spot_img
HomeBikarkeppniKR bikarmeistari 10. flokks stúlkna

KR bikarmeistari 10. flokks stúlkna

KR varð í dag bikarmeistari í 10. flokki stúlkna eftir sigur gegn Keflavík í úrslitaleik í Laugardalshöllinni, 86-48.

Fyrir leik

KR hefur verið besta lið deildarinnar það sem af er tímabili hjá 10. flokki stúlkna. Hafa enn ekki tapað leik eftir 15 spilaða. Keflavík er öllu neðar í töflu 1. deildar flokksins, í 6. sætinu með 3 sigra og 11 töp það sem af er tímabili.

Gangur leiks

Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur tekur KR öll völd á vellinum og byrja að byggja upp forystu sína. Rebekka Rut Steingrímsdóttir gjörsamlega frábær fyrir KR á þessum upphafsmínútum, setur 11 stig í fyrsta fjórðungnum, en þegar hann er á enda er staðan 21-11 fyrir KR. Keflavík gerir ansi vel í upphafi 2. leikhluta að stoppa í götin og stöðva þetta áhlaup KR. Ná þó lítið að vinna á forskotinu, sem enn er 15 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 38-25.

Stigahæst fyrir KR í fyrri hálfleiknum var Rebekka Rut Steingrímsdóttir með 15 stig á meðan að Björk Karlsdóttir var komin með 12 stig fyrir Keflavík.

KR heldur áfram að bæta í í upphafi seinni hálfleiksins og kemur Keflavík nánast engum vörnum við, leikurinn við það að hverfa úr augnsýn frá þeim. Góður leikur Rebekku Rutar heldur áfram hjá KR og þá ná Kaja Gunnarsdóttir og Kristrún Kjartansdóttir einnig að setja nokkrar góðar körfur í þriðja leikhlutanum. Munurinn orðinn 35 stig fyrir lokaleikhlutann, 68-33. Líkt og kannski eðlilegt getur talist hægðist aðeins á stigaskorun KR í fjórða leikhlutanum er bæði lið fóru að nýta sér æ fleiri leikmenn úr leikmannahópum sínum. Leikmenn Keflavíkur mega þó eiga það að hafa ekki gefist upp. Þær héldu áfram að reyna, þó leikurinn hafi fyrir löngu verið farinn. Niðurstaðan að lokum þó einkar öruggur sigur KR, 86-48

Hver var munurinn?

KR voru gríðarlega fastar fyrir í leiknum. Bæði náðu þær að gera Keflavík lífið leitt með sterkri vörn og pressu og þá gekk þeim einnig vel að hirða sóknarfráköst í leiknum. Sóknarlega var KR einnig mun betri aðilinn. Vissulega með Rebekku Rut sem sinn aðal leikmann, en þá voru einnig margar aðrar að leggja í púkkið. Heilt yfir var KR miklu betri aðilinn, og sigur þeirra gífurlega sanngjarn.

Atkvæðamestar

Bestar í liði KR í kvöld voru Kristrún Kjartansdóttir með 18 stig, 12 fráköst, 11 stoðsendingar, 3 stolna bolta, Rebekka Rut Steingrímsdóttir með 28 stig, 9 fráköst, 4 stolna bolta og Kaja Gunnarsdóttir með 20 stig og 5 fráköst.

Fyrir Keflavík var Björk Karlsdóttir atkvæðamest með 18 stig, 10 fráköst og 5 stolna bolta. Henni næst var Sigurbjörg Gunnarsdóttir með 9 fráköst, 4 stoðsendingar og 2 stolna bolta.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -