spot_img
HomeFréttirKR-ingar léku við hvern sinn fingur

KR-ingar léku við hvern sinn fingur

Stólarnir gáfu öllum, nema helst KR-ingum, sigur í sumargjöf í leik tvö á Króknum. Varla móðgast Skagfirðingar þó því sé haldið fram hér að sá sigur hafi verið frekar óvæntur. Þriðji leikur liðanna fór svo fram í Vesturbænum í kvöld og í ljósi fjarveru Dempsey fengu Stólarnir kjörið tækifæri til að koma öllum/flestum enn meira á óvart. Óþarfi er að halda langa ræðu um getu deildarmeistaranna, einkum þar sem þrennumeistarinn (Pavel) virðist vera kominn í nokkuð gott stand.

 

Liðin byrjuðu leik að miklum krafti enda ekkert æfingamót í gangi. Helgi Már var vel tengdur í byrjun, raðaði þristum og kom sínum mönnum í bílstjórasætið. Stólarnir héldu í við heimamenn með góðri baráttu og sóknarfráköstum og jöfnuðu leikinn í 14-14 um miðbik leikhlutans. Róðurinn þyngdist hins vegar smátt og smátt fyrir norðanmenn. Brilli tók upp á því að hita sig upp í suðumark á milli þess sem Craion lét hlutina líta út fyrir að vera afar einfalda undir körfunni. Vörn KR var ógnvænleg og heppnuðum kraftaverkaskotum gestanna fækkaði er á leið enda vafalaust búnir að heita á allar kirkjur landsins. Staðan 28-19 eftir fyrsta leikhluta.

Brilli hélt við í kjarnorkuofni milli leikhluta og hélt áfram að kveikja í netinu í öðrum leikhluta. Staðan varð á augnabliki 40-25. Helgi Freyr svaraði því með þristi en það reyndust aðeins vera dauðakippir í Tindastólsmönnum. Síðasta kraftaverk Tindastólsmanna var kannski það að vera þó aðeins 12 stigum undir í hálfleik – algerlega stórundarlegt í ljósi þess að KR var með um það bil 100% skotnýtingu í hálfleik! Staðan nánar tiltekið 53-41.

Hálfleiknum og rúmum tveimur mínútum síðar var staðan orðin 62-43. Brilli var eins og úraníum-kubbur inn á vellinum og eitraði fyrir allri mótspyrnu með fleiri þristum. Tindastólsmenn voru algerlega uppiskroppa með kraftaverk þrátt fyrir góðan vilja. Að leikhlutanum loknum leiddu heimamenn með 85 stigum gegn 59.

Fjórði leikhluti var augljóslega formsatriði. Þess ber helst að nefna að Helgi Rafn sýndi fádæma styrk andlega og barðist áfram eins og frændi sinn Grettir. Hann bauð m.a. upp á stórskemmtilega Drangeyjartroðslu og sýndi öllum hvernig skal takast á við mótlæti. Að hans fordæmi gerðu minni spámenn gestanna vel og gerðu umtalsverðar lagfæringar á stöðunni síðustu mínúturnar. Lokatölur 104-91.

Brilli var algerlega frábær í þessum leik. Klikkaði vart úr skoti og endað með 26 stig. Craion var samur við sig með 29 stig og 13 fráköst. Það var þó fyrir mestu að KR-liðið spilaði heildina á litið mjög vel, vörnin bauð ekki upp á neitt nema bænastundir fyrir gestina og sóknarlega bjuggu þeir ítrekað til það sem þeir vildu.

Gestirnir eru auðvitað með Dempsey í meiðslum og það skiptir máli sama hvað hver segir. Nú er vonandi að Stólarnir safni liði og hefni í næsta leik, e.t.v. með Dempsey innan sinna raða. Við viljum oddaleik!

 

Tölfræði leiksins

Umfjöllun: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -