spot_img
HomeFréttirKR-ingar sóttu tvö stig í Þorlákshöfn í kvöld

KR-ingar sóttu tvö stig í Þorlákshöfn í kvöld

KR-ingar komu í heimsókn í höfnina fögru til að etja kappi við Þór Þorlákshöfn í kvöld. Dómarar leiksins voru þeir Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Halldór Geir Jensson. Komust þeir ágætlega undan verki og getur enginn sakast við þá. Meiðslapésinn Þorsteinn Már Ragnarsson gat ekki leikið vegna meiðsla. Mætt var vel í Glacial höllina og sást varla autt sæti.
 
 
Byrjaði leikurinn fjörlega og skoruðu bæði lið mikið á fyrstu metrunum. Darri Hilmarsson fór mikið fyrir lið KR bæði í vörn og sókn en hann spilaði einmitt síðustu tvo tímabil í Þórsara búninginum. Þetta var í fysta skipti sem að hann snéri aftur í Glacial höllina eftir að hafa yfirgefið Þór og hefðu eflaust flestir Þórsarar viljað hafa hann í grænu í kvöld í staðinn fyrir svarthvítu.
 
Jafnræði var með liðunum fyrstu fimm mínúturnar en þá gáfu Reykvíkingar í og var munurinn allt í einu orðinn 9 stig, 21-30. Skopparaboltinn Tómas Heiðar náði þó að klóra örlítið í bakkann undir lokinn með því að stela boltanum og troða rétt áður en flautan gall.
 
KR-ingar settu í annan gír í öðrum leikhluta og kafsigldu Þórsara. Munurinn var orðinn tuttugu stig eftir 17 mínútna leik, 27-47. KR-ingar spiluðu léttleikandi og fundu alltaf opna manninn. Á meðan gekk ekkert upp hjá Þórsurum og voru þeir þvingaðir í erfið skot hvað eftir annað.
 
Þórsarar komu grimmir inn í seinni hálfleikinn og skoruðu fyrstu fimm stigin. Staðan var þá allt í einu orðin 42-53 og leikurinn galopinn. Liðin skiptust á að skora út leikhlutann og var staðan 62-74 að honum loknum.
 
Þegar að rúmar sjö mínútur voru til leiksloka, í stöðunni 69-79, ákvað Martinn Hermannsson að þetta væri komið gott og sigldi stigunum tveimur í höfn fyrir KR. Á tæpum þrem mínútum skoraði hann tíu stig og var munurinn orðinn 21 stig, KR í vil. Eftir þessa árás að hálfu Martins misstu Þórsarar allan móð og sigruðu KR-ingar örugglega 78-99.
 
KR-ingar litu mjög vel út í þessum leik og var meistarabragur á öllum þeirra aðgerðum. Þeir fóru í gegnum leikinn eins og vel smurð vél og getur fátt stoppað þá þessar vikurnar. Pavel stjórnaði leiknum vel fyrir KR-inga og henti í sjöttu þrennu tímabilsins. Þunnur hópur Þórsara finnur fyrir öllum blóðtökum og söknuðu þeir Þorsteins í kvöld. Ragnar Nat og Nemanja Sovic komust aldrei almennilega í takt við leikinn og munar nú um minna þar.
 
Þór: Mike Cook – 26 stig og 9 fráköst, Tómas Tómasson – 18 stig, Baldur Ragnarsson – 13 stig og 6 stoðsendingar, aðrir minna.
KR: Martin Hermannson – 21 stig, Demond Watt Jr. – 20 stig og 8 fráköst, Darri Hilmarsson – 16 stig, Pavel Ermolinskij – 14 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar, aðrir minna.
 
 
Umfjöllun/ Foringinn
Mynd úr safni/ Martin Hermannsson var stigahæstur í liði KR í kvöld
  
Fréttir
- Auglýsing -