spot_img
HomeFréttirKR jafnaði Keflavík á toppi deildarinnar

KR jafnaði Keflavík á toppi deildarinnar

23:09
{mosimage}

(Sola í teigbaráttunni) 

Íslandsmeistarar KR hafa jafnað Keflavík á toppi Iceland Express deildar karla í körfuknattleik en liðin mættust í DHL-Höllinni í kvöld. Lokatölur leiksins voru 80-69 KR í vil sem leiddu leikinn frá upphafi til enda. Töluverð harka var í leiknum og voru dæmdar alls 52 villur og minnstu mátti muna á lokasprettinum að upp úr syði bæði inni á vellinum og í stúkunni. Þetta kemur fram á www.vf.is  

Fannar Ólafsson snéri aftur í lið KR í kvöld eftir nokkra fjarveru sökum meiðsla en landsliðsmiðherjinn kann að kveikja í sínum mönnum. Fannar gerði 4 stig í leiknum og tók 10 fráköst en með hann í lagi eru KR-ingar illviðráðanlegir í teignum með þá Fannar, Sola og Helm innanborðs. 

Jón N. Hafsteinsson byrjaði leikinn vel fyrir Keflavík, reif niður hvert frákastið á fætur öðru en lenti snemma í villuvandræðum fyrir litlar sakir og varð því að hvíla nokkuð. KR komst í 5-0 en Keflavík jafnaði metin í 5-5 en eftir það tóku Íslandsmeistararnir völdin, komust í 10-5 og litu ekki til baka. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 18-12 og þeir Bobby Walker og Tommy Johnson skítkaldir í Keflavíkurliðinu. Reyndar tók það félagana Walker og Johnson heilar 24 mínútur að skora stig í leiknum og það gerði Johnson af vítalínunni. 

Miðjan hjá KR var dugleg við söngiðkun í kvöld og vel var mætt í DHL-Höllina. Reyndar voru mörg hver hrópin og köllin úr herbúðum miðjunnar ansi kræf en það vill bregða við á kappleikjum almennt þegar mikið er undir.  

Keflvíkingar brugðu snemma á það ráð að leika svæðisvörn en KR leysti vel úr þeirri vörn og fengu á köflum auðveldar körfur. Helgi Magnússon kom KR í 26-18 með þriggja stiga körfu en varnir liðanna voru þéttar og menn óhræddir við að fá dæmdar á sig villur. Þá voru sóknirnir beggja liða fremur litlausar en heimamenn nutu góðs af hræðilegri skotnýtingu Keflavíkur. Staðan var 37-29 KR í vil þegar blásið var til hálfleiks og Magnús Gunnarsson stigahæstur hjá Keflavík með 6 stig. 

{mosimage}

Þeir Bobby Walker og Tommy Johnson gerðu ekki stig í fyrri hálfleik og Anthony Susnjara var með 3 stig. Ekki vænlegt til árangurs í herbúðum Keflavíkur. Hjá KR var Joshua Helm með 8 stig í hálfleik. 

Tommy Johnson gerði sín fyrstu stig þegar þrjár og hálf mínúta var liðin af síðari hálfleik. Mestri furðu sætti að KR-ingar væru ekki búnir að auka muninn allverulega en leikmenn á borð við Þröst Leó Jóhannsson og Arnar Frey Jónsson létu ekki dapra frammistöðu erlendu leikmanna Keflavíkur á sig fá og börðust vel fyrir Keflavík í kvöld.  

Keflvíkingar minnkuðu muninn í 44-38 en KR átti góða lokarispu í leikhlutanum sem lauk í stöðunni 60-49 fyrir KR. Þeir Tommy og Bobby sýndu ögn meira líf í síðari hálfleik en það dugði ekki til að kveikja neistann hjá Keflavík.  

Íslandsmeistararnir náðu mest 18 stiga forskoti í leiknum en Keflavík dró þá aftur nærri og þegar 2.28 mín. voru til leiksloka var staðan 71-60 fyrir KR og svo virtist sem Keflavík væri að hefja áhlaup þegar Þröstur Leó Jóhannsson fékk dæmda á sig mjög ósanngjarna óíþróttamannslega villu.

Villan hafði jákvæð áhrif á leik KR og gaf þeim færi á að tryggja sigurinn. Strax eftir að Þröstur fékk dæmda á sig óíþróttamannslegu villu lenti hann í klafsi við Jeremiah Sola, sem fiskaði á Þröst villuna, og mátti minnstu muna að leiddi til handalögmála. Stuðningsmenn Keflavíkur voru æfir því Sola ku hafa gerst brotlegur við Þröst en ekkert var dæmt. Íslandsmeistararnir héldu svo muninum allt til leiksloka og voru lokatölurnar 80-69 eins og fyrr greinir.

Þeir Bobby Walker og Tommy Johnson gerðu samtals 27 stig í leiknum og öll komu þau í síðari hálfleik. Saman tóku þeir félagar 18 teigskot og hittu úr 5. Þá tóku þeir 11 þriggja stiga körfur og hittu úr tveimur. Reyndar setti Tommy Johnson niður 10 vítaskot í 10 tilraunum og lauk leik með 16 stig, stigahæstur Keflvíkinga. Ljóst má vera að þeir Walker og Johnson þurfa að leika miklu mun betur ef ekki á illa að fara hjá Keflavík. 

Nokkrir leikmenn Keflavíkur áttu þokkalega spretti og gaman er að fylgjast með baráttunni í Þresti Leó Jóhannssyni (6 stig) og Arnar Freyr Jónsson (8 stig) átti fína spretti. Magnús Gunnarsson gerði ekki stig í síðari hálfleik og lauk leik með 6 stig. 

Hjá KR var Joshua Helm með 18 stig og 15 fráköst en í heild var KR liðið að leika vel og vörn þeirra reyndist Keflvíkingum um megn. Næstur í liði KR var Jeremiah Sola með 14 stig og 7 stoðsendingar.   

Tölfræði leiksins 

Myndir: Jón Björn Ólafsson  

{mosimage}

{mosimage}

(Fannar Ólafsson barðist vel í endurkomu sinni inn í lið KR)

{mosimage}

(Brynjar Björnsson var önnum kafinn eftir leik að gefa eiginhandaráritanir)

Fréttir
- Auglýsing -