spot_img
HomeBikarkeppniKR bikarmeistarar í 9. flokki drengja

KR bikarmeistarar í 9. flokki drengja

KR varð í kvöld bikarmeistari í 9. flokki drengja eftir sigur gegn Stjörnunni í úrslitaleik í Laugardalshöllinni.

Fyrir leik

Í deildarkeppni tímabilsins eru það þessi tvö lið sem eru í efstu tveimur sætunum. Stjarnan er í efsta sætinu með 10 sigra og 2 töp á meðan að KR er sæti neðar með jafn marga sigra, en 4 töp. Innbyrðis höfðu liðin mæst í tvígang og skipt með sér sigrum, þar sem Stjarnan vann í Garðabæ og KR í Vesturbænum.

Gangur leiks

KR byrjaði leikinn öllu betur. Voru fljótir að skapa sér smá forystu, eru mest 9 stigum yfir í fyrsta leikhluta, en Stjarnan nær að minnka bilið fyrir lok fyrsta fjórðungs, 15-18. KR nær svo að halda í þessa forystu út fyrri hálfleikinn og leiða með 5 stigum þegar liðin halda til búningsherbergja, 24-29.

Stigahæstur í fyrri hálfleiknum fyrir KR var Orri Ármannsson með 9 stig á meðan að fyrir Stjörnuna var Steinar Rafn Rafnarsson kominn með 10 stig.

Stjarnan nær að minnka muninn jafna og komast yfir á fyrstu mínútum seinni hálfleiksins. Síðan skiptast liðin á forystunni í nokkur skipti áður en KR nær henni á nýjan leik og leiða með 5 stigum fyrir lokaleikhlutann, 39-44.

KR virðist svo vera með góð tök á leiknum í upphafi þess fjórða og leiða með 10 stigum þegar 5 mínútur eru til leiksloka, 39-49. Stjarnan nær ágætis áhlaupi á lokamínútunum þar sem þeir skera muninn minnst niður í 5 stig, 48-53. Nær komast þeir þó ekki og KR vinnur að lokum sterkan sigur, 48-56.

Hver var munurinn?

Bæði fráköstuðu KR betur í leiknum og þá voru þeir einnig duglegri við að koma sér á gjafalínuna. Einnig munaði einhverju um að það virtist ekki skipta máli hver það var sem kom inná fyrir KR í leiknum, allir virtust klárir í að henda sér á lausa bolta og berjast fyrir þessum sigur.

Atkvæðamestir

Besti leikmaður vallarins í kvöld var leikmaður KR Benóní Stefán Andrason, en á rúmum 30 mínútum spiluðum skilaði hann 17 stigum, 13 fráköstum, 3 stoðsendingum og 3 stolnum boltum. Honum næstur í liði KR var Jóhannes Ragnar Hallgrímsson með 15 stig, 3 fráköst, 2 stoðsendingar og 4 varin skot.

Fyrir Stjörnuna var fyrirliðinn Steinar Rafn Rafnarsson atkvæðamestur með 19 stig, 6 fráköst og 4 stolna bolta. Þá bætti Daníel Geir Snorrason við 10 stigum, 10 fráköstum og 4 stoðsendingum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -