spot_img
HomeFréttirKR hafði betur eftir svakalegar lokamínútur

KR hafði betur eftir svakalegar lokamínútur

KR lagði Stjörnuna í DHL-höllinni í kvöld og jafnaði því Stjörnuna að stigum í IE-deildinni. KR leiddi nánast allan leikinn fyrir utan nokkrar mínútur í fyrsta leikhluta og því má segja að sigurinn hafi verið verðskuldaður þó leikurinn hafi verið æsispennandi á lokakaflanum. KR, Stjarnan og Kelfavík eru nú jöfn í 2.-4. sæti deildarinnar, öll með 20 stig eftir úrslit kvöldsins. Stigahæstur í liði KR var Joshua Brown með 21 stig og 7 fráköst en næstir voru Robert Ferguson og Finnur Atli Magnússon með 15 stig hvor. Hjá Stjörnunni var Justin Shouse stigahæstur með 28 stig en næstir voru Keith Cothran með 15 stig, 10 stoðsendingar og 7 fráköst og Renato Lindmets með 14 stig.  
Stjarnan byrjaði leikinn betur og höfðu náð fjögurra stiga forskoti þegar þrjár mínútur voru liðnar, 4-8.  Bæði lið voru að spila sterkan varnarleik og það var ekki mikið skorað á upphafsmínútum leiksins. KR hafði þó frumkvæðið á næstu mínútum og skoruðu 10 stig gegn næstu 3 stigum Stjörnunnar og höfðu yfir, 14-11, þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum. Þá opnuðust varnarveggir liðana og liðin skiptust á að leiða leikinn. Þegar fyrsta leikhluta var lokið var hnífjafnt, 20-20.  

KR átti svo góðan sprett í upphafi annars leikhluta með Martin Hermansson í broddi fylkingar. Þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar höfðu þeir náð 6 stiga forskoti, 31-25, en Martin hafði þá skorað 6 af seinustu 9 stigum KR og átti stoðsendinguna á hin þrjú stigin. Teitur Örlygsson tók svo leikhlé fyrir Stjörnuna stuttu seinna þegar forskot KR var komið upp í 8 stig, 35-27. KR gerði vel að halda í forskotið og gáfu gestunum engar auðveldar körfur.  Stjörnumenn létu grípa sig glóðvolga við ótrúlegustu brot og voru komnir í villuvandræði strax í öðrum leikhluta. Renato Lindmets fékk dæmda tæknivillu fyrir að láta dómarann heyra það og var þess vegna kominn með 3 villur, Marvin og Fannar voru báðir komnir með tvær villur og þrír byrjunarliðsmenn því of nálægt því að þurfa hvíld. KR spilaði á breiðari hóp og var því ekki í sömu stöðu. Þrátt fyrir góð áhlaup KR tókst þeim ekki að stinga gestina af og þegar flautað var til hálfleiks var munurinn aðeins 3 stig, 47-44.  

Stigahæstur í liði KR í hálfleik voru Martin Hermannson, Robert Fegruson  og Hreggviður Magnússon, allir með 8 stig.  Í liði Stjörnunnar var það Keith Cothran sem var stigahæstur með 12 stig en næstir voru það Justin Shouse með 10 stig og Renato Lindmets með 6 stig. KR var hins vegar gjörsamlega að dominera frákastabaráttu kvöldsins en þeir höfðu tekið 25 fráköst í fyrri hálfleik gegn aðeins 10 fráköstum hjá Stjörnunni sem verður að teljast afar lélegt.  

Liðin skiptust á körfum á fyrstu mínútum þriðja leikhluta og munurinn á liðunum varð mestur í stöðunni 59-52 fyrir KR. Stjarnan kom hins vegar til baka og munnkaði muninn aftur niður í 3 stig, 65-62. Það var ekki fyrr en undir lok leikhlutans sem KR tókst að ná þessum mun aftur upp með góðum varnarleik og vel útfærðum hraðaupphlaupum. Þegar ein mínúta var eftir af leikhlutanum var munurinn kominn upp í 8 stig, 74-66.  Stjarnan tók þá við sér og setti fimm seinustu stig leikhlutans, 74-71, en þannig stóð þegar einn leikhluti var eftir. Justin Shouse fór á kostum í þriðja leikhluta og skoraði heil 16 stig af þeim 27 sem Stjarnan skoraði í leikhlutanum.  

Þó að Stjarnan hefði komið til baka í hvert skipti sem KR skaut sér frammúr þá virtist liðið ekki hafa það sem þurfti til að taka forskotið af KR. Gestirnir komust aldrei nær en tveggja stiga mun og KR hafði alltaf eitthvað inni til að loka á áhlaup gestanna. Þegar fjórði leikhluti var svo hálfnaður tókst Stjörnunni það sem ekki hafði gengið síðan í lok fyrsta leikhluta, að jafna leikinn. Hrafn Kristjánsson tók þá leikhlé fyrir KR í stöðunni 81-81. Gestirnir komust svo yfir í fyrsta skiptið síðan í fyrsta leikhluta þegar Marvin Valdimarsson fór á vítalínuna og kom þeim í 81-83. KR svaraði því með næstu 5 stigum leiksins og það lifnaði all hressilega yfir áhorfendum í salnum, 86-83. Stjarnan minnkaði muninn niður í eitt stig stuttu seinna 86-85. Lokamínúta leiksins varð svo æsispennandi þar sem Stjarnan fékk tækifæri til þess að jafan leikinn eða komast yfir þegar 30 sekúndur voru eftir. Rento Lindmets henti þá boltanum útaf og KR hélt í sókn. Stjarnan braut fljótt á Joshua Brown sem fór á vítalínuna fyrir og nýtti annað vítið, 87-85. Marvin Valdimarsson jafnaði svo metin í næstu sókn, 87-87.  KR fengu því seinustu sókn leiksins þegar 13 sekúndur voru eftir.  Joshua Brown fór þá upp í þrist, nokkuð fyrir utan línuna, en Keith Cothran brítur þá klaufalega á honum og hann fór á línuna, nýtti 2 af þremur skotunum og aðeins 2 sekúndur eftir af leiknum. Justin Shouse fékk lokatilraun leiksins frá miðju sem geigaði og 2 stiga sigur KR því staðreynd, 89-87.

KR: Joshua Brown 21/7 fráköst, Robert Lavon Ferguson 15/6 fráköst, Finnur Atli Magnusson 15/7 fráköst/5 stoðsendingar, Martin Hermannsson 13/4 fráköst, Hreggviður Magnússon 8, Emil Þór Jóhannsson 6/7 fráköst, Dejan Sencanski 5/6 stoðsendingar, Skarphéðinn Freyr Ingason 4, Ágúst  Angantýsson 2, Björn Kristjánsson 0, Kristófer Acox 0, Ólafur Már Ægisson 0.

Stjarnan: Justin Shouse 28/4 fráköst, Keith Cothran 15/7 fráköst/10 stoðsendingar, Renato Lindmets 14/7 fráköst, Marvin Valdimarsson 12/6 fráköst, Jovan Zdravevski 9, Fannar Freyr Helgason 5, Guðjón Lárusson 4, Sigurjón Örn Lárusson 0, Dagur Kár Jónsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Oskarsson

Umfjöllun: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -