KR vann Fjölni í Dalhúsum í kvöld í leik sem hætti að vera spennandi eftir fyrri hálfleik. Gestirnir úr Vesturbænum settu í fluggírinn og skildu heimamenn eftir í seinni hálfleik og leikurinn endaði 80-99.
Fjölnir byrjaði leikinn ágætlega og tóku fljótlega forystuna þó að KR-ingar næðu oft að jafna. Erlendir leikmenn heimamanna voru sterkir framan af en KR gat tekið forystuna aftur á 12. mínútu leiksins. Fjölnismenn hættu þó ekki og spiluðu áfram af hörku. Eftir gott áhlaup endurheimtu þeir gulklæddu forskotið í stutta stund en KR lokaði fyrri hálfleiknum vel og voru yfir í hálfleik, 45-47.
Það vakti athygli að Victor Moses kom ekki aftur inn á í seinni hálfleik og þar með misstu Fjölnismenn sinn besta mann til að stöðva Michael Craion. Moses hafði takmarkað Craion án hjálpar í fyrri hálfleik en núna fékk Mike að leika lausum hala og KR óx ásmegin. Vesturbæingarnir fóru að spila betur saman og vörnin fór að smella betur þannig að þeir voru yfir með átta stigum eftir þriðja leikhluta, 62-70.
Heimamenn virtust algjörlega missa trúnna í lokafjórðungnum og KR hélt áfram að fá auðveldar körfur og gera allt erfitt fyrir Fjölni. Þrátt fyrir ítrekuð leikhlé hjá þjálfara heimamanna, Fali Harðarsyni, þá gátu strákarnir í Fjölni ekki hætt að svekkja sig fyrr en undir lokin þegar að þeir löguðu stöðuna lítillega. Lokastaðan var 80-99, KR í vil.
Kjarninn
Fjölnir áttu einfaldlega ekki svör við öllum vopnum KR í kvöld. Victor Moses gat stöðvað Mike Craion á köflum í fyrri hálfleik en þegar að hann fór út af í hálfleik með nárameiðsli þá virtust heimamenn hökta aðeins og missa taktinn. KR fór að haga sér eins og meistaraefnin sem að þeir hafa verið kallaðir og gerðu út um leikinn hægt og örugglega.
Lykill leiksins
Michael Craion var flottur fyrir KR í leiknum með 25 stig, 11 fráköst, tvo stuldi og eitt varið skot. Aðrir góðir voru Jón Arnór Stefánsson með 19 stig og sjö fráköst og Matthías Orri Sigurðsson með 13 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar.
Jere Vucica og Róbert Sigurðsson voru góðir fyrir Fjölni í leiknum í kvöld. Jere skoraði 20 stig, tók 9 fráköst og átti einu suddalega viðstöðulausa troðslu (e. alley-oop) á meðan að Róbert Sigurðsson hlóð í tvöfalda tvennu með 12 stigum og ellefu stoðsendingum.
Áhugaverð tölfræði
Eins og áður sagði hefði Victor Moses mögulega skipt miklu máli fyrir Fjölnismenn, enda var hann eini mínútuhái leikmaður liðsins sem kom út í jákvæðari tölu í plús/mínus tölfræðinni.
Kristó kominn aftur?
Kristófer Acox, sem fór í aðgerð rétt fyrir tímabilið og var spáð endurkomu í kringum jólin, kom inn á í leiknum og endaði á að spila heilar 18 mínútur. Hann var að vísu ekki að spretta úr spori eins mikið og hann gerir vanalega og setti sniðskot í nokkur skipti þar sem að hann hefði áður skellt í troðslu, en var bara ágætur með 9 stig, 4 fráköst, 2 stoðsendingar og tvö varin skot.
Hvað næst?
Fjölnir heimsækir Hauka á Ásvöllum í næstu umferð. Haukar hafa verið eilítið upp og niður í fyrstu umferðunum en munu ekkert leggjast niður fyrir liði eins og Fjölni. Það er vonandi að Victor Moses verði orðinn heill fyrir leikinn.
KR ætla að taka á móti Þór Þorlákshöfn í Vesturbænum í næsta leik. Þeir hafa mætt sterkari liðum núna í byrjun tímabilsins en verða að passa sig að mæta ef að lesa má í upp og niður byrjun þeirra gegn Fjölni.
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson



