spot_img
HomeFréttirKR of sterkir fyrir Njarðvík

KR of sterkir fyrir Njarðvík

Íslands- og bikarmeistarar KR voru einum of stór biti fyrir Njarðvík að kyngja í kvöld þegar liðin mættust í Iceland Express deild karla. Leikurinn var nokkuð jafn framan af en KR voru mest allan tímann með yfirhöndina og gott "run" í fjórðaleikhluta gerði útslagið í verðskulduðum 98:88 sigri. 
 
 Njarðvíkingar komu sterkari til leiks og virtust vera með sjálfstraustið í botni. Á meðan voru það KR sem mættu á hælunum og voru hreinlega slegnir yfir því að þessi "guttar" í Njarðvík gætu spilað körfuknattleik.  Leikurinn var þó jafn að mestu allan fyrir hálfleik eða þangað til að dró á seinni hluta hans að KR sigu framúr og náðu ágætis forskoti.  Hrafn Kristjánsson nýtti mannskap sinn vel og allir fengu góða hvíld.  Sama hver kom inná allir náðu að skila einhverju í púkkið.  Hjá Njarðvík var svipað uppá teningnum nema hvað að allir virtust ekki alveg tilbúnir í leikinn. Í suma vantaði einfaldlega þor. 
 
Njarðvík héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og gerðu gestum sínum erfitt fyrir. Og gott betur því í fjórða leikhluta komust heimamenn yfir 73:72 og allt "moment" í leiknum var hjá heimamönnum.  En Adam var ekki lengi í paradís því það kom 16:0 kafli í boði vesturbæinga og allt í einu staðan orðin 73:88 gestina í vil. Þetta bil náðu heimamenn aldrei að brúa og endaði leikurinn í 10 stiga sigri KR nokkuð verðskuldað. 
 
LIð KR er vel mannað og þau skipti sem urðu á erlendum leikmönnum virðist vera að smella hjá þeim. Serbinn Dejan Sencanski er stórhættulegur og reif upp riffilinn hvað eftir annað í kvöld og refsaði þeim grænu grimmt.  Sem fyrr segir þá rúllaði mannskapur KR vel og allir skiluðu fínu framlagi.  Hjá Njarðvík voru sem fyrr þeir Echols og Holmes atkvæðamestir. Holmes sem við köllum hér eftir "jójó strákinn" var með frábæran fyrri hálfleik en náði ekki að fylgja því eftir í þeim seinni. Ótrúleg geta sem hefur sést frá þessum pilt en það er stundum eins og hann sé að spara sig fyrir eitthvað.  Óvænt en þó kannski ekki óvænt framlag kom frá bráð efnilegum pilt númer 8 í Njarðvík en það er Páll Kristinnson. Palli K eins og hann er jafnan kallaður var að skila mikilli baráttu í lið Njarðvíkur , setti niður 15 stig og hirti 7 fráköst. Ekki dónalegt að fá svona framlag frá háöldruðum Palla K.

Njarðvík: Travis Holmes 27/5 fráköst/8 stolnir/3 varin skot, Cameron Echols 23/10 fráköst, Páll Kristinsson 15/7 fráköst, Elvar Már Friðriksson 10, Oddur Birnir Pétursson 6, Styrmir Gauti Fjeldsted 3, Hjörtur Hrafn Einarsson 2, Óli Ragnar Alexandersson 2, Maciej Stanislav Baginski 0, Ólafur Helgi Jónsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0. 
 
KR: Dejan Sencanski 21/6 fráköst, Robert Lavon Ferguson 17/6 fráköst/3 varin skot, Joshua Brown 17/5 fráköst/7 stoðsendingar, Finnur Atli Magnusson 10/8 fráköst, Ólafur Már Ægisson 9, Martin Hermannsson 8/5 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 6/4 fráköst, Hreggviður Magnússon 5, Björn Kristjánsson 3, Jón Orri Kristjánsson 2, Kristófer Acox 0, Ágúst  Angantýsson 0. 
 
Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Georg Andersen  
Fréttir
- Auglýsing -