KR er komið með aðra höndina á Íslandsmeistaratitilinn eftir 101-81 sigur á Stjörnunni í þriðju viðureign liðanna í úrslitum Iceland Express deildar karla. Annan leikinn í röð rauf Marcus Walker 30 stiga múrinn en hann setti niður 33 stykki gegn Stjörnunni í kvöld og var kveikjan að viðsnúningi KR eftir að Stjarnan hafði leitt stærstan hluta af fyrri hálfleik. Walker gerði 34 stig í öðrum leiknum og því kominn með 67 stig í tveimur síðustu leikjum gegn Garðbæingum sem enn hafa ekki fundið fullnægjandi svör við Marcus ,,The Bullet“ Walker.
Sláandi líkindi voru með leik kvöldsins og fyrsta leik liðanna, jafnt á tölunum fyrstu 20 mínúturnar en KR setur í lás í þriðja leikhluta og keyra hreinlega yfir Garðbæinga sem gerðu í kvöld aðeins 9 stig í þriðja leikhluta.
Garðbæingar voru líflegir í fyrsta leikhluta, Daníel Guðni Guðmundsson kom gestunum í 3-6 með þriggja stiga körfu en heimamenn skoruðu næstu sex stig. Gestirnir stukku framúr eftir þetta snöggbúna áhlaup heimamanna, Daníel kom Stjörnunni aftur yfir 13-14 með öðrum þrist og Jovan og Justin voru einnig beittir í sókninni.
Skarphéðinn Freyr Ingason kom askvaðandi af KR bekknum og var hans fyrsta villa í leiknum óíþróttamannsleg villa og stuðningsmenn KR í stúkunni létu gremju sína í ljós með þessa ákvörðun dómarans. Vörn heimamanna lak verulega fyrstu tíu mínúturnar enda leiddi Stjarnan 23-33 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Jovan Zdravevski og Justin Shouse voru báðir með 7 stig en Brynjar Þór Björnsson var kominn með 8 stig í liði KR.
Marcus Walker flaug í gang í öðrum leikhluta og minnkaði muninn í 28-33 og KR-ingar gerðu fimm fyrstu stig leikhlutans, Teitur Örlygsson tók leikhlé fyrir gestina. Fannar Helgason lét þó ekki fína byrjun heimamanna trufla sig og fann sig vel í teignum fyrir Stjörnuna og setti niður öll fimm teigskotin sín í fyrri hálfleik.
Renato Lindmets fékk sína þriðju villu í liði Stjörnunnar þegar rúmar sex mínútur voru til hálfleiks og hélt því á bekkinn en Fannar Ólafsson hafði unnið mikið á kappanum og virtist vera að komast inn undir hákarlaskrápinn hjá Renato.
Marvin Valdimarsson fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu í öðrum leikhluta og KR minnkaði muninn í 40-46 fyrir vikið með fjögurra stiga sókn. Skömmu síðar komst KR yfir 49-48 þegar Pavel Ermolinskij brunaði upp völlinn og þræddi sig í gegnum Stjörnuteiginn og lagði boltann í körfuna, glæsileg tilþrif hjá Pavel og KR komnir yfir á nýjan leik í fyrsta sinn í leiknum síðan í stöðunni 13-11.
KR átti síðustu sókn fyrri háflleiks og þegar mikið liggur við er það oftar en ekki Brynjar Þór Björnsson sem fær boltann í hendurnar. Brynjar beið uns fjórar sekúndur voru eftir og þá smellti hann niður þrist yfir Stjörnuvörnina og heimamenn í KR leiddu 56-54 í hálfleik. KR snéri því taflinu við í höndum Stjörnunnar og unnu annan leikhluta 33-21 þar sem miklu munaði um framlag Walker sem hafði fremur hægt um sig fyrstu tíu mínúturnar.
Walker var með 21 stig hjá KR í hálfleik og Brynjar Þór Björnsson 16. Hjá Stjörnunni var Fannar Freyr Helgason með 11 stig og Jovan Zdravevski 9 en Garðbæingar voru heitir í teignum í fyrri hálfleik með 77,3% nýtingu.
Marcus Walker opnaði þriðja leikhluta eins og KR lokaði fyrri hálfleik, með þriggja stiga körfu og stemmningin var öll hjá KR-ingum. Með hverri sekúndunni í leikhlutanum seig á ógæfuhliðina hjá Stjörnunni sem komust hvorki lönd né strönd gegn KR vörninni.
Þegar þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta slapp Fannar Ólafsson vel fyrir horn, hann braut á Renato Lindmets og grýtti svo boltanum í höfuðið á honum en hvorugur dómari leiksins sá atvikið og Fannar komst upp með verknaðinn sem að sjálfsögðu hefði kostað hann einhverja refsingu hefðu laganna verðir á parketinu tekið eftir. Fannar á fjórðu villunni prísaði sig sælan með að þær skyldu ekki vera orðnar fimm og hélt á bekkinn og kom ekki meira við sögu í leiknum. Garðbæingar í stúkunni og á velli voru ekki allskostar sáttir við dómaraparið í kvöld og kom það bersýnilega fram að bláum fannst á sig hallað að þessu sinni.
Heimamenn í KR slógu ekki slöku við, Hreggviður Magnússon kom svellkaldur af bekknum og setti þrist, staðan 72-61 KR í vil og sprunga komin í gestina. Pavel Ermolinskij tók varnarfrákast, brunaði upp og skoraði, röndóttir náðu brátt upp 20 stiga forystu, 81-61 og lyktin í DHL-höllinni ekki ósvipuð þeirri og fannst í fyrsta leik liðanna. KR vann þriðja leikhluta 26-9 og þar með var björninn unninn. Gestirnir voru aldrei líklegir til þess að jafna sig eftir að KR fór að skrúfa upp hitann.
Fjórði leikhluti var aldrei spennandi og lokatölur urðu 101-81 KR í vil sem nú leiða einvígið 2-1 og geta með sigri í næsta leik orðið Íslandsmeistarar. Marcus Walker var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins með 33 stig og Brynjar Þór Björnsson gerði 18 stig í liði KR. Pavel Ermolinskij bætti svo við 16 stigum, 13 fráköstum og 5 stoðsendingum og var allur annar eftir fremur dræma frammistöðu í öðrum leiknum í Garðabæ. Hjá Stjörnunni var Marvin Valdimarsson með 15 stig og 8 fráköst og Renato Lindmets bætti við 14 stigum og 7 fráköstum.
Heildarskor:
KR: Marcus Walker 33, Brynjar Þór Björnsson 18, Pavel Ermolinskij 16/13 fráköst/5 stoðsendingar, Hreggviður Magnússon 13, Finnur Atli Magnússon 8/8 fráköst, Ágúst Angantýsson 4/4 fráköst, Ólafur Már Ægisson 4, Fannar Ólafsson 4, Jón Orri Kristjánsson 1/5 fráköst/3 varin skot, Páll Fannar Helgason 0, Martin Hermannsson 0, Skarphéðinn Freyr Ingason 0.
Stjarnan: Marvin Valdimarsson 15/8 fráköst/3 varin skot, Renato Lindmets 14/7 fráköst, Jovan Zdravevski 13/6 fráköst, Justin Shouse 12, Fannar Freyr Helgason 12, Guðjón Lárusson 9/5 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 6, Magnús Guðmundsson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Dagur Kár Jónsson 0, Ólafur Aron Ingvason 0, Kjartan Atli Kjartansson 0.
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Jón Guðmundsson
Byrjunarliðin í vesturbænum í kvöld:
KR: Pavel Ermolinskij, Marcus Walker, Brynjar Þór Björnsson, Finnur Atli Magnússon og Fannar Ólafsson.
Stjarnan: Justin Shouse, Daníel Guðmundsson, Marvin Valdimarsson, Jovan Zdravevski og Renato Lindmets.
Dómarar leiksins: Rögnvaldur Hreiðarsson og Jón Guðmundsson
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski – [email protected]
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]