KR braut í dag á bak aftur sjö leikja eyðimerkurgöngu sína með öflugum sigri gegn Haukum í Domino´s-deild kvenna. Lokatölur í DHL-Höllinni voru 64-55 KR í vil og að sama skapi töpuðu Haukar sínum þriðja útileik í röð. Haukar gerðu aðeins 31 stig í leiknum síðustu 30 mínúturnar gegn grimmum heimakonum í KR.
Jafnræði var með liðunum eftir fyrsta leikhluta og Haukar leiddu 22-24 en svo tók KR við stýrinu og vann annan leikhluta 20-9 og litu ekki til baka eftir það. Haukar áttu ágætar rispur undir lok þriðja leikhluta en KR lét ekki forystuna af hendi og fagnaði 64-55 sigri.
Bergþóra Holton Tómasdóttir var stigahæst í liði KR í dag með 22 stig og 8 fráköst og Simone Jaqueline Holmes bætti við 21 stigi. Hjá Haukum var Lele Hardy allt í öllu með 26 stig, 23 fráköst, 5 stoðsendingar og 6 stolna bolta.



