spot_img
HomeFréttirKR setti stóru skotin

KR setti stóru skotin

 

Þriðji Íslandsmeistaratitill KR-inga í röð er innan seilingar eftir 82-88 spennusigur á Haukum í úrslitum Domino´s-deildar karla í kvöld. Staðan í einvíginu er 2-0 KR í vil sem eiga nú séns á því að vinna þann stóra frammi fyrir sínum áhorfendum í DHL-höllinni næstkomandi mánudag. Lokatölur í Hafnarfirði voru 82-88 KR í vil. Haukar sýndu ríkjandi meisturum klærnar og komu sterkir til baka eftir útreiðina í fyrsta leik. Heimamenn léku án Kára Jónssonar sem er meiddur og skýrist það á næstu dögum hvort hann verði með í þriðja leiknum úti í DHL-höll. Michael Craion var frábær í kvöld í liði KR með 27 stig og 13 fráköst en Brandon Mobley átti ekki síðari leik í liði Hauka með 28 stig  og 14 fráköst.

Í fjórða leikhluta voru það stóru skotin sem duttu hjá KR eða Craion sem var að svíða vörn heimamanna og rifjuðust þá upp orð Hauks Helga Pálssonar að þegar þessi gír er á KR þá líta þeir út eins og svikamylla, sama hvað þú gerir þeir eiga alltaf mótleikinn í handraðanum. 

 

Darri Hilmarsson opnaði leikinn með þrist fyrir KR en Darri var með 35,7% þriggja stiga nýtingu í deildarkeppninni en hefur heldur betur bætt við sig í úrslitakeppninni þar sem hann er með 46,8% þriggja stiganýtingu eftir níu leiki! Gestirnir úr vesturbænum fóru betur af stað með þéttu vörnina sína klára í slaginn og heimamenn í Haukum áttu í basli með að finna körfuna. Mobley virtist einn fær um að skora í upphafi og gerði sjö fyrstu stig Hauka í leiknum en þá leiddu KR-ingar 7-15. Finnur Atli Magnússon setti fyrsta þrist Hauka í leiknum en því svaraði Brynjar Þór Björnsson strax í sömu mynt, 10-20 og gestirnir leiddu svo 12-21 að loknum fyrsta leikhluta. Mobley var með 9 stig og 5 fráköst hjá Haukum í fyrsta leikhluta en Brynar Þór með 7 stig og Helgi Magnússon 6 og 4 fráköst. 

 

Pavel Ermolinski sást lítið sem ekkert í öðrum leikhluta þar sem hann fékk sína þriðju villu og snemma fékk Mobley líka sína þriðju í liði Hauka og heimamenn allt annað en sátir með þessar „soft“ villur sem verið var að dæma á þá.

 

Haukar fóru engu að síður betur af stað, opnuðu annan leikhluta með 6-2 dembu og Finnur Atli Magnússon snögghitnaði, setti þrjá þrista í jafn mörgum tilraunum og staðan jöfn 37-37 í hálfleik. 

 

Guðni Heiðar Valentínusson fékk að spreyta sig gegn Craion og fórst það bara vel úr hendi og bætti við einnig tveimur stigum á sóknarendanum sem voru hans fjórðu stig í úrslitakeppninni en hann skoraði tvö stig í seríunni gegn Þór og lék ekkert í seríunni gegn Tindastól. 

 

Craion var með 12 stig og 2 fráköst í liði KR í hálfleik en Finnur Atli með 15 stig og 8 fráköst í liði Hauka. Nokkuð bar á því í fyrri hálfleik að mjúkar villur væru dæmdar í leiknum og þá aðallega á Hauka og kunnu heimamenn því illa og óhætt að segja að það hafi verið fótur fyrir þeirri óánægju.

 

Skotnýting liðanna í hálfleik

Haukar: Tveggja 43% – þriggja 30% – víti 57% (4-6)

KR: Tveggja 43% – þriggja 36% – víti 54% (7-13)

 

Hafnfirðingar léku eins og sá er valdið hefur í þriðja leikhluta, mættu vel stemmdir til leiks og Haukur Óskarsson fór loks að láta á sér kræla er hann kom Haukum í 59-58 með þrist þegar rúm mínúta lifði af leikhlutanum. Hjálmar Stefánsson mætti með annan þrist 62-58 en KR-ingar áttu lokaorðið og minnkuðu muninn í 62-60 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Haukar gerðu því tvo leikhluta í röð 25 stig á KR en það átti eftir að breytast í þeim fjórða. 

 

Jafnt var á öllum tölum í fjórða en Haukar sem voru með Finn Atla sjóðheitan í fyrri hálfleik hefðu betur haldið Finni við efnið því hann skoraði ekki stig í þeim síðari! Í stöðunni 71-71 fóru stóru skotin að detta hjá KR, Brynjar Þór kom KR í 73-78 með þrist og Darri Hilmarsson fylgdi þar skammt á eftir er hann kom KR í 75-83 með rúma mínútu eftir og ísaði þar leikinn! Heimamenn í Haukum áttu ekki afturkvæmt eftir þetta og því voru það stóru skotin og Craion sem skildu að í kvöld, téð svikamylla að sönnu. Lokatölur 82-88. 

 

Vissulega mikil bæting á brag Hauka milli leiks eitt og tvö en þeir hafa enn ekki fundið lykilinn að sigri gegn KR á þessu tímabili og nú fá þeir í raun bara eitt tækifæri til viðbótar. Þá er eftir annað og það er að Haukar þurfa að vinna KR þrisvar sinnum í röð til að verða meistarar og ekki ósennilegt að stuðullinn á því að það gerist sé himinhár! Svo er það KR, en þetta fas höfum við oft séð á þeim, flatir á köflum en lúra í árásarstöðu líkt og rándýrið sem þeir eru, reiðubúnir að veita náðarhöggið á örskömmum tíma. Nákvæmlega það sem gerðist í kvöld. Hvað varðar svo mjúkvillurnar, höldum þeim utan við úrslitaseríuna takk.

 

Tölfræði leiksins 

 

Myndasafn – Bára Dröfn

Umfjöllun/ viðtöl – Jón Björn 

Fréttir
- Auglýsing -