32-28.
Í seinni hálfleik héldu KR konur áfram að elta, Monique Martin dró vagninn í sókninni hjá KR og Rakel Viggósdóttir kom gríðarsterk inn í vörnina á mikilvægum tímapunkti. Eftir þriðja leikhluta var staðan 49-44. KR konur komust á bragðið í síðasta leikhlutanum, Guðrún Ámundadóttir leiddi vörnina og Monique sóknina sem fyrr.
Þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir setti Monique niður þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 55-57 og KR yfir í fyrsta skipti í langan tíma sem kveikti greinilega hungur í liðinu sem stal boltum hvað eftir annað með góðri vörn. Gréta María braut á Monique í næstu sókn og fékk þar með sína 4 villu. Monique fór á línuna og setti bæði niður, staðan 55-59 þegar 2:07 voru eftir, Gréta setti niður þrist en Fjölnisstelpur komust ekki lengra þar sem KR kláraði leikinn með flottri vörn, stolnum boltum, hraðupphlaupum og ekki síst á vítalínunni. KR vann leikhlutann 24-9 og lokastaða því 58 – 68. Skorið dreifðist vel en stigahæstar voru þær Mo með 21 og Hildur með 12.
Í viðtali við heimasíðunna sagðist Jóhannes Árnason, þjálfari vera gríðarlega ánægður með sigurinn og stelpurnar hafi barist eins og ljón. Fjölnisliðið hafi átt frábæran dag og því hafi verið sterkt af liðinu að klára leikinn.



