spot_img
HomeFréttirKR á toppinn í IEX-deild kvenna

KR á toppinn í IEX-deild kvenna

Eini leikur kvöldsins í Iceland Express deild kvenna fór fram í vesturbæ Reykjavíkur þar sem heimastúlkur í KR tóku á móti Snæfelli.  Fyrir leikinn skipuðu þessi lið tvö efstu sæti deildarinnar og því von á hörkuleik.  

Snæfellskonur komu sterkar til leiks og létu finna fyrir sér.  Gestirnir komust í 6-0 og héldu KR-ingum vel í skefjum.  Svart-hvítar voru þó aldrei langt undan og hleyptu Hólmurum aldrei of langt fram úr.  Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 13-16, gestunum í vil og allt útlit fyrir toppleik.

Sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta og í þeim fyrsta.  Snæfell var skrefi á undan lengst af , en eftir fjölmargar tilraunir KR-stúlkna tókst þeim loks að jafna leikinn í stöðunni 34-34 og komust að lokum yfir eftir flautu-sniðskot frá Reyönu Colson.  Staðan 36-34 í hálfleik og allt í járnum.

Eftir sjóðheitar flatbökur í hálfleik virtust liðin hafa skipt um hlutverk.  Nú var það KR sem var alltaf skrefinu á undan, og með góðu framlagi frá Reyönu og Margréti Köru náðu þær upp ágætis forskoti.  Leikur Snæfells liðsins datt aðeins niður um miðbik leikhlutans og það nýttu heimastúlkur sér ágætlega og héldu forskoti sínu við 10 stigin.  Staðan fyrir lokafjórðunginn var 60-50, en leikurinn svo sannarlega ekki búinn.

Hólmarar urðu fyrir nokkru áfalli í upphafi fjórða leikhluta þegar Ingi Þór Steinþórsson fékk sína aðra tæknivillu í leiknum, fyrir fremur litlar sakir að því er virtist, og þurfti því að skunda upp í stúku.  KR stelpur tóku við þetta öll völd á vellinum um stundarhríð og Reyana Colson fór á kostum bæði í sókn og vörn.  Í stöðunni 67-54 tóku Hólmarar svo leikhlé til að reyna að ná festu í sinn leik.  Það tókst ágætlega, og gestirnir tóku að saxa mjög á forskot vesturbæinga, og þegar 20 sekúndur lifðu af leiknum skildu einungis 4 stig liðin að.  Nær komust gestirnir þó ekki og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Margrét Kara Sturludóttir innsigluðu sigur KR í nokkuð kaflaskiptum leik. 

Reyana Colson var stigahæst KR-inga í leiknum með 29 stig auk 9 frákasta og Sigrún Sjöfn kom næst með góða tvennu, 20 stig og 10 fráköst.  Hjá gestunum var Kieraah Marlow stigahæst með 23 stig og Alda Leif Jónsdóttir bætti við 16.

 

Texti:  Elías Karl Guðmundsson

Fréttir
- Auglýsing -