spot_img
HomeFréttirKR bikarmeistari í 11. flokki

KR bikarmeistari í 11. flokki

KR er bikarmeistari í 11. flokki drengja eftir 84-77 sigur á Grindavík/Þór Þorlákshöfn í Laugardalshöll. Eyjólfur Ásberg Halldórsson skilaði rosalegum tölum hjá KR í dag með 32 stig, 28 fráköst og 11 stoðsendingar! Þetta var ekki eina þrennan í leiknum því Ingvi Þór Guðmundsson leikmaður Grindavíkur/Þórs gerði 25 stig, tók 15 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Minni munur reyndist á liðunum í lokin en flestir áttu von á því KR tók afgerandi forystu snemma en Grindavík/Þór sýndi af sér einskært þrek með því að saxa niður muninn.
 
 
Liðin skiptust á forystunni framan af fyrsta leikhluta en Grindavík/Þór átti í mesta basli með Eyjólf Ásberg Halldórsson í liði KR sem skoraði nánast að vild og hirti öll fráköst. KR snöggtum beittari með 20-13 forystu að loknum fyrsta leikhluta þar sem Eyjólfur var farinn að hlaða í þrennu með 10 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar.
 
Áfram hélt Eyjólfur að refsa liðsmönnum Grindavíkur/Þórs i öðrum leikhluta sem KR vann 22-11 og leiddu 42-24 í hálfleik. Örugg forysta KR og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson enn ekki farinn að sýna vígtennurnar í liði KR, þetta átti eftir að verða langur sunnudagur í kolli liðsmanna Grindavíkur/Þórs.
 
Eyjólfur skartaði myndarlegum tölum í hálfleik, 20 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar en hjá Grindavík var Ingvi Þór Guðmundsson atkvæðamestur í leikhléi með 12 stig.
 
Í síðari hálfleik voru lengi vel engin teikn á lofti um að Grindavík/Þór ætti hina minnstu von í leiknum. KR vann þriðja leikhluta 22-18 og leiddu 64-42 fyrir fjórða og síðasta hluta. Þægindin og rólegheit lögðust yfir raðir röndóttra.
 
Með hverri mínútunni sem leið í fjórða leikhluta fór röndóttum að fatast flugið, léku fjarri þeirri festu sem þeir höfðu sýnt af sér fyrstu þrjá hlutana. Grindavík/Þór þáði þetta heimboð og fór að saxa niður forystuna með Ingva Þór og Nökkva í broddi fylkingar og áður en leið á löngu hafði Ingvi landað sinni eigin þrennu, 25 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar. Mögnuð endurkoma hjá Grindavík/Þór en holan varð of djúp og KR hélt forystunni uns lokaflautið gall en voru minntir á það rækilega að það þýðir ekkert að gera hlutina vel í hálftíma því leikurinn er jú fullar 40 mínútur.
 
 
Eyjólfur Ásberg Halldórsson – Lykil-leikmaður leiksins
 
  
Fréttir
- Auglýsing -