spot_img
HomeFréttirKR beit frá sér en Þór barði sér leið í úrslit

KR beit frá sér en Þór barði sér leið í úrslit

Nýliðar Þórs úr Þorlákshöfn munu leika um Íslandsmeistaratitilinn þetta tímabilið og verða þar með fyrstu nýliðarnir síðan 8-liða úrslitakeppni hófst til þess að berjast um titilinn. Þór lagði KR 83-80 í spennuslag í kvöld þegar liðin mættust í sinni fjórðu undanúrslitaviðureign. Leikurinn var hnífjafn en Þór var við stýrði í síðari hálfleik og það kom í hlut Guðmundar Jónssonar að gera síðustu stig leiksins af vítalínunni. Tveir KR þristar í lokin vildu ekki niður en þeir hefðu sent leikinn í framlengingu. Þór fer því í úrslit og KR verður fjórða liðið í röð sem er ríkjandi Íslandsmeistari og fellur út í undanúrslitum.
Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í Icelandic Glacial Höllinni um leið og lokaflautið gall og ljóst að samfélagið hér er komið á annan endann, grænar blöðrur á öllum ljósastaurum í bæjarfélaginu og börn biðu í löngum röðum fyrir leik til þess að láta mála sig græn og lita hárið á sér grænt.
 
Blagoj Janev gerði fyrstu stig leiksins úr þriggja stiga körfu en liðunum gekk erfiðlega að finna stigin á upphafsmínútunum. Robert Ferguson var allt annar maður frá leik þrjú og var strax ógnandi á blokkinni í liði KR og einnig tímabært að menn færu að finna hann í teignum. Grétar Ingi Erlendsson fékk snemma tvær villur í liði Þórs og inn í hans stað mætti Henley með góða baráttu og þá var Janev sömuleiðis að frákasta vel fyrir Þór með sex fráköst í fyrsta leikhluta. Ferguson átti lokaorðið í fyrsta leikhluta og minnkaði muninn í 19-18 fyrir KR.
 
Þór opnaði annan leikhluta með 7-3 dembu en KR-ingar tóku leikhlé og jöfnuðu strax að því loknu í 26-26. Reyndar var tíu sinnum jafnt í fyrri hálfleik og sex sinnum skiptust liðin á forystunni.
 
Eftir 15 mínútna leik höfðu heimamenn í Þór aðeins fengið dæmdar á sig þrjár villur og ljóst að þá er einkennismerki þeirra, varnarleikurinn, ekki í blússandi standi. KR að sama skapi voru mun ferskari en þeir hafa verið síðustu tvo leiki og ófeimnir við að fá villur.
 
Í stöðunni 40-40 tók Þór 5-0 áhlaup en KR minnkaði í 46-45 eftir smá hamagang á lokasekúndunum. Govens braust þá í gegn og fékk villu en það var líka dæmd óíþróttamannsleg villa á Janev fyrir að sveifla olnboga óvarlega. KR-ingar settu vítin á eftir Þór en náðu ekki að nýta sér lokasóknina til að komast yfir leikhléi og því leiddu Þórsarar 46-45 þegar liðin gengu til búningsklefa.
 
Darrin Govens var með 14 stig og 8 stoðsendingar hjá Þór í hálfleik en hjá KR var Robert Ferguson með 11 stig og 5 fráköst.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 61,9%, þriggja 30% og víti 68,8%
KR: Tveggja 37,9%, þriggja 60% og víti 83,3%
 
Rétt eins og í upphafi leiks fundu liðin körfuna seint en þristur frá Guðmundi Jónssyni losaði um hömlurnar og Þór komst í 55-47 þegar KR tók leikhlé. Grétar Ingi var að leika eins og hann kann best en var óheppinn að fá snemma sína fjórðu villu í síðari hálfleik. KR sótti mikið inn í teiginn og gaf það vel og hélt þeim í raun inni í leiknum. Þór leiddi svo 69-66 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Fyrstu þrír leikhlutarnir voru í járnum og sá fjórði var einfaldlega úr eðalmálmum. Spennan var gríðarleg, KR fór að anda ofan í hálsmál þórsara og náðu að jafna leikinn í 78-78 þegar Brown skoraði eftir öflugt gegnumbrot. Govens var hér kominn með fjórar villur í liði Þórs og Grétar Ingi farinn af velli með fimm villur.
 
Þórsarar komust í 82-80 þegar rúm mínúta var til leiksloka, KR missti boltann í næstu sókn þegar sóknarvilla var dæmd á Robert Ferguson. Þór fór því næst í langa sókn og þegar þeir loks skutu náðu þeir stærsta og dýrasta frákasti seríunnar, sóknarfrákasti svo KR varð að brjóta. Þeir brutu á Guðmundi Jónssyni sem setti fyrra vítið en brenndi af því síðara og staðan 83-80 þegar KR hélt í sókn og ekkert annað en þristur í boði. Sá fyrsti vildi ekki niður en KR náði sóknarfrákastinu og næsti vildi heldur ekki niður um leið og flautan gall og því fögnðu Þórsarar sigri og um leið sæti í úrslitaseríunni um Íslandsmeistaratitilinn.
 
Einvígi þessara öflugu liða var mikil skemmtun, vörn Þórsara var mikið á milli tannanna á fólki enda gefur hún ekki tommu eftir. KR-ingar komu í Þorlákshöfn í kvöld með bakið upp við vegg og voru umtalsvert betri í kvöld heldur en í leik tvö og þrjú. Darrin Govens heldur áfram að sýna hvað í honum býr með 20 stig, 8 fráköst og 10 stoðsendingar í kvöld. Grétar Ingi átti flotta spretti með 12 stig og þá voru þeir Guðmundur og Henley einnig sterkir báðir með 16 stig. Hjá KR var Ferguson öflugur í fyrri hálfleik og Brown splæsti í myndarlega tvennu með 19 stig og 10 stoðsendingar. Hreggviður Magnússon kom einnig öflugur af bekknum með 12 stig. KR er því komið í sumarfrí en úrslitaserían bíður nýliðanna, þar mæta þeir annað hvort Stjörnunni eða Grindavík en gulir leiða einvígið 2-1.
 
Byrjunarliðin:
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens, Guðmundur Jónsson, Darri Hilmarsson, Blagoj Janev og Grétar Ingi Erlendsson.
KR: Joshua Brown, Dejan Sencanski, Martin Hermannsson, Finnur Atli Magnússon og Rob Ferguson.
 
Heildarskor:
 
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens 22/8 fráköst/10 stoðsendingar/6 stolnir, Joseph Henley 16/11 fráköst, Guðmundur Jónsson 16, Grétar Ingi Erlendsson 12, Blagoj Janev 8/8 fráköst, Darri Hilmarsson 7, Baldur Þór Ragnarsson 2, Emil Karel Einarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Vilhjálmur Atli Björnsson 0, Þorsteinn Már Ragnarsson 0.
 
KR: Joshua Brown 19/10 stoðsendingar, Robert Lavon Ferguson 17/8 fráköst, Finnur Atli Magnusson 15/10 fráköst, Hreggviður Magnússon 12, Dejan Sencanski 10/7 fráköst, Martin Hermannsson 5, Skarphéðinn Freyr Ingason 2, Emil Þór Jóhannsson 0, Páll Fannar Helgason 0, Kristófer Acox 0, Jón Orri Kristjánsson 0/4 fráköst, Ágúst Angantýsson 0.
 
Skotnýting liðanna í leiknum:
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 54,5%, þriggja 22,7% og víti 71,4%
KR: Tveggja 50%, þriggja 36,8% og víti 81,8%
 
Umfjöllun og mynd/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -