spot_img
HomeFréttirKR fara sigri hrósandi inn í úrslitakeppnina

KR fara sigri hrósandi inn í úrslitakeppnina

Haukar og KR mættust í kvöld í lokaumferð Dominosdeildar karla í Schenkerhöllinni. Mikil eftirvænting var fyrir einvígi Emils Barja og Pavels Ermolinskij um hvor væri hinn réttmæti þrennukóngur. Þrátt fyrir glæsilega rimmu þeirra tveggja þá náðu hvorugur þrennu í kvöld (það gerði hins vegar Matthías Orri Sigurðarson í leik ÍR gegn Þór Þ.) og að auki var senunni stolið af hinum unga Martin Hermannssyni sem bauð uppá skotsýningu er hann skoraði 29 stig á 69% skotnýtingu þar af 80% þriggjastiga er KR unnu 74-86.
 
KR byrjuðu betur og komust í 2-7 og svo 6-14 á fyrstu fimm mínútum leiksins. Þá kveiknaði á Haukum og minnkuðu þeir muninn í 15-17. Tveir þristar í röð frá KR breyttu því þó fljótt í 15-23 er Brynjar Þór Björnsson og Pavel Ermolinskij settu sitt hvorn. Haukar áttu síðan næstu körfur og endaði leikhlutinn í 19-23. Martin Hermannsson gríðarlega öflugur með 10 stig í leikhlutanum ásamt því að Terrence Watson og Emil Barja voru með 8 og 7 stig fyrir Hauka.
 
KR voru fljótir að koma sér í 12 stiga forystu þegar þeir yfirspiluðu Hauka 9-1 á rétt rúmum tveimur mínútum þar sem að meðal annars Jón Orri Kristjánsson var með eðal iðnaðartroðslu. Haukar voru mjög slakir í leikhlutanum og KR náðu á keyra muninn upp í 22 stig þegar komið var að hálfleik. Martin hélt áfram að leika Haukanna grátt og var hann kominn með 18 stig í hálfleik. Að sama skapi slökknaði algjörlega á Watson og Emil. KR voru líka að rústa frákastabaráttunni 21-11.
 
Mikill varnarbarningur og lágt stigaskor einkenndi fyrri helming þriðja leikhluta þar sem að Magni Hafsteinsson átti meðal annars magnað varið skot gegn Watson og þar sem að Pavel fékk sínar þriðju og fjórðu villu með stuttu millibili svo hann þyrfti að fá sér hvíld á bekknum. Það var lýsandi fyrir muninn á liðunum í kvöld að þegar Haukar voru að spila skínandi vel og KR voru slakir þá tókst Haukum aðeins að halda í við KR en ekki að saxa á þá. Um leið og KR tóku sig tak og fóru að spila aftur almennilega þá fóru þeir bara að auka muninn. Staðan 47-72 að loknum þriðja leikhluta.
 
Það verður þó að dáðst að Haukunum fyrir það að neita að gefast upp þrátt fyrir bága stöðu í leiknum en þeir hófu fjórða leikhlutann á mjög góðu áhlaupi þar sem þeir settu nokkra þrista er þeir yfirspiluðu KR 13-4 og komu stöðunni í 60-76. Brynjar var eitthvað ósáttur við einn dómarann þrátt fyrir að villa hafði verið dæmd gegn Haukum og lét Brynjar hann heyra það er hann gekk að velli þar sem verið var að skipta honum útaf. Það bjargaði honum þó ekki frá tæknivillunni. Að sama skapi voru Emil og Pavel komnir að suðupunkti eftir að Emil hafði brotið á Pavel þegar hann setti niður þrist og þrættu þeir mikið sín á milli er Pavel var að undirbúa sig að taka vítaskotið sem hann fékk. Svo mikið að dómarainn sá sig knúinn til að stíga inn í og aðvara þá. Haukarnir voru ekki hættir og sóttu án afláts allt til enda og þrátt fyrir að hafa ekki átt möguleika á sigrinum þá tókst þeim að minnka muninn niður í 12 stig sem er þó nokkuð betra en 27 stiga forystan sem KR hafði á tímabili.
 
 
 
Mynd/ Axel Finnur – Martin Hermannsson fór illa með Haukanna
 
Fréttir
- Auglýsing -