spot_img
HomeFréttirKR sigraði baráttuna um Borgina

KR sigraði baráttuna um Borgina

ÍR-ingar mættu í DHL Höllina í kvöld staðráðnir í að taka borgarslaginn og eignast hinn svokallaða montrétt. Allavega tímabundið. Liðin áttu ólíku gengi að fagna í síðustu umferð þar sem ÍR unnu stórsigur á Hetti og KR-ingar töpuðu óvænt fyrir Stjörnunni í Ásgarði. Stuðningsmenn liðanna mættu mistilbúnir til leiks og byrjaði leikurinn frekar rólega. KR höfðu þó undirtökin allan leikinn utan áhlaups sem ÍR átti í lok 3. leikhluta og byrjun þess 4. Þeir sigldu svo heim nokkuð öruggum sigri 88-78.

Jalen Jenkins var atkvæðamestur KR-inga með 30 stig og 10 fráköst en Matthías Orri Sigurðarson skoraði 19 fyrir gestina úr Breiðholtinu.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

KR skutu einfaldlega miklu betur heldur en ÍR í kvöld. Nýting ÍR (41%) var ekkert skelfileg en þeir leyfðu KR-ingum að skjóta 50% utan af velli. Það er ekki líklegt að vinna meistara KR með þannig skotnýtingu. KR átti einnig frákastabaráttuna mest allan leikinn en sú tölfræði lagaðist aðeins fyrir ÍR í lokin þegar þeir fóru í hvert einasta sóknarfrákast eins og það væri þeirra síðasta.

 

Þáttaskil

KR átti fínan kafla í byrjun seinni hálfleiks þar sem þeir náðu allt að 14 stiga forystu með öguðum sóknarleik með Jalen Jenkins fremstann í flokki. Á meðan að þessu stóð áttu ÍR fullt í fangi með að láta boltann vinna fyrir sig og þetta leystist upp í tilviljanakenndan 1 á 1 sóknarleik. Gegn liði eins og KR er það hættulegt því þeir eru fljótir að refsa fyrir mistök og byggja þannig upp forskot.

 

Atvikið

Undir lok þriðja leikhluta átti Daði Berg neyðarskot yfir allann völlinn sem danglaðist af spjaldinu og niður. Þetta skot minnkaði muninn í 5 stig og blés ÍR von í brjóst. Daði átti sjálfur fínann leik varnarlega og sóknarlega og býst ég við honum sterkum í vetur.

Þá er einnig vert að minnast á troðslutilraun Kristófer Acox undir lokin. Sá ætlaði að hamra honum niður en troðslan klikkaði og boltinn fór út á miðan völl.

 

Hetjan

Jalen Jenkins var algerlega frábær fyrir KR í kvöld. Spilaði flotta vörn og var illviðráðanlegur undir körfunni sóknarmegin. Hann kláraði leikinn með 30 stig með 84% skotnýtingu (11/13), setti niður 8 af 10 vítum sínum, tók 10 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal 2 boltum. Virkilega flott frammistaða og það hreinlega geislaði af honum sjálfstraustið. Þá var Kristófer Acox virkilega sterkur með 17 stig og 11 fráköst.

 

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Sigurður Orri Kristjánsson

 

Myndasafn / Davíð Eldur

Fréttir
- Auglýsing -