14:15
{mosimage}
(Jakob Örn Sigurðarson)
Eftir að hafa dottið út í 8-liða úrslitum gegn ÍR á síðustu leiktíð mæta KR-ingar með vaska sveit manna til leiks þetta tímabilið. Væntanlega hefur það ekki farið framhjá neinum að landsliðsmennirnir Jón Arnór Stefánsson og Jakob Sigurðarson hafa snúið heim og verða röndóttir í vetur. Karfan.is spáir KR Íslandsmeistaratitilinum þetta árið en eins og sjá má munaði aðeins 4 stigum á KR og Grindavík í spánni. KR fékk 71 stig en Grindavík 67.
Benedikt Guðmundsson þjálfari KR hefur einnig þétt hjá sér bekkinn og með honum stjórnar liðinu Ingi Þór Steinþórsson en báðir hafa þeir áður stýrt KR í átt að Íslandsmeistaratitli. Ingi Þór hefur síðustu ár einbeitt sér að yngriflokkum KR og þjálfun yngri landsliða Íslands við góðan orðstýr en er nú á nýjan leik kominn í brúnna í úrvalsdeild. Ingi er einnig forvígismaðurinn að beinum netútsendingum á KR TV frá leikjum í DHL-Höllinni og hefur þar unnið mikið og gott starf.
Jón Arnór og Jakob skipa sterkasta bakvarðapar deildarinnar. Kapparnir verða illviðráðanlegir og eins og fólk hefur tekið eftir á undirbúningstímabilinu þá spila þeir stífa vörn og aðrir bakverðir jafnan í töluverðum vandræðum gegn þeim. Báðir eru þeir hávaxnir fyrir íslenska bakverði og þar með er vænghaf þeirra veglegra en flestra þeirra sem á þá sækja. Karfan.is spáir því að þeir kappar verði ofarlega í stolnum boltum í vetur.
Ekki skemmir að hafa meðferðis landsliðsmenn á borð við Fannar Ólafsson og Helga Má Magnússon að viðbættum Jason Dourisseau. Þarna erum við komin með byrjunarlið KR og hafa margir orðið til þess að gagnrýna KR fyrir að senda ekki Jason heim líkt og langflest önnur lið deildarinnar. Mað Jason innanborðs er ekki ósennilegt að KR fari taplaust í gegnum tímabilið! Fari svo að KR ákveði að senda Jason heim jafnast mótið verulega en engu að síður er ekki ósennilegt að KR færi alla leið án hans. Fari Jason frá KR eru Vesturbæingar komnir í pottin með hinum ,,íslensku“ liðunum en heyrst hefur að þeir séu að bíða eftir staðfestingu frá öðrum liðum deildarinnar um að þau muni ekki hrúga á sig erlendum leikmönnum í og við úrslitakeppnina.
Reynsluboltar sem koma inn af bekknum eru heldur ekki af verri endanum. Pálmi Freyr Sigurgeirsson, Skarphéðinn Ingason og Darri Hilmarsson. Baldur Ólafsson og Arnar Kárason hafa tekið fram skónna að nýju og ljóst að hart verður barist um hverja einustu mínútu hjá KR í vetur.
Ritstjórn Karfan.is
{mosimage}
(Jón Arnór Stefánsson)