22:38
{mosimage}
(Guðrún Ámundadóttir átti fína spretti hjá KR í kvöld)
Gull- og silfurlið Íslandsmótsins í fyrra munu mætast í úrslitum Poweradebikarkeppninnar í kvennaflokki á sunnudag en rétt í þessu voru KR-ingar að leggja Grindavík að velli í undanúrslitum sem fram fóru í Laugardalshöll. Lokatölur leiksins voru 69-60 KR í vil en Vesturbæingar léku grimma vörn gegn ríkjandi bikarmeisturum Grindavíkur og neyddu gular oft og tíðum til að taka erfið og ótímabær skot.
Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og að loknum fyrsta leikhluta var staðan 18-16 Grindavík í vil og áfram leiddu gular í hálfleik 33-32.
Í síðari hálfleik small vörn KR rækilega saman og gerðu KR-ingar 19 stig í röð án þess að Grindavík næði að svara og lögðu þar með góðan grunn að sigri sínum í kvöld. Tiffany Roberson gerði fyrstu stig Grindavíkur í þriðja leikhluta þegar rétt tæpar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Gular náðu þó smá rispu undir lok leikhlutans og liðin gengu til fjórða leikhluta í stöðunni 57-43 KR í vil.
Grindvíkingar náðu að saxa enn frekar niður forskot KR og minnkuðu muninn í 60-53 en nær komust þær ekki og lokatölurnar urðu 69-60 KR í vil eins og fyrr greinir.
Sigrún Ámundadóttir var drjúg í liði KR í kvöld með 19 stig 6 fráköst en henni næst kom Hildur Sigurðardóttir með 15 stig og 15 fráköst. Þá átti Guðrún Ámundadóttir einnig góðan dag hjá KR með 12 stig.
Hjá Grindavík var Tiffany Roberson með 19 stig og 7 fráköst en var engu að síður lítið ógnandi í sókninni þar sem KR tókst vel að þétta teiginn. Grindavík tók 21 þriggja stiga skot í leiknum og hitti aðeins úr fjórum þeirra og malaði KR frákastabaráttuna með 51 frákast gegn 33 hjá Grindavík.
Það eru því KR og Keflavík sem leika til úrslita um Poweradebikarinn næsta sunnudag og fróðlegt verður að sjá hvort KR takist það nú sem ekki tókst í fyrra. Að hrifsa titil af Keflavík.
Stigaskor KR:
Sigrún 19, Hildur 15, Guðrún 12, Helga 9, Guðrún 6, Heiðrún 3, Sigurborg 2, Lilja 2 og Kristín Björk 1.
Stigaskor Grindavíkur:
Tiffany 19, Petrúnella 15, Ingibjörg 9, Íris 7, Jovana 4, Berglind 2, Ólöf 2 og Helga 2.
{mosimage}