spot_img
HomeFréttirKR bikarmeistari í drengjaflokki

KR bikarmeistari í drengjaflokki

KR tryggði sér bikarmeistaratitilinn í drengjaflokki með öruggum sigri á Stjörnunni í kvöld. Liðin eru í sitthvorri deildinni í flokknum og því mátti búast við sigri KR. KR gaf í strax í upphafi en Stjarnan fær hrós fyrir að leika allan leikinn á góðum hraða og gefast aldrei upp. 

Gangur leiksins

 

Það tók Stjörnuna heilar þrjár mínútur að setja fyrstu körfuna í leiknum og komst KR í 13-0 á þeim kafla. Leikmenn KR voru hreinlega tilbúnari í leikinn og spennustigið margfræga yfirþyrmandi hátt hjá Stjörnunni. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 29-14 en Stjarnan hélt muninum þannig út fyrri hálfleik. 

 

Varnarleikur Stjörnunnar hefði ekki haldið vatni í logni í gegnum allan leikinn og tókst þeim því ekki gera almennileg áhlaup að KR. Drengirnir úr vesturbænum juku forskotið í seinni hálfleik en Stjarnan gerði vel þegar þeir brotnuðu ekki heldur héldu áfram að setja stig á töfluna. 

 

KR var hreinlega sterkara lið að lokum en Stjarnan getur verið stolt af því að hafa komist á þennan stað og geta klárlega byggt á því. 

 

Tölfræði leiksins

 

Það er ansi ljóst miðað við stigatöfluna í kvöld að KR hafði betur í nánast öllum tölfræðiþáttum. Þeir tóku 20 fleiri fráköst og þar af urmul af sóknarfráköstum. Helsti munurinn á liðunum kristallast þó í fjölda stoðsendinga en KR var með 33 en Stjarnan 9 i leiknum. Skotnýting KR er mun betri og fleiri leikmenn leggja meira í púkk sóknarlega. 

 

Hetjan

 

Það er erfitt að taka einn leikmann útúr gríðarlega sterku liði KR. Margir leikmenn lögðu eitthvað til og margir til kallaðir. Orri Hilmarsson, Veigar Áki, Ólafur Þorri og Sigvaldi Eggertsson voru mjög góðir í dag. Það var Andrés Ísak Hilmarsson sem stóð uppúr í liði KR, hann endaði með 21 stig, 14 fráköst og 4 stoðsendingar auk þess sem hann hitti öllum fjórum þriggja stiga skotum sínum og var sterkur varnarlega. 

 

Liðsheild fram yfir einstaklingsframtak

 

Það var bókstaflega bara eitt lið á vellinum í þessum leik. KR spilaði fallegan liðsbolta þar sem boltinn fór á milli manna og skynsemin lak af leikmönnum. Hjá Stjörnunni gekk sóknarleikurinn útá einn mann, hinn gríðarlega efnilega Dúa Þór Jónsson. Hann tók rúmlega þriðjung allra skota Stjörnunnar og var einungis með þrjár stoðsendingar. Það var því nokkuð auðvelt fyrir KR að lesa sókaraðgerðirnar og plan B virtist vera lítið. Stjarnan lék nánast allan tímann einhverskonar svæðisvörn sem virkaði engan veginn. Stjarnan fær þó hrós fyrir að setja 80 stig á töfluna og halda áfram allt til enda. 

 

KR liðið getur ekki fagnað lengi því margir leikmenn spila einnig með unglingaflokki gegn Tindastól á sunnudag. Það er greinilegt að liðið er vel spilandi og margir virkilega efnilegir leikmenn að koma upp. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn #1

Myndasafn #2

 

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

 

Myndir / Davið Eldur og Bára Dröfn

 

Fréttir
- Auglýsing -