Eflaust flestir sem bíða nú með eftirvæntingu eftir stórleik kvöldsins þegar Keflavík og KR mætast í Domino´s deildinni kl. 19:15. KR-ingum hefur farnast þokkalega í Keflavík í síðustu deildarleikjum en heimamenn hafa þó vinninginn.
KR vann reyndar síðasta deildarleik á Íslandsmótinu milli liðanna í Keflavík en það var spennuslagur sem fór 83-85 fyrir KR. Í síðustu tíu deildarviðureignum liðanna í Keflavík hafa heimamenn unnið 6 leiki en KR-ingar 4.
Stærsti sigur Keflavíkur gegn KR í deildinni kom árið 1987 þegar Keflavík skellti KR 92-52 og svo í úrslitakeppninni árið 1997 eða 10 árum síðar vann Keflavík 54 stiga sigur á KR, 113-59.
Það hefur því gengið á ýmsu hjá þessum körfuboltaveldum en stærsti deildarsigur KR í Keflavík kom árið 1983 þegar KR lagði Keflavík með 36 stiga mun 61-97.
Fyrsta viðureign liðanna úti í Keflavík var árið 1982 en þá höfðu Keflvíkingar 111-94 sigur í leiknum. Samtals hafa verið skoruð 9052 stig í viðureignum þessara liða í deild úti í Keflavík og fer þessi tala, eins og gefur að skilja, hækkandi eftir kvöldið.
Mynd/ Finnur Freyr Stefánsson mætir með KR-inga í TM-Höllina í kvöld.



