spot_img
HomeFréttirKR meistari meistaranna: Unnu stórsigur á Keflavík

KR meistari meistaranna: Unnu stórsigur á Keflavík

 
Ari Gunnarsson er búinn að landa sínum fyrsta titli með KR konum en hann tók við liðinu fyrir nokkrum dögum. KR var rétt í þessu að bursta ríkjandi Íslands- og bikarmeistara Keflavíkur í leik um meistara meistaranna sem fram fór í DHL-Höllinni. Lokatölur voru 88-49 KR í vil þar sem Reyana Colson gerði 23 stig í liði KR og 13 fráköst. Margrét Kara Sturludóttir var ekki langt undan með 22 stig og 10 fráköst.
Gestirnir úr Keflavík voru beittari í upphafi leiks en KR-ingar tóku snemma á rás og náðu 9-0 áhlaupi og breyttu stöðunni í 16-9 sér í vil. Þær Margrét Kara Sturludóttir og Helga Einarsdóttir voru báðar með tvær villur eftir fyrsta leikhluta en þær villur skiluðu þéttri KR vörn sem gerði Keflavík oft lífið leitt. Röndóttar leiddu 20-14 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Reyana Colson gerði bakvörðum Keflavíkur lífið leitt í öðrum leikhluta en ungir leikstjórnendur Keflvíkinga þurfa að herða róðurinn á meðan Ingibjörg Jakobsdóttir er enn utan vallar sökum meiðsla. KR-ingar höfðu fín tök á öðrum leikhluta og leiddu 42-26 í hálfleik.
 
Reyana Colson var með 13 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar í hálfleik og Margrét Kara Sturludóttir 10 stig og 6 fráköst í liði KR. Hjá Keflavík var Jaleesa Butler með 8 stig og 12 fráköst.
 
KR gerði fjögur fyrstu stigin í síðari hálfleik og þeir Falur og Pétur tóku leikhlé fyrir Keflvíkinga sem skilaði ekki tilætluðum árangri því KR byrjaði 9-0 og leiddu 51-26 eftir fimm mínútna leik. Aníta Eva Viðarsdóttir kom Keflvíkingum loks á blað er hún braust í gegn, skoraði og fékk villu að auki. KR hafði það frekar náðugt í þriðja leikhluta þökk sé þéttum varnarleik og leiddu 61-36 fyrir fjórða leikhluta þar sem Sigrún Ámundadóttir setti niður flautuþrist. Þristurinn var langþráður enda hafði hún brennt af sjö þristum þar áður.
 
 
Fjórði leikhluti var aldrei spennandi, vörn KR haggaðist ekki og ljóst að þær verða illar viðureignar í vetur. Lokatölur reyndust 88-49 KR í vil og Vesturbæingar því meistarar meistaranna þetta árið.
 
Þær Reyana Colson og Margrét Kara Sturludóttir báru af í liði KR í dag og fengu einnig veglegt liðsframlag en Keflvíkingar þurfa að vaxa úr grasi og það fljótt, þ.e. bakvarðasveit liðsins á meðan Ingibjörg Jakobsdóttir er enn að glíma við meiðsli.
 
Stiklur:
-Birna Valgarðsdóttir lék ekki með Keflavík í dag sökum veikinda.
-Ingibjörg Jakobsdóttir er enn meidd í liði Keflavíkur sem og Marín Rós
-Liðin tóku alls 46 þriggja stiga skot, hittu úr 9!
-Ari Gunnarsson hefur stýrt KR í nokkra daga og þegar búinn að vinna titil í sínum fyrsta leik.
-Keflavík var stigalaust í næstum 10 mínútur í síðari hálfleik
 
Stigaskor:
 
Keflavík: Jaleesa Butler 16/20 fráköst/5 varin skot, Pálína Gunnlaugsdóttir 13/5 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 9, Aníta Eva Viðarsdóttir 3, Hrund Jóhannsdóttir 3/7 fráköst, Lovísa Falsdóttir 3, Sandra Lind Þrastardóttir 2, Sigrún Albertsdóttir 0, Bríet Sif Hinriksdóttir 0, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0, Helga Hallgrímsdóttir 0/7 fráköst, Katrín Fríða Jóhannsdóttir 0.
 
KR: Reyana Colson 23/13 fráköst/7 stolnir, Margrét Kara Sturludóttir 22/10 fráköst/6 stolnir, Bryndís Guðmundsdóttir 13/6 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 12/9 fráköst, Helga Einarsdóttir 5/6 fráköst, Hafrún Hálfdánardóttir 4, Kristbjörg Pálsdóttir 3, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 2, Rannveig Ólafsdóttir 2, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 2, Anna María Ævarsdóttir 0, Helga Hrund Friðriksdóttir 0.
 
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Jakob Árni Ísleifsson
 
Myndir/ Tomasz Kolodziejski [email protected]  
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson[email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -