spot_img
HomeFréttirKR-ingar kafsigldu heimamenn, 2-0 fyrir KR

KR-ingar kafsigldu heimamenn, 2-0 fyrir KR

Eftir æsispennandi framlengdan fyrsta leik í undanúrslitaeinvígi Stjörnunnar og KR áttu flestir von á öðru eins í öðrum leik liðanna í Ásgarði í kvöld. Sú varð þó ekki raunin, en gestirnir úr Vesturbænum gjörsamlega kafsigldu heimamenn.
 
 
Stjörnumenn byrjuðu leikinn mjög vel og skoruðu Marvin Valdimarsson og Junior Hairston átta fyrstu stig leiksins. Eftir það vöknuðu KR-ingar til lífsins og tóku 19-4 áhlaup, og Teitur Örlygsson sá sig neyddan til að taka leikhlé. Stjörnumenn rönkuðu aðeins við sér eftir það, og var munurinn 4 stig eftir fyrsta leikhluta, 19-23.
 
Í öðrum leikhluta var fljótt ljóst hvert stefndi. KR-ingar gjörsamlega kveiktu í netinu fyrir utan þriggja stiga línuna og fengu hvert opna skotið á fætur öðru. Vörn heimamanna var hreinlega eins og sigti, KR-ingar áttu ekki í nokkrum erfiðleikum með að finna lausnir við henni. Staðan í hálfleik var 38-50, gestunum í vil, og ef ekki hefði verið fyrir Junior Hairston hefði munurinn eflaust verið meiri.
 
Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik. Ekkert gekk upp hjá heimamönnum á meðan Vesturbæingar léku á als oddi. Stjörnumenn létu allt og ekkert fara í taugarnar á sér, sem er ekki uppskriftin að sigrum í nokkurri íþrótt. Ruslatíminn kom ansi flljótlega í fjórða leikhluta, og hefðu síðustu mínútur leiksins allt eins getað verið drengjaflokksleikur, en ungir leikmenn fengu að spreyta sig í báðum liðum. Lokastaðan var hins vegar afgerandi sigur gestanna, Stjarnan 68, KR 94.
 
Finnur Freyr Stefánsson var ánægður með bættan leik sinna manna frá því í fyrsta leik liðanna. “Mér fannst við skítlélegir í fyrri leiknum, en í kvöld náðum við vörninni vel upp, menn voru tilbúnir að hjálpa hver öðrum og við náðum upp góðum hraða í sókninni. Í rauninni fannst mér að eftir fimm mínútur værum við alveg með þennan leik.”
 
Stigahæstur KR-inga var Demond Watt með 21 stig, auk átta frákasta, og Darri Hilmarsson skoraði 20. Langbesti maður heimamanna var Junior Hairston, en Hairston skoraði 28 stig, tók 12 fráköst og varði auk þess fimm skot.
 
Næsti leikur liðanna er fimmtudaginn 10. apríl í Frostaskjóli.
 
 
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -