spot_img
HomeFréttirKR innsiglaði 20. sigurinn í síðasta leiknum

KR innsiglaði 20. sigurinn í síðasta leiknum

Það var sannarleg viðureign Davíðs og Golíats – nema hvað hér hafði risinn betur í leik sem engu máli skipti fyrir hvorugt lið. Fallnir og niðurdregnir Fjölnismenn létu í minni pokann fyrir deildarmeisturum KR sem virðast vera að komast í aftur í gamla formið eftir skellinn í bikarnum í febrúar.
 
Fjölnir hélt í við KR framan af en gestirnir virtust hálfsofandi í byrjun og ekki að nenna þessu. 1. fjórðung lauk með 1 stigs forystu KR, 23-24.
 
Allt annað var uppi á teningnum í 2. hluta þegar KR skellti í lás. Varnarleikur KR, þegar hann er að smella, er einfaldlega allt of mikið fyrir flest lið í þessari deild. KR-ingar rúlluðu upp 2. hluta með 19 stigum 9-27 og staðan í hálfleik 31-52.
 
Slökunin í KR klefanum í hálfleik hefur verið fullmikil því þeir byrjuðu seinni hálfleik flatir á hælunum.  Tapaður bolti á eftir hverjum töpuðum bolta. Fjölnir nýtti sér það eins vel og þeir gátu en styrkleikamunurinn á liðunum var einfaldlega of mikill.
 
KR viðhélt sinni forystu og var staðan 54-75 þegar 4. hluti hófst.
 
Seinustu 10 mínútur leiksins fékk bekkurinn hjá báðum liðum að spreyta sig, enda leiknum löngu lokið. 
 
Lokatölur leiksins voru 83-100 fyrir KR.
 
Michael Craion setti 24 stig fyrir KR að viðbættum 8 fráköstum og 6 stoðsendingum. Darri Hilmarsson átti góðan leik fyrir KR með 19 stig og 4 fráköst. Magni setti 14 stig á 20 mínútum, átti fullkominn dag í skotum með 6/6 í skotum þar af tvær þriggja stiga körfur. 
 
Hjá Fjölni leiddi Jonathan Mitchell 21 stig og 10 fráköst. Danero Thomas setti 16 stig og tók 8 fráköst. Garðar og Emil bættu svo við 10 stigum hvor.
 
Fréttir
- Auglýsing -