spot_img
HomeFréttirKR Lengjubikarmeistari karla 2014

KR Lengjubikarmeistari karla 2014

KR er Lengjubikarmeistari í karlaflokki 2014 eftir 83-75 sigur á Tindastól en úrslitaviðureign liðanna fór fram í Ásgarði í Garðabæ. Eflaust vildu flestir hafa meira fjör í kringum úrslitaleiki en sú varð ekki raunin að þessu sinni, kraftlítið havarí sem KR möglaðist til að klára. Þessi tvö lið verða þó ill viðureignar á tímabilinu þó bæði hafi gleymt spariskónum í dag. Brynjar Þór Björnsson og Craion gerðu báðir 23 stig í liði KR og slíkt hið sama gerði Lewis fyrir Stólana.
 
 
Craion og Brynjar Þór byrjuðu vel hjá KR rétt eins og í undanúrslitaleiknum í gær. Íslandsmeistararnir leiddu 17-26 eftir fyrsta leikhluta á meðan sóknarleikur Tindastóls hverfðist einkum í kringum Lewis og Dempsey og á aðeins 20 mínútum varð sú tugga hvimleið.
 
Stólarnir bættu varnarleikinn umtalsvert hjá sér frá fyrstu tíu mínútunum en þeim gekk ekkert að skora í öðrum leikhluta, allt að því pínlegt að horfa á liðið í sókn með Lewis utan vallar. Jafn pínlegt og þriggja stiga nýting KR sem var 0-13 í fyrri hálfleik. Annar leikhluti fékk mann eiginlega til að spyrja sig alvarlega að því hvort þetta væru í alvöru tvö af bestu liðum undirbúningstímabilsins. Leiðin gat eiginlega bara legið upp á við í síðari hálfleik hvað gæði varðar en þau voru sýnu meiri í röðum KR sem leiddu 26-41 í hálfleik.
 
Carion var með 11 stig og 6 fráköst í hálfleik og Pavel var farinn að hlaða nærri þrennunni með 6 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Dempsey var með 11 stig og 6 fráköst hjá Stólunum og Lewis með 11 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar.
 
Slappheitin hreinlega láku af leikmönnum liðanna framan af þriðja leikhluta, eldri herramaður rankaði lítið eitt við sér í stúkunni þegar Pétur og Hannes settu saman þrjá þrista fyrir Tindastól með skömmu millibili og munurinn fór niður í 47-53. Ingvi Rafn splæsti svo í „steb back“ þrist með Nowitzki ívafi og minnkaði muninn í 50-53 og nauðsynlegt líf færðist í leikinn. KR leiddi þó eftir þriðja leikhluta 52-58 en Stólarnir unnu leikhlutann 26-17. Hressandi slútt á þriðja og raunhæf von fæddist um sterkan endasprett.
 
Ljóstýran sem ungu mennirnir Pétur, Hannes og Ingvi kveiktu fyrir Stólana var slökkt fljótlega aftur. Brynjar Þór sendi tvo langdræga á loft og kom KR í 54-66 og Íslandsmeistararnir opnuðu fjórða með 12-4 syrpu. Helgi Magnússon setti niður annan skömmu síðar og kom KR í 62-75 og Stólarnir komust ekkert nærri, KR sleppti ekki tökum á stýrinu og fagnaði sigri, lokatölur 75-83 KR í vil.
 
Auðvitað hefðum við viljað meira flugvélaeldsneyti í þennan en svona er þetta bara. KR Lengjubikarmeistari 2014 og óskum við þeim til hamingju með þann áfanga!
 
  
Fréttir
- Auglýsing -