spot_img
HomeFréttirKR fóru spólandi glaðir úr Hólminum og staðan 1-1

KR fóru spólandi glaðir úr Hólminum og staðan 1-1

Snæfellingar höfðu ekki fengið á sig meira en 98 stig á heimavelli í vetur en það breyttist í kvöld þegar KR settu niður 107 stig. Snæfell gerði eins í DHL-Höllinni í síðasta leik en þar hafði enginn farið yfir 100 stigin. KR kom í Hólminn með látum og tóku öll völd í leiknum strax í upphafi. Vesturbæingar spiluðu fantavörn og voru funheitir í hittni sinni. Í fjórða hluta gerðu Snæfellingaar sig líklega í stöðunni 75-84 en KR tók þá öll völd, stálu, blokkuðu, tróðu og settu upp skotsýningu á meðan Snæfell strögglaði á öllum sviðum leiksins og fór KR með 88-107 sigur af Hólmi.
Heimamenn í Snæfell tóku 2 mínútur í að koma fyrstu stigum sínu í hús en Brynjar Björn hafði sett einn góðann upphafsþrist fyrir KR og komust þeir í 0-7 og léku góða vörn á Snæfellinga. KR voru allhressir á fyrsta sprettinum og komust í 6-14 eftir þrist frá Lewis og svo strax 6-16 þegar Finnur setti niður tvö. Snæfellingar voru að missa boltann klaufalega og voru frekar ragir í sókninni þegar Ingi Þór tók leikhlé. Snæfell rankaði þá við sér og 10 stiga munur skildi liðin af en Hlynur fékk að setja einn þrist óáreittur líkt og í síðasta leiknum. Staðan eftir fyrsta hluta var 20-30 fyrir KR sem voru heitir í sóknum sínum framan af.
 
Enn fóru Snæfell að gera sér erfiðara fyrir en þeir þurftu með töpuðum boltum og höfðu ekki fengið mikið fyrir sinn snúð. KR var alltaf 10 stigum á undan í öðrum hluta og hafði einnig tekið 23 fráköst á móti 11 Snæfells sem fengu varla að snerta tuðruna undir körfunni. Allt gekk upp hjá KR og kom Jón Orri sterkur inn hjá þeim þegar þeir stukku lengra frá og leiddu með 18 stigum í hálfleik 34-52.
 
Margir póstar voru að skora hjá KR en fremstir meðal jafningja voru, Morgan Lewis með 9 stig, Pavel Ermolinskij var að gæla við þrefalda tvennu 8 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar. Þeir Brynjar, Finnur og Steinar voru allir komnir með 6 stig hver.
 
Hjá Snæfell i voru menn ekki að setjann af krafti eins og segir í laginu en hjá þeim var Hlynur kominn með 11 stig og 8 fráköst af 13 fráköstum Snæfells. Sigurður Þorvalds var kominn með 8 stig og Sean Burton 7 stig.
 
Nonni Mæju var kominn með 3 villur í liði Snæfells eftir að hafa brotið á Lewis í troðslu en Hlynur var einnig með 3 villur en hjá KR voru Steinar og Pavel með 3 villur hvor. Snæfell virtist vera að rétta úr kútnum þegar þeir komu aðeins til baka úr stöðunni 42-63 í 51-65 en þá tók Páll leikhlé hjá KR. KR hafði verið að leiða leikinn nokkuð jafnt og þétt með góðri forystu í þriðja hluta. Þegar Snæfell gerði sig líklega í að minnka muninn tók Tommy Johnson sig til og setti tvo þrista í smettið á Snæfelli og staðan varð skjótt 57-73. Snæfell átti í verulegu basli með að taka fráköstin og voru KR að fá gríðar mörg sóknarfráköst og voru komnir með 13 slík undir lok þriðja hluta á móti 2 hjá Snæfelli. Munurinn var þó ekki meiri en 11 stig 64-75 og Snæfell var að pressa undir lokin sem tókst ekki betur en svo að KR átti síðustu stigin og leiddu áfram 64-79 í leiknum fyrir lokafjórðunginn.
 
Skarphéðinn Ingason fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu og Snæfell náði að minnka muninn í 9 stig með harðfylgi 75-84 snemma í fjórða hluta. Heimamenn voru svo sjálfum sér verstir í eftirfylgninni en ekki skal það tekið af KR að þeir spiluðu gríðar fína vörn í leiknum en Lewis var að vanda í loftfimleikum og komust KR í 75-94 með látum þar sem Tommy fór hamförum í vörn og sókn og var að svara gagnrýnisröddum um slaka frammistöðu vetur. Ekkert ógnaði svo sigri KR 88-107 sem fóru spólandi úr Hólminum með gríðlega mikilvægann sigur á bakinu og hreinlega nokkrum númerum of stórir fyrir Snæfell í kvöld. Hjá Snæfelli voru einfaldlega of fáir eða c.a 4 að stíga upp á meðan og vörnin var engin á meðan KR var með allt á hreinu og voru 8-10 menn að standa sína pligt.
 
Hlynur var stigahæstur Snæfell með 22 stig og 13 fráköst. Sigurður Þorvaldsson með 17 stig, Nonni Mæju 14 stig og Sean Burton 13 stig og 9 stoðs.
 
Hjá KR var Pavel með flotta þrefalda tvennu 18 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar. Morgan Lewis var engu að síður stigahæstu með 24 stig og Tommy Johnson 18 stig.
 
Lokastaða 88-107
Hálfleikstölur 34-52
 
Leikhlutaskor (20-30, 14-22, 30-27, 24-28)
 
 
Umfjöllun: Símon B. Hjaltalín.
Fréttir
- Auglýsing -