spot_img
HomeFréttirKR-ingar kláruðu leikinn í fyrsta leikhluta (Umfjöllun)

KR-ingar kláruðu leikinn í fyrsta leikhluta (Umfjöllun)

22:22

{mosimage}

KR-ingar tóku á móti Skallagrím í loka umferð Iceland-Express deildarinnar í DHL höllinni í kvöld.  KR þurfti að vinna til að tryggja sér annað sætið en Skallagrímur hafði að littlu að keppa þar sem þeir höfðu þegar tryggt sér  6. sætið en áttu ekki möguleika á að ná því 5.  Það var nokkuð ljóst strax í upphafi leiks að KR-ingar ætluðu ekki að gefa séns á 2. sætinu því þeir tóku afgerandi forystu strax í fyrsta leikhluta sem þeir gáfu aldrei eftir.  Eftir fyrsta leikhluta höfðu KR-ingar tvöfaldað stig Skallagríms og leiddu 34-17.  Skallagrímsmenn mættu örlítið einbeittari til leiks í öðrum leikhluta en munurinn var þó 15 stig þegar flautað var til hálfleiks, 53-38.  KR-ingar áttu hins vegar seinni hálfleik algjörlega og náðu muninum mest upp í 30 stig og höfðu að lokum 28 stiga sigur, 103-75.   Stigahæstir hjá KR voru JJ Sola með 20 stig, Joshua Helm með 19 og Brynjar Björnsson með 17 stig  Hjá Skallagrím var Darrel Flake með 31 stig, Florian Miftari með 17 stig og Milojica Zekovic með 12 stig.

KR-ingar byrjuðu leikinn betur með JJ Sola í broddi fylkingar en hann átti 5 af fyrstu 8 stigum KR gegn tveimur stigum Skallagríms þegar tvær mínútur voru liðnar af leiknum.  Það gekk lítið sem ekkert í sóknarleik Skallagríms og tók Kenneth Webb þjálfari þeirra á það ráð að taka leikhlé þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar og staðan orðin 14-2.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu KR-ingar náð sér í 11 stiga forskot og varnarleikurinn að smella, 18-7.   Darrel Flake var sá eini í Skallagrim sem fann leiðina framhjá vörn KR og skoraði fyrstu 7 stigin þeirra.  Sóknarleikurinn þeirra skánaði lítið í seinni hluta leikhlutans á meðan KR-ingar gengu á lagið og juku forskot sitt með hverri sókninni.  Þegar leikhlutanum lauk var forskotið komið upp í 17 stig, 34-17.   Darrel Flake var yfirburðamaður í Skallagrím en hann átti heiðurinn að 12 stigum af þeim 17 sem Skallagrímur skoraði í fyrsta leikhluta.

Skallagrímsmenn mættu örlítið grimmari til leiks í öðrum leikhluta en ennþá var Flake sá eini sem fann glufur á varnarleik heimamanna svo lítið gekk að saxa á forskotið.  Þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum var forskotið 16 stig, 41-25.  Ef eitthvað var þá voru KR-ingar að bæta á forskotið og þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum var forskotið komið upp í 19 stig og hraður leikur KR að fara illa með Skallagrímsmenn.  Skallagrímsmenn náðu hins vegar ágætisáhlaupi þegar farið var að renna á seinni hluta leikhlutans og með tveimur þriggjastiga körfum í röð frá Flake og Allan Fall var munurinn kominn niður í aðeins 10 stig, 48-38.    KR-ingar áttu svo seinustu 5 stig leikhlutans og leiddu því með 15 stigum í hálfleik 53-38. 

Stigahæstir i hálfleik hjá KR voru JJ Sola með 13 stig, Helgi Magnússon með 10 stig og Joshua Helm með 8.  Hjá Skallagrím var eins og áður kom fram Darrel Flake yfirburða maður með 25 stig og 7 fráköst en næstir voru Florian Miftari með 6 stig og Allan Fall með 5 stig. 

KR-ingar voru eina liðið á vellinum í byrjun seinni hálfleiks og skoruðu því fyrstu 9 stigin þangað til að Kenneth Webb fékk nóg og kallaði til leikshlés, eftir 2 mínútur af leik.  Þegar leikhlutinn var rétt tæplega hálfnaður voru Skallagrímsmenn ekki ennþá búnir að finna lausn á lélegum varnarleik sínum og það eina jákvæða við leik þeirra þá stundina var að Flake var ekki sá eini sem skaut á körfuna.  Munurinn á liðunum minnkaði hins vegar lítið og var 20 stig, 68-48.  Því miður fyrir gestina var varnarleikurinn ekki eina vandamálið því Pétur Sigurðsson og Florian Miftari voru báðir komnir með 4 villur og Flake og Zekovic með 3 þegar um 14 mínútur voru ennþá eftir af leiknum.  Það virtist vera einher múr við 20 stiga muninn því lengra komust KR-ingar aldrei í þriðja leikhluta og það var akkurat munurinn þegar flautað var til lok leikhlutans, 76-56. 

Strax í byrjun fjórða leikhluta var villutafla Skallgríms orðin ljósasýning en 5 leikmenn þeirra voru komnir með 4 villur og stefndi því ekki í gott.  KR-ingar stigu svo í fyrsta skiptið í leiknum yfir 20 stiga múrin þegar leið á fjórða leikhluta og þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum var munurinn orðinn 30 stig og heimamenn hreinlega að fara á kostum.  Þegar munurinn var kominn í 30 stig fór Benedikt Guðmundsson að skipta minni spámönnum inná sem Skallagrímsmenn nýttu sér vel og þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu gestirnir minnkað muninn niður í 21 stig, 91-70.  Það gekk illa hjá KR-ingum að koma boltanum ofaní körfuna á lokamínútunum og þar sem Flake var kominn á bekkinn þá var það sama uppá teningnum hjá Skallagrím.  Þegar mínúta var eftir af leiknum var staðan 99-75 og bæði lið komin með marga minni spámenn inná völlinn.  Það var því aðeins beðið eftir að klukkan teldi niður í 0.  Guðmundur nokkur Magnússon átti heiðurinn af því að skora hundraðasta stigið fyrir KR við mikin fögnuð KR-inga en hann er eldri bróðir Helga Magnússonar.  Skarphéðinn Ingason átti seinustu stig leiksinns og endaði leikurinn því með 28 stiga sigri, 103-75. 

Eftir Úrslit kvöldsins er það þá ljóst að KR mætir ÍR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og Skallagrímur mætir Grindavík.

 

Tölfræði leiksins

Texti: Gísli Ólafsson

Myndir: Stefán Helgi Valsson

{mosimage}

 

 

Fréttir
- Auglýsing -