spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaKR sendir erlenda leikmenn sína heim

KR sendir erlenda leikmenn sína heim

KR hefur sent erlend leikmenn sína í Dominos deildum karla og kvenna heim. Staðfestir félagið þetta rétt í þessu með fréttatilkynningu.

Fréttatilkynninguna er í heild hægt að lesa hér fyrir neðan, en í henni er tekið fram að félagið haldi að ekki verði spilað meira á þessu ári og því geri það sér vonir um að sjá leikmennina aftur snemma á næsta ári.

KR ekki eina liðið sem sendir erlenda leikmenn sína heim, en í gær sagði Karfan frá því að Haukar hefðu gert slíkt hið sama. Þá hefur Karfan óstaðfestar heimildir þess efnis að fleiri félög Dominos deildarinnar hafi nú þegar sent leikmenn sína frá landinu.

Fréttatilkynning KR:

Í ljósi þeirra sóttvarnaaðgerða sem stjórnvöld hafa sett á og þeirrar óvissu sem framundan er varðandi mótahald, hefur körfuknattleiksdeild KR tekið þá ákvörðun að senda erlenda leikmenn meistaraflokka félagsins til síns heima. Þetta er gríðarlega þungbær og erfið ákvörðun en stjórn deildarinnar telur að þetta sé það eina rétta og ábyrga í þeim aðstæðum sem uppi eru í dag.


Nú þegar tveir mánuðir eru síðan liðin komu saman til æfinga, þá hefur karlalið okkar leikið einn deildarleik á meðan kvennaliðið hefur leikið tvo. Því næst var öllu mótahaldi frestað tímabundið og lið á höfuðborgarsvæðinu hafa mátt æfa mjög takmarkað, þó eitthvað án snertingar og nálægðar.


Það gefur augaleið að án mótahalds eru engar forsendur til að halda erlendum leikmönnum á landinu með tilheyrandi kostnaði. Okkar traustu styrktaraðilar og bakhjarlar standa sem fyrr þétt við bakið á KR en það þarf ekki fjölyrða um það tekjutap sem íþróttalið í afreksstarfi hafa orðið fyrir, fyrst vegna áhorfendatakmarkana og svo án leikja. Af þeim ástæðum telur stjórn körfuknattleiksdeildarinnar að það væri óábyrgt að gera ekkert og bíða í von og óvon um framhaldið.


Það er mikilvægt að horfast í augu við þann veruleika sem blasir við okkur og miðað við þær aðstæður sem eru uppi í samfélaginu verður að teljast líklegt að mótahald hjá meistaraflokkum muni ekki hefjast fyrr en í fyrsta lagi í janúar 2021.


Stjórn körfuknattleiksdeildar KR vill þakka þessum frábæra hópi leikmanna þeirra framlag í bili en vonandi eigum við eftir að sjá þau aftur hér á landi í svörtu og hvítu fljótlega á nýju ári.


Verst þykir okkur að yngri flokka starfið mun áfram liggja niðri og er það miður, en eitthvað sem við verðum að sætta okkur við. Það er mikilvægt að hvetja ungviðið að halda áfram hreyfingu eins mikið og unnt er og þá með tilliti til núgildandi reglna. En eins og marg oft komið hefur fram þá erum við í þessu öll saman og saman munum við sigrast á þessum faraldri, vonandi verður lífið komið í eðlilegra horf fljótlega á næsta ári.
Sjáumst vonandi út í KR um leið og tækifæri gefst til.


Fyrir hönd körfuknattleiksdeildar KR
Böðvar Guðjónsson
formaður

Fréttir
- Auglýsing -