spot_img
HomeFréttirKR bikarmeistari í 11. flokki karla

KR bikarmeistari í 11. flokki karla

KR er bikarmeistari í 11. flokki drengja eftir öruggan sigur á Njarðvík í úrslitaviðureign liðanna í Vodafonehöllinni. KR tók snemma góða forystu í leiknum sem þeir héldu allt til enda og varð leikurinn aldrei spennandi, lokatölur 100-64 fyrir KR. Oddur Kristjánsson var valinn besti maður leiksins með 24 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar í liði KR. Hjá Njarðvíkingum var Maciej Baginski atkvæðamestur með 27 stig og 13 fráköst.
 
Þorsteinn Eyfjörð Þórarinsson setti tóninn hjá KR og gerði fyrstu fjögur stig liðsins er hann sótti með krafti á Njarðvíkurkörfuna. Oddur Kristjánsson var svo ekki lengi að taka við keflinu og kom KR í 16-4 með fimm stiga rispu. KR-ingar léku þétta vörn í upphafi leiks og voru mun betri. Njarðvíkingar að sama skapi voru hikandi í sínum sóknaraðgerðum. KR leiddi svo 22-13 eftir fyrsta leikhluta þar sem Högni Fjalarsson komst upp að körfunni í vel útfærði lokasókn KR.
 
KR gerðu fyrstu sex stigin í öðrum leikhluta og leiddu 28-13. Röndóttir beittu græna einnig pressuvörn sem virkaði vel og munurinn óx og dafnaði uns KR leiddi 44-27 í leikhléi. Maciej Baginski tók nokkrar rispur í liði Njarðvíkinga en aðrir voru fremur tregir til árása á KR-vörnina.
 
Oddur Kristjánsson var með 13 stig og 4 fráköst hjá KR í hálfleik en hjá Njarðvíkingum var Maciej Baginski með 15 stig og 7 fráköst.
 
Njarðvíkingar voru ekki líklegir til afreka framan af þriðja leikhluta, hið sama var uppi á teningnum og í fyrri hálfleik. KR fann auðveldar leiðir upp að Njarðvíkurkörfunni og voru með þægileg tök á leiknum. Þegar líða fór á þriðja leikhluta hertu Njarðvíkingar róðurinn og lifnuðu smá við þegar Þorsteinn Eyfjörð fór af velli í liði KR með fimm villur. Njarðvík vann þriðja leikhluta 28-22 og staðan því 66-55 fyrir KR fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Eftir góðan þriðja leikhluta var allt loft úr Njarðvíkingum en KR opnaði fjórða leikhluta með 11-1 byrjun og gerðu strax út um vonir Njarðvíkinga um að komast eitthvað nærri. KR klárði leikinn svo örugglega 100-64.
 
KR
Oddur Kristjánsson – 24 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar
Hugi Hólm Guðbjörnsson – 17 stig, 20 fráköst
 
Njarðvík
Maciej Baginski – 27 stig, 13 fráköst og 3 stoðsendingar
Brynjar Þór Guðnason – 9 stig og 5 stoðsendingar
 
Karfan.is óskar KR til hamingju með bikartitilinn.
 
Umfjöllun/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -