spot_img
HomeFréttirKR Íslandsmeistari karla í unglingaflokki

KR Íslandsmeistari karla í unglingaflokki

 Það voru KR-ingar sem höfðu betur gegn Njarðvík um Íslandsmeistaratitil í unglingaflokki karla, 77-61.  Leikurinn var hnífjafn framan af en KR stakk af í fjórða leikhluta og vann því öruggan 16 stiga sigur.  Það var ekki síst fyrir framlag Kristófer Acox sem skilaði tröllatvennu ef bestu gerð með 22 stig og 22 fráköst.  Acox var því stigahæsti og frákasthæsti maður vallarins og var því valinn maður leiksins. 
 Njarðvík tók fljótlega frumkvæðið í leiknum og fóru þar Ólafur Helgi Jónsson og Elvar Már Friðriksson fyrir liði Njarðvíkur.  KR var þó aldrei langt undan og jöfnuðu leikinn í stöðunni 8-8.  Njarðvík náði þó aftur frumkvæðinu og voru komnir í 10-14 nokkrum mínútum síðar.  Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, tók svo leikhlé þegar forskot Njarðvíkur var komið upp í 7 stig, 14-21, en þá var aðeins rúmlega mínúta eftir af fyrsta leikhluta.  Það var því Njarðvík sem leiddi eftir fyrsta leikhluta, 18-25.  

Njarðvík jók muninn í upphafi annars og komst í 18-27 og síðar 20-30 þegar tvær og hálf mínúta var liðin.  KR pressaði græna hátt á völlinn og Njarðvík leysti það vel til að byrja með.  Hrafn Kristjánsson var ekki sáttur við dómgæsluna í leiknum og uppskar tæknivillu stuttu seinna. KR lét það þó ekki á sig fá og voru búnir að minnka muninn niður í 6 stig þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum, 26-32.  Egill Vignisson nædli sér í sína þriðju villu áður en annar leikhluti var hálfnaður og fékk því að hvíla það sem eftir lifði fyrri hálfleiks.  KR tók hins vegar við sér í seinni hluta leikhlutans og skoruðu 11 stig gegn næstu 4 stigum Njarðvíkur.  Það var því KR sem leiddi með einu stigi, 37-26, þegar Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, tók leikhlé með 2:10 á klukkunni.  Ólafur Helgi Jónsson hafði þá náð sér í sína fjórðu villu og var Einar Árni ekki lengi að setja hann á ís en hann hafði þá skorað 10 stig í leiknum.  Það voru svo KR-ingar sem kláruðu fyrri hálfleikinn betur og fóru inn í hálfleik með 5 stiga forskot eftir svakalega troðslu á lokasekúndunum, 45-40.  

 

Stigahæstur í hálfleik í liði KR var Martin Hermannsson með 17 stig og 5 stoðsendingar en næstir voru Kristófer Acox með 10 stig og 7 fráköst og Björn Kristjánsson með 6 stig.  Í liði Njarðvíkur var Elvar Már Friðriksson stigahæstur með 17 stig en næstir voru Ólafur Helgi Jónsson með 10 stig og Maciej Baginski með 6 stig.   

Sóknarleikur Njarðvíku féll svo nokkurnveginn saman í þriðja leikhluta, vítin fóru forgörðum, sniðskotin skoppuðu ofaní og aftur uppúr og þegar þriðji leikhlut var hálfnaður höfðu þeir aðeins skorað 2 stig gegn 8 stigum KR.  Einar Árni tók því leikhlé í stöðunni 53-42.  Hlutirnir fóru þó strax að líta betur út eftir leikhléið en Njarðvík skoraði þá 5 stig á stuttum tíma og munurinn á liðunum kominn niður í 8 stig, 55-47.  Kristófer Acox átti virkilega góðan kafla fyrir KR í þriðja leikhluta og hafði skorað 8 af 13 stigum liðsins í þriðja leikhluta þegar það voru tvær og hálf mínúta eftir.  KR hafði 9 stiga forskot þegar þriðja leikhluta lauk, 60-51.  

Liðin skiptust á að skora fyrstu mínúturnar í fjórða leikhluta og minnkaði munurinn á liðunum því lítið.  Njarðvík náði muninum niður í 5 stig þegar tvær og hálf mínúta var liðin af fjórða leikhluta en nær komust þeir ekki.  KR jók muninn hægt og rólega aftur og fimm mínútum síðar var hann aftur kominn í 10 stig, 69-59.  Lokamínútur leiksins sendu Njarðvíkingar KR á línuna við hvert tækifæri en það dugði ekki til, skotin voru að geiga hjá grænum og munurinn minnkaði því ekki neitt.  Kristófer Acox fékk nokkurskonar heiðursskiptingu þegar ein mínúta var eftir en hann skilaði það sem getur ekki kallast annað en lýgileg tölfræði í leiknum.  KR vann á endanum nokkuð öruggan 16 stiga sigur, 77-61.  

Stigahæsti maður KR í leiknum var eins og fyrr segir Kristófer Acox með 22 stig og 22 fráköst en næstur var Martin Hermannsson með 21 stig og 7 stoðsendingar og Björn Kristjánsson með 12 stig og 7 fráköst.  Í liði Njarðvíkur var Elvar Már Friðriksson stigahæstur með 20 stig en næstir voru Ólafur Helgi Jónsson með 15 stig og 6 fráköst og Maciej Baginski með 8 stig og 8 fráköst.  

Gangur leiksins
18-25, 45-40, 60-51, 77-61.  

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -