spot_img
HomeFréttirKR maskínan heldur sínu striki (Umfjöllun)

KR maskínan heldur sínu striki (Umfjöllun)

23:22
{mosimage}

(Það var hart barist í Seljaskóla en KR voru númeri of stórir fyrir ÍR)

Óskabyrjun ÍR gegn KR í Reykjavíkurrimmu liðanna í Iceland Express deild karla varð aldrei neitt annað en óskabyrjun. KR vann sinn tólfta deildarsigur í röð í kvöld með öruggum 80-98 sigri á ÍR í Seljaskóla þar sem Jón Arnór Stefánsson var besti maður vallarins með 20 stig og 5 stoðsendingar. KR hefur nú fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar með 24 stig en Grindavík er í 2. sæti með 20 stig.

Heimamenn í ÍR virtust til alls líklegir í upphafi leiks en misstu Sveinbjörn Claessen snemma meiddan af velli og þegar í síðari hálfleik var komið virtust ÍR-ingar gersamlega bensínlausir. Topplið KR lék af festu með Jón Arnór fremstan í flokki en þeir Jakob, Jason og Darri áttu allir fína spretti.

Heimamenn byrjuðu með látum og komust í 6-0 með tveimur þristum. Ómar Sævarsson var einnig fyrirferðamikill og gerði Jason Dourisseau lífið leitt með mikilli baráttu og góðri vörn. Heimamenn komust í 15-7 og þá tóku KR-ingar leikhlé sem skilaði tilætluðum árangri. Eftir hökt á upphafsmínútunum fór KR maskínan í gang og gestirnir voru ekki lengi að snúa vörn í sókn og komust yfir 21-23 og þannig stóðu leikar að loknum fyrsta leikhluta.

Darri Hilmarsson kom að vanda með góða baráttu af tréverkinu fyrir KR og gerði fjögur fyrstu stig annars leikhluta og hægt og bítandi sigu KR-ingar fram úr heimamönnum. Ómar var sem fyrr að fara illa með Jason Dorisseau en það kom ekki að sök þar sem gestirnir voru að leika mun betri liðsbolta. Þegar líða tók á annan leikhluta veltu margir því óneitanlega fyrir sér hvort ÍR gæti haldið sér inni í leiknum. Liðin gengu til leikhlés í stöðunni 38-52 og KR svaraði spurningunni nokkuð snemma í seinni hálfleik.

{mosimage}
(Ómar Sævarsson)

Á löngum köflum var ÍR fyrirmunað að skora. Jón Arnór stýrði sínum mönnum af röggsemi og allir sem komu inn á völlinn í KR liðinu voru tilbúnir að berjast en heimamenn í ÍR sprungu á upphafsmínútum þriðja leikhluta. KR náði mest upp 26 stiga mun í síðari hálfleik og þó heimamenn næðu að klóra lítið eitt í bakkann var aðeins eitt lið á vellinum í síðari hálfleik.

Lokatölur leiksins voru eins og fyrr segir 80-98 KR í vil en þó KR hafi unnið leikinn þá voru það ÍR-ingar sem höfðu mikla yfirburði í stúkunni. KR Mafían var fjarri góðu gamni og telst það þeim seint til tekna að missa af svona grannaslag!

Jón Arnór Stefánsson gerði 20 stig og gaf 5 stoðsendingar í leiknum og var helsta driffjöðurin í KR liðinu en næstur kom Jakob Örn Sigurðarson með 19 stig og 6 stoðsendingar og Darri Hilmarsson var með 18 stig og 8 fráköst. Ómar Sævarsson fór á kostum í fyrri hálfleik hjá ÍR en í þeim síðari rann æðið af honum og Ómar lauk leik með 20 stig og 10 fráköst. Hreggviður Magnússon var stigahæstur hjá ÍR með 23 stig og ljóst að ÍR-ingar söknuðu sárlega Sveinbjarnar sem fór út af í fyrri háflleik og var með klakapokakælingu á hægri ökkla það sem eftir lifði leiks.

ÍR hefur einnig orðið fyrir töluverðri blóðtöku þar sem miðherjinn Þorsteinn Húnfjörð mun ekki leika meira með liðinu í vetur. Þorsteinn er að flytjast til London á Englandi og verður hans væntanlega sárt saknað í Seljaskóla. KR lék án Helga Magnússonar í kvöld sem er meiddur en væntanlegur inn í hópinn hjá toppliðinu von bráðar. Skarphéðinn Ingason tók sæti Helga í byrjunarliði KR í kvöld.

Tölfræði leiksins
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0xNSZvX2xlYWc9MiZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0xNzc=

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -