spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaKR fyrstir til að leggja Keflavík!

KR fyrstir til að leggja Keflavík!

Úrslitakeppnisbragur í háspennuleik.

Uppgjör toppliðana í Domino´s deild karla fór fram í Blue Höllinni í kvöld þegar ósigraðir Keflvíkingar tóku á móti Íslandsmeisturum KR. Íslandsmeistararnir urðu fyrstir til að leggja heimamenn í leik sem hafði öll einkenni úrslitakeppnisleiks, mikla hörku, dramatík og spennu fram á síðasta skot. Lokatölur 66-67 fyrir KR.

Fyrir leikinn var Keflavík sem áður segir taplaust í fyrstu 6 leikjum sínum á meðan 6-faldir Íslandsmeistarar höfðu tapað síðustu tveimur eftir að hafa rúllað í gegnum fyrstu fjóra leiki sína. Keflavík því á toppnum með 12 stig en KR í 2.-3. sæti með 8 stig. Heimamenn gátu því með sigri myndað ansi stóra gjá milli liðana í kapphlaupinu um deildarmeistaratitlinum ef við leyfum okkur að notast við þann stimpil í nóvembermánuði.

Byrjunarliðin

Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson – Khalil Ullah Ahmad – Reggie Dupree – Deane Williams – Dominykas Milka 

KR: Matthías Orri Sigurðarson – Jakob Örn Sigurðarson –  Jón Arnór Stefánsson – Kristófer Acox – Michael Craion 

Gangur leiksins

Jón Arnór Stefánsson opnaði leikinn á laglegu stökkskoti í andlitið á Herði Axel og hinum megin fór Milka mjúkum höndum um boltann er hann gabbaði Craion og setti stökkskotið. KR leiddi 12-13 eftir 5 mínútna leik eftir að Jón Arnór setti þrist, fékk villuna og setti vítið að auki. Geitin með 9 af fyrstu 13 stigum KR og epíklevelið strax mjög hátt er liðin skiptust á höggum snemma leiks.  Brynjar Björnsson kom inn af bekknum með 2 þrista eins og honum er von og vísa og staðan skyndilega 14-21 en Keflvíkingar hálfklaufalegir sóknarlega með mislagðar hendur oft á tíðum. Guðmundur Jónsson var sendur á vettvang og það var eins og nærvera hans ein síns liðs kveikti í heimamönnum varnarlega. Deane Williams jafnaði leikinn í 24-24 eftir “and-1” og stemmningin eftir því í stúkunni. Desibilmælirinn sprakk svo þegar Khalil Ahmad stal boltanum, reif sig til skýja og tróð boltanum til að koma heimamönnum og Milka setti svo punktinn yfir i-ið á 10-0 syrpunni til að loka leikhutanum. 28-24 fyrir heimamenn. 

Allt var í járnum á fyrstu 3 mínútum annars leikhluta þar sem liðunum gekk illa að finna körfurnar en um leið varnirnar þéttari en í fyrsta leikhluta. Dominykas Milka er fjall að burðum og var að spila virkilega vel í fyrri hálfleik með 27 framlagspunkta auk þess að halda Craion nokkuð þægum. Craion þó ekki að reyna neitt of mikið og fáar sóknir sem enduðu í hans höndum. Staðan 35-30 þegar 3 og hálf mínúta voru til hálfleiks og erfitt að ráða í leik gestanna á þessari stundu þar sem enginn var að taka af skarið af neinni alvöru og vantaði flæði í sóknina. Andrés Ísak Hlynsson setti sniðskot í hraðaupphlaupi eftir laser sendingu Harðar Axels og Jakob Örn setti niður 2 víti hinum megin til að loka hálfleiknum þar sem heimamenn voru með undirtökin. Staðan 43-36 í hálfleik. 

Það var nokkuð augljóst hvert upplegg KR yrði í seinni hálfleik. Koma boltanum meira inn á Craion og vinna útfrá því. Kappinn var búinn að skjóta 5 sinnum á körfuna eftir 2 og hálfa mínútu og nýta eitt þeirra en KR-ingar voru miklu grimmari að sækja sóknarfráköst í byrjun leikhlutans, eitthvað sem var ábótavant í fyrri hálfleik þar sem heimamenn tóku 9 fráköstum meira en þeir. Kristófer Acox setti 4 stig í röð til að minnka muninn í 1 stig, 44-45, og Craion kom svo meisturunum svo yfir í næstu sókn og heimamenn í veseni. Algjörar sviptingar og allt annað að sjá til KR-inga sem loksins voru farnir að spila með reynslu og yfirvegun meistarans. Keflvíkingum gekk illa að finna glufur eða opin skot og voru aðeins búnir að skora 2 stig eftir rúmlega 5 mínútna leik í leikhlutanum. KR-ingar fóru þó illa að ráði sínu á vítalínunni, misnotuðu 4 slík í röð og þar með tækifæri til að búa til gjá á milli liðanna. Milka hrökk í gang, setti 4 stig í röð og kom heimamönnum aftur yfir eftir erfiðar mínútur. Brynjar svaraði með þristi þegar mínúta var eftir og þar við sat eftir 30 spilaðar mínútur. 49-51 fyrir KR.

Khalil Ahmad stimplaði sig svo aftur inn í fjórða leikhluta og henti niður 6 stigum í röð áður en KR tók leikhlé. 55-53 þegar 8 mínútur voru eftir. Deane Williams og Guðmundur Jónsson höfðu varið skot frá Mike Craion og Jóni Arnóri rétt áður sem glöddu augað. Kristófer Acox fékk sína 4. villu þegar 6 mínútur voru eftir og Jón Arnór gekk í þann klúbb mínútu síðar. Hitastigið í húsinu á suðupunkti við hvern dóm báðum megin á vellinum. Það var allt í lás og lítið skorað. Bæði lið börðust af mikilli ákefð og haft fyrir hverjum einasta lausa bolta. Keflavík leiddi með einu stigi þegar 5 mínútur voru eftir. Þá tóku heimenn 5-0 rispu, ævintýraþristur frá Deane Williams og stökkskot frá Milka. Það opnasta sem boðið hafði verið uppá allan seinni hálfleikinn og Ingi Þór sá sig knúinn til að ræða málin við sína menn. Jón Arnór gerðist svo sekur um skelfilegt dómgreindarleysi þegar hann svekkti sig á dómgæslunni, fékk tæknivillu fyrir röfl og lauk þar með leik þegar rúmar 3 mínútur voru eftir. Keflvíkingar misnotuðu vítið og Matthías Orri setti annan þristinn sinn í röð á rúmri mínútu. 66-63 þegar mínúta og 45 sek. voru eftir og KR með boltann eftir skorlausa mínútu. Kristófer Acox setti sniðskot og Craion fór á línuna til að koma gestunum yfir en brenndi af báðum skotunum. Khalil fekk 2 skot hinum megin en brenndi einnig báðum! Craion misnotaði sniðskot og Milka fékk dæmdan á sig ruðning í kjölfarið. Algjör farsi. Það var svo hver annar en Brynjar Björnsson sem kom KR yfir þegar 10 sekúndur voru eftir með glæsilegu gegnumbroti. Keflavík fékk síðasta skot leiksins, Khalil fór 1 á 1 á Jakob Örn, fékk ágætis þriggja stiga skot sem geigaði aftan á hringinn um leið og flautan gall. KR sigur 66-67 í hörkuspennandi leik.

Af hverju vann KR?

Svo miklu meira en bara 2 stig undir og bæði lið vissu það. Þetta hefði getað endað hvorum megin sem var og nánast allan tímann fannst manni hvert augnablik vera það sem skæri úr um úrslit leiksins. KR er með svarta beltið í þessum fræðum og kunna vel á þetta spennustig. Matthías og Brynjar gríðarlega mikilvægir á lokasprettinum og þá má ekki gleyma varnarframlagi Jakobs sem var til fyrirmyndar allan leikinn. 

Ómögulegt að segja að annað liðið hafi verið betra en hitt, þetta datt með KR í kvöld og þeir eiga þá sigurinn fyllilega skilið. KR virtist eiga fleiri vopn en Keflavík sem fékk t.d. bara 2 stig frá Herði Axeli og 3 frá Reggie Dupree. Það er ekki til útflutnings þótt báðir hafi sinnt öðrum skyldum sínum vel. Lokatilraun Khalil Ahmad vekur líka upp spurningar; hefði hann átt að sækja á körfuna og reyna að ná í villuna í stað þess að reyna þriggja stiga skot? Ekki gott að segja. Eitt er þó víst að allir hlakka til að sjá þessi tvö lið mætast aftur eftir áramót. 

Atvikið

Þrennt sem þarf að nefna.

Í fyrsta lagi sjaldséð dómgreindarleysi Jóns Arnórs á fjórum villum. Hann dansaði við eldinn þegar hann fór aðeins of geyst með tjáningarfrelsið í garð dómara leiksins og uppskar tæknivillu á fjórum villum. Réttur dómur og Jón sjálfsagt manna fegnastur að landa þessum sigri og þurfa ekki að vera “scape-goat” í kvöld. 

Í annan stað sigurkarfa Brynjars Björnssonar. Eitthvað svo rétt við það þegar Brynjar fær boltann með leikinn undir og maður veit bara að maðurinn er ekki að fara að bregðast sínum mönnum. Yfirvegað, silkimjúkt en um leið lyfseðilskylt. BB King í hnotskurn.

Að lokum er ekki hægt að líta framhjá því hversu dýr brottrekstarvilla Dominykas Milka er þegar leikurinn er búinn. Milka lét úrslit leiksins fara í skapið að sér eftir að leik var lokið og uppskar beina brottrekstarvillu við litla hrifningu liðsfélaga sinna. Milka mun því alltaf missa af a.m.k. einum leik í kjölfarið. Blaðamaður sá ekki nákvæmlega hvað gerðist en nóg var það til að verðskulda beina sturtuferð sem þó blasti við að væri lógískt næsta skref leikmanna að leik loknum. 

Bestir á vellinum

Mike Craion 16 stig, 10 fráköst, 5 stolnir, 2 varðir boltar. Fór lítið fyrir honum í fyrri hálfleik en þögull sallaði hann hægt og rólega niður sínum stigum. Varðist fimlega gegn Milka í seinni hálfleik og slökkti í honum um tíma. Áreiðanleikinn upplagður.

Brynjar Björnsson 13 stig. Leiddi liðið í land og var rauði þráðurinn í þessu hjá KR einhvern veginn allan tímann. 

Dominykas Milka. 26 stig og 14 fráköst. Frábær í fyrri hálfleik en átti erfitt uppdráttar í þeim síðari gegn sterkri KR vörninni.

Khalil Ullah Ahmad 16 stig, 7 fráköst, 3 stoðsendingar. Hefði getað orðið hetjan en í staðinn horfir maður á hann og spyr rannsakandi spurninga. Oft stutt stórra högga á milli.

Hvað þýða úrslitin og hvað gerist næst?

KR heldur 2. sætinu og saxa forskot Keflvíkinga á toppnum niður í 2 stig. Næst taka KR-ingar á móti Njarðvík á meðan Keflavík freistar þess að verða fyrsta liðið til að leggja Hauka að velli í Ólafshúsi. 

Myndasafn (Skúli B. Sigurðsson)

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Fréttir
- Auglýsing -