21:42
{mosimage}
(Hildur Sigurðardóttir gerði 22 stig fyrir KR í kvöld)
Subwaybikarmeistarar KR tryggðu sér í kvöld oddaleik gegn Haukum í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild kvenna. KR og Haukar mættust í DHL-Höllinni í sínum fjórða úrslitaleik þar sem KR hafði betur 65-56. Hildur Sigurðardóttir gerði 22 stig fyrir KR og tók 9 fráköst en í liði Hauka var Slavica Dimovska með 17 stig og 3 fráköst. Haukar gerðu veglegt áhlaup á KR í fjórða leikhluta en bikarmeistararnir stóðust prófið og innbyrtu mikilvægan sigur.
KR-ingar voru tilbúnar í upphafi leiks og leiddu 7-2 eftir þriggja stiga körfu frá Margréti Köru Sturludóttur en þá ákváðu gestirnir að blanda sér í baráttuna og jöfnuðu metin í 7-7. Monika Knight var fersk í upphafi hjá Haukum og stal snemma þremur boltum af KR-ingum og hélt Haukum við efnið.
Leikurinn var hraður og skemmtilegur strax í upphafi en þegar líða tók á fyrsta leikhluta sigu Haukar framúr og Slavica Dimovska kveikti í Hafnfirðingum með þriggja stiga flautukörfu og gestirnir leiddu 12-22 að loknum fyrsta leikhluta.
Snemma í öðrum leikhluta skiptu Haukar yfir í svæðisvörn og gekk það vel framan af og hélst 10 stiga munurinn uns Sigrún Ámundadóttir tók að berja áfram Vesturbæinga með harðri hendi. Sigrún setti stóran þrist þegar tæpar fimm mínútur voru til hálfleiks og minnkaði muninn í 21-28 og næstu mínúturnar tóku KR-ingar öll völd á vellinum. Þegar tæpar þrjár mínútur voru til hálfleiks voru KR-ingar komnir yfir 29-28 og skömmu síðar setti Hildur Sigurðardóttir niður þrist og kom KR í 32-28 en staðan í hálfleik var 34-30 og KR miklu betri undir lok fyrri hálfleiks og unnu annan leikhlutann 12-22.
Þær Hildur Sigurðardóttir og Margrét Kara Sturludóttir voru báðar með 10 stig í hálfleik hjá KR en í liði Hauka var Ragna Margrét Brynjarsdóttir með 9 stig og Slavica Dimovska með 6 stig.
{mosimage}
(Slavica var stigahæst Hauka með 17 stig en hefur oft hitt betur í þristunum)
Í þriðja leikhluta fékkst ekki séð að Haukar gætu í kvöld með sigri tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn því KR-ingar hreinlega völtuðu yfir gesti sína. Haukar minnkuðu muninn í 38-34 í upphafi síðari hálfleiks en eftir það stungu KR-ingar af. KR gerðu fimm stig í röð í tveimur sóknum um leið og skotklukkan rann út og virtist allt ganga upp hjá röndóttum sem leiddu 45-36 þegar tæpar þrjá mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta.
Svæðisvörn Hauka bauð KR-ingum í nokkuð þægileg þriggja stiga skot og það nýttu þær Hildur Sigurðardóttir og Sigrún Ámundadóttir sér. Hildur kom KR í 48-36 með þrist og Sigrún Ámundadóttir kom KR í 56-38 með tveimur þriggja stiga körfum jafn mörgum sóknum og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta leikhluta og allt útlit fyrir að stórsigur KR væri í vændum. Vörn heimakvenna var afbragðsgóð fyrstu þrjá leikhlutana en í þeim fjórða gaf hún nokkuð eftir.
Haukar náðu strax í fjórða leikhluta að minnka muninn niður í 10 stig, 57-47. Slavica Dimovska kveikti svo von fyrir Hafnfirðinga með langdrægri eldflaug og minnkaði muninn í 58-54 þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka.
KR-ingar héldu þó sjó og þegar Monika Knight fór af velli með fimm villur virtist vindurinn úr Haukum og KR landaði góðum 65-56 sigri. Þegar ein mínúta var til leiksloka áttu Haukar möguleika á því að galopna leikinn og minnka muninn í 61-56 en gestirnir brenndu af sniðskoti og þar er óhætt að segja að vonin hafi verið úti og oddaleikurinn staðreynd.
Hildur Sigurðardóttir hefur leikið sem herforingi í úrslitaeinvíginu og í kvöld lauk hún leik með 22 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar. Þær Margrét Kara Sturludóttir og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir gerðu báðar 14 stig fyrir KR í dag en Sigrún var auk þess með 9 fráköst og 4 stoðsendingar.
Hjá Haukum var Slavica með 17 stig en hún hefur oft hitt betur en hún setti aðeins niður 3 af 11 þriggjas stiga tilraunum sínum. Ragna Margrét Brynjarsdóttir átti fína spretti með 13 stig, 5 fráköst og 4 varin skot.
Liðin mætast svo í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn að Ásvöllum miðvikudaginn 1. apríl næstkomandi kl. 19:15.
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



