15:53
{mosimage}
KR er Íslandsmeistari í unglingaflokki kvenna eftir sigur á Grindavík 65-55. KR hafði frumkvæðið allan leikinn og náðu mest 16 stiga forskoti. Grindavíkurstelpur komu þó alltaf sterkar til baka og munaði aðeins 5 stigum á liðunum þegar um það bil tvær mínútur voru eftir af leiknum. KR tryggði sér þar með tvöfaldan sigur í ár þar sem þær urðu Bikarmeistarar í febrúar á þessu ári. Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir var valin maður leiksins en hún átti stórleik með 21 stig og 12 fráköst. Margrét Kara Sturludóttir var ekki langt á eftir henni með 14 stig, 15 fráköst og 6 varin skot. Hjá Grindavík var Ingibjörg Jakobsdóttir stigahæst með 16 stig en næstar komu Íris Sverrisdóttir með 12 stig og Eyrún Ösp Ottósdóttir með 10 stig.
KR byrjaði leikinn mun betur en Grindavík sem voru í bullandi vandræðum með að ná góðu skoti á körfuna. KR voru ákveðnari, keyrðu á körfuna og uppskáru fljótt forskot. Þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður höfður KR skorað 8 stig gegn 4 stigum Grindavíkur. KR bætti fljótt í þann mun en seinni fimm mínútur fyrsta leikhluta voru bæði lið mun ágengari í sóknarleiknum og þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta var forskot KR komið upp í 8 stig, 21-13.
Grindavíkurstelpur mættu mun grimmari til leiks í öðrum leikhluta, þær spiluðu flotta vörn og minnkuðu muninn smám saman niður. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir kom hins vegar virkilega sterk til leiks í öðrum leikhluta og hirti hvert sóknarfrákastið af öðru. Fyrir vikið tókst KR aftur að auka forskotið en þegar fjórar mínútur voru eftir af öðrum leikhluta var munurinn kominn upp í 12 stig, 31-19. Það leið því ekki að löngu þar til Pétur Rúrik Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur tók leikhlé. Það dugði þó skammt því Grindavík tókst ekki að minnka muninn það sem eftir lifði annars leikhluta. Þegar flautað var til hálfleiks stóðu tölur 38-26 KR í vil.
Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir og Margrét Kara Sturludóttir voru atkvæðamestar í liði KR í hálfleik, báðar með 10 stig. Næstar voru Heiðrún Kristmundsdóttir og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, báðar með 6 stig. Hjá Grindavík var Ingibjörg Jakopsdóttir stigahæst með 7 stig en næstar voru Íris Sverrisdóttir með 6 stig og Lilja Ósk Sigmarsdóttir með 5 stig og 6 fráköst.
Það var ljóst strax í upphafi þriðja leikhluta að KR ætlaði sér að vinna leikinn, þær mættu gríðarlega grimmar í varnarleiknum og Margrét Kara gerði sér lítið fyrir og varði skot Grindavíkur tvær sóknir í röð auk þess að skora 2 stig í millitíðinni. Það voru þess vegna ekki liðnar nema tvær mínútur af leikhlutanum þegar Pétur Rúrik tók leikhlé fyrir Grindvíkinga, 44-28. Grindavík virtist við það, ná að fínstilla varnarleikinn og nokkrum mínútum seinna var munurinn kominn niður í 12 stig, 46-34. Finnur Freyr Stefánsson var þá fljótur að grípa inní og taka leikhlé fyrir KR. Mikið nær komust Grindavíkurstelpur ekki í þriðja leikhluta og þegar flautað var til loka hans stóðu tölur 54-43 KR í vil.
Grindavík skoraði fyrstu 5 stig fjórða leikhluta og aftur var Finnur Freyr fljótur að grípa inní. Þegar tæplega þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum tók hann leikhlé í stöðunni 54-48. KR gekk gríðarlega illa að koma boltanum ofaní og ekki hjálpaði það þegar Guðrún Gróa fór útaf með 5 villur stuttu áður en leikhlutinn var hálfnaður. Grindavík gekk þó ekki mikið betur að koma boltanum ofaní og munaði því enn 6 stigum á liðunum. Grindavík komst næst 5 stigum frá KR í stöðunni 56-51 en þá skoruðu KR næstu 5 stig leiksins og gerðu svo gott sem út um hann því aðeins var um það bil ein og hálf mínúta eftir af leiknum. Þegar flautað var til loka leiksins höfðu KR 10 stiga sigur, 65-55.
Umfjöllun : Gísli Ólafsson
Myndir: [email protected]
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



