Vart hefur það farið fram hjá nokkrum manni að kvennalið KR er hreinlega að rúlla upp Iceland Express deild kvenna um þessar mundir. Liðið hefur unnið alla 10 deildarleiki sína og trónir á toppnum. Fyrir þessa leiktíð fékk KR myndarlegan liðsstyrk þegar þær Signý Hermannsdóttir og Unnur Tara Jónsdóttir gengu í raðir Vesturbæinga. Að viðbættri Helgu Einarsdóttur er þetta einhver ógurlegasti teigur sem íslenskt kvennalið hefur telft fram.
Reyndar hvarf Sigrún Ámundadóttir á braut fyrir tímabilið til Hamars og systir hennar Guðrún Ámundadóttir gekk í raðir Hauka. KR-ingar fengu síðan Jennifer Pfeiffer Finora til liðs við félagið en hún náði aðeins fyrstu leikjunum með KR áður en henni var ráðlagt að hvíla sig vegna álagsmeiðsla og þá vaknaði Margrét Kara Sturludóttir til lífsins og hefur hreinlega farið á kostum með KR í síðustu leikjum.
Óhætt er að segja að ekki nokkurt kvennalið á Íslandi eigi roð í KR eins og sakir standa en ef við rýnum í tölfræðina þá eru KR-ingar ekki síður áberandi þar.
Haukaleikmaðurinn Heather Ezell leiðir deildina í skoruðum stigum með 31,3 stig að meðaltali í leik, Shantrell Moss leikmaður Njarðvíkur er í 2. sæti með 28,3 stig og bandaríski bakvörðurinn Kirsten Gree sem leikur með Snæfell er í 3. sæti með 22,4 stig að meðaltali í leik.
KR-ingurinn Signý Hermannsdóttir trónir á toppnum yfir flest fráköst að meðaltali í leik en hún tekur 11,1 frákast að jafnaði í hverjum leik og má þess geta að í síðasta leik gegn Grindavík reif hún niður 23 kvikindi. Í öðru sæti er miðherji Hauka, Ragna Margrét Brynjarsdóttir, með 10,9 fráköst að meðaltali í leik og í 3. sæti er Grindvíkingurinn Helga Hallgrímsdóttir með 10,5 fráköst að jafnaði í leik.
Hildur Sigurðardóttir leikstjórnandi hjá toppliði KR vermir svo toppsætið í flestum stoðsendingum þar sem hún er með 6,2 að jafnaði. Sakera Young, sem Valsmenn létu fara á dögunum, var í 2. sæti með 5,3 stoðsendingar að meðaltali í leik og í 3. sæti er Haukakonan Heather Ezell með 4,8.
Hólmarinn Kirsten Green hefur stolið flestum boltum en hún er með 4,2 stolna í leik og í 2. sæti eru þær Heather Ezell og Margrét Kara Sturludóttir, báðar með 3,4 stolna bolta að meðaltali í leik.
Þá er það liðurinn sem fæstir vilja láta bendla sig við en ávallt eru einhverjir sem fara óvarlega með boltann og tölfræðin tekur tillit til þess leikþáttar eins og þeirra sem þykja fegurri. Flesta tapaða bolta í leik eftir 10 umferðir á Sakera Young, Valskonan sem farin er af landi brott, en hún tapaði að jafnaði 5,4 boltum í leik. Næst er Ólöf Helga Pálsdóttir, leikmaður UMFN, með 4,6 tapaða bolta í leik og í 3. sæti er Grindvíkingurinn Ingibjörg Jakobsdóttir með 4,1 tapaðan bolta í leik en hún tapar ekki fleiri boltum þessa leiktíðina þar sem hún er með slitin krossbönd.
Hæsta framlag til síns liðs hefur Heather Ezell með 27,3 framlagsstig að meðaltali í leik en í 2. sæti er Shantrell Moss hjá UMFN með 25,5 og landsliðsmiðherjinn Signý Hermannsdóttir er í 3. sæti með 22,3 framlagsstig að jafnaði í leik.
Viola Beybeyah, bandaríski leikmaðurinn sem Keflavík lét fara fyrir Kristi Smith, er með bestu vítanýtinguna eða 92% nýtingu og Grindvíkingurinn Michele DeVault er með 90,7% vítanýtingu. Þriðja er Berglind Gunnarsdóttir 87,5% vítanýtingu.
Keflvíkingurinn Kristi Smith er með bestu tveggja stiga skotnýtinguna en hún er með 59,6% skotnýtingu og þar í 2. sæti er Haukakonan Telma B. Fjalarsdóttir með 54% og í 3. sæti er Kristrún Sigurjónsdóttir, leikmaður Hamars, með 52,6% skotnýtingu.
Eitraðasta þriggja stiga skyttan eftir 10 umferðir er Koren Schram leikmaður Hamars en hún er með 38,4% þriggja stiga nýtingu. Keflvíkingurinn Bryndís Guðmundsdóttir kemur næst með 38,1% og í 3. sæti er Kirsten Green með 35,4% nýtingu.
Ef deildinni yrði skipt upp í dag myndi A-riðill líta svona út:
KR
Hamar
Grindavík
Keflavík
B-riðill myndi þá líta svona út:
Haukar
Njarðvík
Snæfell
Valur
Þetta þýðir að Íslandsmeistarar síðasta árs myndu leika í B-hlutanum þegar deildinni yrði skipt upp en áður en það gerist eru 8 stig enn eftir í pottinum en rétt eins og Haukar hafa Snæfell og Njarðvík einnig 6 stig og eru aðeins 4 stigum á eftir Keflavík sem eru í augnablikinu í síðasta sæti A-riðils. Sem sagt nóg af stigum í pottinum og verður fróðlegt að sjá hvernig deildin muni skiptast upp og hvort eitthvert lið í deildinni hafi kjark til þess að stíga í vænginn við KR sem hafa fá ef nokkur veikleikamerki sýnt til þessa.



