16:07
{mosimage}
(Syturnar Hildur og Guðrún Arna fögnuðu vel í leikslok)
KR eru bikarmeistarar kvenna árið 2009 eftir feiknarsterkan sigur á Keflavík í laugardalshöllinni í dag. Kr stelpur mættu gríðarlega sterkar til leiks og náðu ótrúlegu forskoti strax í fyrsta leikhluta. Keflavík var það sem eftir var leiksins að vinna það upp og í upphafi fjórða leikhluta var leikurinn jafn í fyrsta skiptið síðan á upphafsmínútunum. Það fór hins vegar aldrei á milli mála hverjir ætluðu að hirða bikarinn því KR stelpur fóru hreinlega á kostum í fjórða leikhluta og völtuðu yfir Keflavík. Leikurinn endaði með 16 stiga sigri KR, 60-76, sem eru vel að bikarmeistaratitlinum komnar.
Leikurinn fór gríðarlgea hratt af stað og bæði lið pressuðu hátt. Það voru Keflavíkurstelpur sem áttu fyrstu stig leiksins en hlutirnir gengur lítið hjá þeim næstu mínúturnar. Kr skoruðu næstu 16 stigin þangað til að Keflavík tók leikhlé þegar tæplega fjórar mínútur voru liðnar af leiknum. Keflavík virtist hafa látið stressið bera sig ofurliði og hentu boltanum frá sér trekk í trekk. Keflvíkingar náðu að svara aðeins fyrir sig á næstu mínútum og þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum tók KR leikhlé en þá höfðu þær ekki skorað í tvær mínútur og staðan 9-20. Krafturinn sem Kr stelpurnar sýndu á upphafsmínútunum virtist dala eftir því sem leið á leikhlutan og Keflavík komst smá saman meira inní leikinn. Þegar fyrsta leikhluta lauk var munurinn kominn niður í 8 stig, 17-25. Keflavík hafði þá spilað seinustu mínúturnar í stífri pressu og svæðisvörn sem sló KR útaf laginu. Svava Ósk Stefánsdóttir fór fremst í flokki í varnarvegg Keflavíkur en hún stal þremur boltum í fyrsta leikhluta.
{mosimage}
Annar leikhluti fór mun rólegri af stað en sá fyrsti. Kr höfðu þó frumkvæðið, þær fóru oft ótrúlega auðveldlega í gegnum miðjuna hjá Keflavík í auðveld sniðskot. Þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum tóku Keflavík leikhlé í stöðunni 21-31. Það virtist lítið sem ekkert ganga hjá Keflavík, þær klikkuðu úr sniðskotum, gáfu Kr auðveld sóknarfráköst og virtust einfaldega ekki vera jafn ákveðnar og KR. Munurinn á liðunum varð mest 15 stig þegar leikhlutinn var rétt rúmlega hálfnaður, 21-35. Keflavík tókst hins vegar að minnka þann mun smám saman niður þangað til að munurinn var kominn niður í 10 stig í hálfleik, 32-42.
Stigahæst fyrir Kr í hálfleik var Hildur Sigurðardóttir með 11 stig og 5 fráköst en næstar voru Helga Einarsdóttir með 10 stig og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir með 9 stig. Hjá Keflavík voru Pálína Gunnlaugsdóttir og Svava Ósk Stefánsdóttir atkvæðamestar með 7 stig hvor en næst var Birna Valgarðsdóttir með 6 stig.
Það var allt annað Keflavíkur lið sem mætti inní seinni hálfleik og geta menn ímyndað sér að Jón Halldór hafi lesið vel yfir sínum stelpum í hálfleik. Varnarleikurinn sem Keflavík var að leita eftir var mættur og þá fóru hlutirnir að breytast. Þegar rúmlega fjórar mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta var munurinn kominn niður í 4 stig og Jóhannes Árnason sá ekki annan leik á borði en að taka leikhlé, 40-44. Ekki bætti það úr skák fyrir Kr að Hildur Sigurðardóttir, máttarstólpi í sóknarleik liðsins, var komin með fjórar villur þegar þriðji leikhluti var hálfnaður og hvíldi þess vegna það sem eftir var leikhlutans. Keflavík tókst að spila svo gott sem fullkomna vörn í 5 mínútur og var munurinn kominn niður í aðeins eitt stig, 43-44, þegar tvær mínútr voru eftir af leikhlutanum. Þá tóku Kr hins vegar við sér og skoruðu 4 stig gegn engu þangað til að Keflavík tók leikhlé. Lokamínútur leikhlutans voru æsispennandi og mikil barátta í liðunum, þegar flautað var til loka leikhlutans munaði aðeins tveimur stigum á liðunum, 48-50, Kr í vil.
Það voru ekki liðnar þrjár mínútur af fjórða leikhluta þegar Keflavík jafnaði leikinn í fyrsta skiptið síðan á upphafsmínútunni, 54-54. Liðin skiptust á að skora næstu mínúturnar en Kr hafði þó frumkvæðið allan tíman. Það var svo ekki síst fyrir stórleik Hildar Sigurðardóttur að Kr voru komnar með 6 stiga forskot aftur þegar leikhlutinn var hálfnaður, 56-62. Spennan var farin að segja til sín á lokamínútunum og þegar fjórar mínútur voru eftir tók Keflavík leikhlé í þeirri von að komast aftur inn í leikinn, 56-64. Svava Ósk fékk sína fimmtu villu þegar um það bil þrjár mínútur voru eftir af leiknum og munurinn var kominn upp í 12 stig, 56-68. Það var því farið að halla all hressilega á Keflavíkurstelpur sem voru í bullandi vandræðum með að koma boltanum ofaní körfuna. Það var orðið ljóst í hvað stefndi þegar ein mínúta var eftir og Kr hafði skorað 18 stig gegn 3 stigum Keflavíkur á 7 mínútna kafla. Jóhannes Árnason leyfði sér að skipta út öllu liðinu eftir það og byrjuðu fagnaðarlæti vesturbæinga. Leikurinn endaði svo með 16 stiga sigri KR, 60-76.
Stigahæst í liði KR var Sigrún Ámundardóttir með 18 stig en næstar voru Hildur Sigurðardóttir með 17 stig og Helga Einarsdóttir með 16 stig. Hjá Keflavík var Bryndís Guðmundsdóttir stigahæst með 14 stig en næstar voru Birna Valgarðsdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir með 11 stig hvor.
Texti: Gísli Ólafsson
Myndir : [email protected] og Gunnar Gunnarsson
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



