spot_img
HomeFréttirKR hélt velli

KR hélt velli

KR sigraði Njarðvík fyrr í kvöld á heimavelli sínum, í DHL höllinni, með 83 stigum gegn 75. Leikurinn var sá þriðji í undanúrslitaeinvígi liðanna og hefur KR því á ný tekið forystuna, 2-1. Næsti leikur liðanna verður suður með sjó, í Ljónagryfju Njarðvíkur komandi miðvikudag (14.04) kl.19:15.

 

Fyrri hálfleikur þessa leiks var eitthvað það líflegasta sem í boði er fyrir körfuboltaunnendur. Þarna eru á ferðinni tvö virkilega sterk lið, full af leikmönnum sem voru reiðubúnir að “deyja fyrir klúbbinn”. Fyrsta leikhluta tóku gestirnir úr Njarðvík, eftir frekar jafna byrjun, með 23 stigum gegn 15 heimamanna. Í öðrum, náði KR hinsvegar aðeins að bíta til baka og þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var munurinn kominn niður í 4 stig, 33-37, fyrir gestina.

Atkvæðamestur fyrir heimamenn var Mike Craion, en hann hafði þá sett 10 stig og tekið 4 fráköst. Fyrir gestina voru það Stefan Bonneau, með 13 stig, 4 stoðsendingar og 5 fráköst, sem og Mirko Stefán, með 9 stig og 5 fráköst, sem drógu vagninn.  

Ef eitthvað, virtust liðsmenn Njarðvíkur vera í einhversskonar sendiför, mikil stemming sem fylgdi hverri einustu körfu þeirra í þessum fyrri hálfleik. Hvort þeir voru að gera sitt til að kvitta fyrir stórt tap 1. leiks á þessum sama velli, eða ekki, þá virtist það vera að virka fyrir þá. Komust mest í 15 stiga forystu í fyrri hálfleik, sem verður að teljast nokkuð gott á móti jafn sterku liði og þessu KR liði, og það á þeirra heimavelli.

Mikið hafði verið spáð og spekúlerað varðandi hvort leikmaður KR, Pavel Ermolinski, ætti eftir að taka þátt í þessari viðureign, en hann hefur verið tæpur til þátttöku undanfarið. Hann var þó fyrir leik kominn í búning og einmitt undir lok fyrsta leikhlutans, mætti hann á gólfið. Setti ein 3 stig og tók 4 fráköst á þeim rúmu 11 mínútum sem hann spilaði í fyrri hálfleiknum. Sem er ekki alslæmt fyrir leikmann sem er það að stíga upp úr meiðslum.

Eftir hlé, héldu heimamenn svo við iðju sína, að saxa á þetta litla sem Njarðvík átti eftir í forskot og voru, fyrir lokaleikhlutann komnir (nánast) á par við kraftmikla gestina, 56-57. Því allt útlit fyrir spennandi lokaleikhluta.

Þann fjórða byrjuðu gestirnir betur. Um leið og boltinn var kominn í leik voru þeir komnir einum 6 stigum á undan KR. Með kænsku og ráðum (KR róaði leikinn og fór mikið inn á hinn kyngmagnaða Mike Craion) náðu deildarmeistararnir að svara því áhlaupi, hægt, en mjög örugglega. Þegar hlutinn var hálfnaður voru heimamenn aftur komnir með báðar hendur á stýri (67-63) skips sem þeir svo sigldu í höfn að lokum með sigri, 83-75.

Lykilmaður þessa leiks var leikmaður KR, Mike Craion, sem þrátt fyrir að hafa skorað 10 stig í fyrri hálfleiknum á 3/9 skotnýtingu, bætti um betur í restina og setti 24 stig í heildina á 9/18 skotnýtingu (klikkaði varla þegar á reyndi). Þar að auki tók hann líka 6 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og stal 3 boltum á þeim rúmu 34 mínútum sem hann spilaði í leik kvöldsins.

Myndasafn / Bára Dröfn

Tölfræði 

Umfjöllun, viðtöl, aðalatriði / Davíð Eldur

Fréttir
- Auglýsing -