spot_img
HomeFréttirKR hefur aldrei tapað deildarleik í Ásgarði

KR hefur aldrei tapað deildarleik í Ásgarði

Fimm leikir fara fram í Domino´s deild karla í kvöld og hefjast þeir allir kl. 19:15. Sætaskipan getur orðið á stöðutöflunni eftir kvöldið og ef við lítum til toppliðanna KR og Keflavíkur bæði með 26 stig þá munu þau vísast kappkosta við að gera sem fæst feilspor í baráttunni um deildarmeistaratitilinn.
 
 
Leikir kvöldsins í Domino´s deild karla, 19:15:
 
Njarðvík – Þór Þorlákshöfn
Stjarnan – KR
Snæfell – Haukar
ÍR – Grindavík
Keflavík – Valur
 
Njarðvík – Þór Þorlákshöfn
Fyrri leikur liðanna var einn af betri leikjum deildarkeppninnar þetta tímabilið. Tvíframlengja þurfti í Icelandic Glacial Höllinni þar sem Njarðvíkingar mörðu að lokum sigur. Þórsarar þurfa sex stiga sigur í Ljónagryfjunni í kvöld til að komast upp fyrir Njarðvík, taka innbyrðisviðureignina og planta sér í 4. sæti deildarinnar. Þórsarar hafa kunnað vel við sig í Ljónagryfjunni síðustu tvö tímabil undir stjórn Benedikts Guðmundssonar og unnu leikinn í Ljónagryfjunni 83-84 á síðustu leiktíð og 75-90 á þarsíðustu leiktíð.
 
Stjarnan – KR
Eitt mesta baslið sem KR lenti í fyrir jól í deildarkeppninni var heimaleikurinn gegn Stjörnunni. KR marði þann leik 88-84 en síðan þá hafa Björn Steinar Brynjólfsson og Jón Sverrisson reimað á sig Stjörnuskó en Kjartan Atli Kjartansson hefur látið af störfum svo það er nokkuð breytt Stjörnulið frá fyrri leiknum sem tekur á móti KR í kvöld. Staðreynd dagsins er hinsvegar sú að KR hefur aldrei í sögunni tapað deildarleik í Ásgarði, KR hefur aðeins einu sinni tapað fyrir Stjörnunni í Ásgarði og það var í úrslitakeppninni 2011, 107-105.
 
Snæfell – Haukar
Er 12 ára bið Hauka á enda? Síðasti sigur Hauka í Stykkishólmi í Íslandsmótinu kom árið 2002. Haukar unnu reyndar fyrri leik liðanna á tímabilinu í Hafnarfirði 82-77 og stigin tvö sem verða í boði í kvöld skipta liðin gríðarlegu máli enda Snæfell í 8. sæti með 10 stig og Haukar í 7. sæti með 14 stig.
 
ÍR – Grindavík
Röstin gerði lítið fyrir ÍR fyrir jól, piltarnir hans Örvars lágu þar 98-73 en nú er komið að því að sinna hlutverki gestgjafans þegar Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára mæta á heimavöll þess liðs sem unnið hefur flesta Íslandsmeistaratitla í efstu deild karla. Bæði lið hafa byrjað vel á nýja árinu og ÍR hefur híft sig smávegis frá botninum og eygir von um sæti í úrslitakeppninni en Grindvíkingar ef allt gengur upp í þeirra áformum geta enn blandað sér í baráttuna um deildarmeistaratitilinn. Menn selja sig dýrt í Hertz-Hellinum í kvöld.
 
Keflavík – Valur
Heilum 24 stigum munar á þessum tveimur liðum í deildinni og Keflvíkingar eru líklega vel pumpaðir og æðaberir eftir stórsigur á grönnum sínum í Njarðvík í síðustu umferð. Valsmenn hafa tvö stig undir beltinu og 16 stig í boði það sem eftir lifir deildarkeppninnar til að forða sér frá falldraugnum. Nestið sem Hlíðarendapiltar fara með á Reykjanesbrautina í kvöld er 92-81 sigur Vals á Keflavík í marsmánuði árið 1992.
 
Staðan í deildinni
Nr. Lið U/T Stig
1. KR 13/1 26
2. Keflavík 13/1 26
3. Grindavík 10/4 20
4. Njarðvík 9/5 18
5. Þór Þ. 8/6 16
6. Stjarnan 7/7 14
7. Haukar 7/7 14
8. Snæfell 5/9 10
9. ÍR 4/10 8
10. Skallagrímur 4/10 8
11. KFÍ 3/11 6
12. Valur 1/13 2
 
Mynd/ Sagan er Brynjari Þór og KR-ingum hliðholl í Ásgarði.
Fréttir
- Auglýsing -