Í fyrsta sinn í sögu hins fornfræga vesturbæjarveldis KR hefur liðið orðið Íslandsmeistari tvö ár í röð eftir úrslitakeppni. Þessum áfanga náði klúbburinn síðast þegar deildarkeppnin var við lýði á árunum 1978 og 1979. KR lagði Tindastól 3-1 í úrslitum Domino´s-deildar karla en fjórða viðureign liðanna fór 81-88 fyrir KR frammi fyrir rafmagnaðri stemmningu í Síkinu.
Fæstir hefðu fyrir tímabilið getað gert sér í hugarlund að Tindastóll myndi berja sér leið í undanúrslit bikarsins og svo alla leið inn í úrslit Íslandsmótsins en liði hefur verið hrikalega öflugt í vetur undir stjórn þeirra Israel Martin og Kára Marissonar. KR á hinn bóginn hefur verið það lið sem flestir bentu á sem líklegasta til afreka fyrir tímabilið og reyndist margur spámaðurinn sannspár enda valinn maður í hverju rúmi og urmull landsleikja sem hvílir á herðum þessa kappa. Vel verðskuldaður titill röndóttra og Michael Craion réttilega valinn besti leikmaður úrslitaseríunnar, tröll að burðum og fáir ef nokkrir hérlendis sem standast honum snúning.
Að leiknum þá var hann frábær skemmtun þar sem Darrel Lewis sýndi enn eina ferðina að kallinn er einn sá allra besti en 37 stig frá honum í kvöld dugðu því miður ekki fyrir Tindastólsmenn.
Gestirnir úr Vesturbænum byrjuðu betur, Brynjar Þór Björnsson var að finna sig vel í Síkinu með átta stig eftir fyrsta leikhluta og Lewis var ötull einnig heimamegin með 9 af fyrstu 11 stigum Tindastóls. Fjörug byrjun á leiknum en KR var við stýrið og helsta basklag Stólanna í fyrsta hluta var þriðja villan hjá Falke sem kappinn var allt annað en sáttur við. Stólavörnin þrufti samt að vera þéttari, 25 stig í fyrsta leikhluta er örugglega eitthvað sem heimamenn vilja ekki sjá.
Varnarleikur Tindastóls var allur annar og betri í öðrum leikhluta, Lewis stimplaði sig í 20 stig eftir 14 mínútna leik og að sama skapi fékk KR smá högg þegar Darri Hilmarsson fékk dæmda á sig sína þriðju villu og rétt eins og Flake var Darri nokk annað en sáttur.
Pétur Rúnar Birgisson setti risavaxinn þrist þegar mínúta var til hálfleiks og jafnaði metin 38-38 en KR leiddi 39-40 í hálfleik.Darrel Lewis var með 22 stig og 3 fráköst hjá Tindastól í hálfleik og Pétur Rúnar með 9 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Hjá KR var Michael Craion með 12 stig og 6 fráköst og Brynjar Þór Björnsson var með 8 stig í hálfleik og skoraði ekkert í öðrum leikhluta eftir beitta frammistöðu í þeim fyrsta.
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Tindastóll: Tveggja 42% – þriggja 33% og víti 88%
KR: Tveggja 62% – þriggja 31% og víti 100%
Ríkjandi Íslands- og deildarmeistarar KR skörtuðu sjaldséðum hvítum hrafni í upphafi síðari hálfleiks, þrír tapaðir boltar í röð, 10-0 byrjun heimamanna sem fól í sér Dempsey-troðslu svo þið getið rétt ímyndað ykkur hvort Síkið hafi ekki tekið vel undir þegar stigataflan sýndi 49-40. Rútínerað lið eins og KR er nánast ómögulegt að hrista af sér svo röndóttir fóru að saxa og Pavel með tvo sterka þrista í vinstra horninu kom KR í 60-61. KR leiddi svo 62-64 fyrir fjórða og síðasta hluta.
Lewis ærði lýðinn í Síkinu með tveimur þristum á skömmum tíma og kom Tindastól í 73-68 senmma í fjórða leikhluta. Darri Hilmarsson sem hafði verið að hvíla sig á tréverkinu með villusafn á bakinu kom inn og KR-dísilvélin gekk nú á öllum sínum skrokkum. Craion var fleytt nokkrum sinnum í gegnum hakkavélina en hann stóð þá hríð vel af sér og smám saman tóku gestirnir forystuna. Helgi Tjakkur Magnússon setti svo niður svakalega þrista á lokasprettinum, sá fyrsti kom KR í 75-77 og næsti ísaði titilinn vestur í bæ 77-83 með rúma mínútu eftir og KR lætur ekki svona kjörstöðu frá sér sem varð og raunin. Lokatölur 81-88 og þeir röndóttu sem lögðu leið sína norður fögnuðu vel með sínum mönnum í leikslok.
* Myron Dempsey lék sinn fyrsta og eina leik í seríunni í kvöld, var nokkuð lengi í gang en kláraði með 18 stig og 12 fráköst.
* Fjallkonan sjálf afhenti dómurum leiksins leikboltann.
* Í annað sinn í sögunni má Tindastóll sjá gestkomandi lið fagna Íslandsmeistaratitlinum í Síkinu en það gerðu Njarðvíkingar árið 2001.
Myndasafn – Skúli Sig
Tölfræði leiksins



