21:15
{mosimage}
(Hildur Sigurðardóttir var stigahæst í liði KR í kvöld)
Bikarmeistarar KR hafa tekið 1-0 forystu í einvígi sínu gegn Grindavík um sæti í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna. Liðin mættust í DHL-Höll þeirra Vesturbæinga í kvöld og hafði KR betur 64-57 eftir sterkan endasprett. Fyrir fjórða og síðasta leikhluta hafði Grindavík 10 stiga forskot sem KR náði að jafna og að lokum knýja fram sigur. Aðeins fimm leikmenn komust á blað í stigaskorinu hjá KR og þeirra atkvæðamest var Hildur Sigurðardóttir með 20 stig en þrír leikmenn voru stigahæstir og jafnir í liði Grindavíkur með 11 stig.
Byrjunarlið Grindavíkur kom nokkuð á óvart í kvöld en það skipuðu Lilja Ósk Sigmarsdóttir, Berglind Anna Magnúsdóttir, Íris Sverrisdóttir, Helga Hallgrímsdóttir og Petrúnella Skúladóttir en utan vallar í byrjun leiks var landsliðskonan Jovana Lilja Stefánsdóttir sem og Ólöf Helga Pálsdóttir og önnur landsliðskona að nafni Ingibjörg Jakobsdóttir. Þrátt fyrir þessa nýstárlegu uppstillingu hjá Pétri Guðmundssyni þjálfara var ekki að sjá að Grindvíkingum líkaði illa þessi liðsskipan.
Bikarmeistarar KR tóku snemma frumkvæðið í leiknum og ekki leið á löngu uns Grindvíkingar skiptu yfir í svæðisvörn. Petrúnella Skúladóttir sá til þess að KR kæmist ekki of langt fram úr Grindavík með þremur þriggja stiga körfum í fyrsta leikhluta. Helga Einarsdóttir var KR mikilvæg gegn svæðisvörn Grindavíkur og dreifði boltanum vel í teignum. KR frákastaði mun betur en Grindavík í upphafsleikhlutanum og leiddu að honum loknum 19-15.
Gestirnir úr Grindavík voru ekki lengi að jafna metin í 19-19 eftir körfu úr teignum frá Írisi Sverrisdóttur og snöggtum leiddu Grindvíkingar 19-24 eftir þrist frá Jovönu Lilju Stefánsdóttur. Hér voru Grindvíkingar í banastuði þar sem þær Petrúnella Skúladóttir og Ólöf Helga Pálsdóttir áttu fínar rispur. Petrúnella var að finna sig vel í vörninni og stal 6 boltum í fyrri hálfleik. Helga Einarsdóttir og Guðrún Gróa voru áberandi í leik KR en Grindvíkingar leiddu í hálfleik 27-35 og unnu því annan leikhluta 9-20 þar sem svæðisvörn þeirra reyndist bikarmeisturunum þungbær.
Bikarmeistararnir úr Vesturbænum voru ekki sáttir við sinn hlut og hófu síðari hálfleik af krafti og skoruðu fyrstu 10 stigin og komust yfir 37-35. Framundan voru töluverðar sveiflur svo vægt sé til orða tekið. Nokkuð hallaði á Grindavík í dómgæslunni að mati undirritaðs en gular létu það ekki á sig fá og skoruðu næstu 11 stig leiksins og breyttu stöðunni í 37-46. KR-ingum tókst þó að brjóta á bak áhlaup Grindavíkur og komu inn tveimur stigum en þá setti Ingibjörg Jakobsdóttir niður langan þrist um leið og skotklukkan rann út og staðan 39-49 og þannig stóðu leikar að loknum þriðja leikhluta. Grindavík gerði vel að snúa taflinu við og höfðu góða stöðu fyrir lokasprettinn.
{mosimage}
Ingibjörg Jakobsdóttir opnaði fjórða leikhluta með þriggja stiga körfu fyrir Grindavík og staðan orðin 39-52 fyrir gestina. Þessi karfa hjá gulum virtist vekja bikarmeistarana af værum blundi sem með góðri vörn hófu að saxa á forskotið. Guðrún Ámundadóttir minnkaði muninn í 44-52 með þrist og skömmu síðar kom Hildur Sigurðardóttir KR yfir 57-56 með þriggja stiga körfu þegar tæpar 3 mínútur voru til leiksloka.
Grindavík jafnaði metin í 57-57 á vítalínunni en þá kom sterk rispa hjá KR sem gerðu 5 stig í röð þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka og það reyndist Grindvíkingum of mikið og KR leiðir því einvígið 1-0 en liðin mætast í sínum öðrum leik í Grindavík á fimmtudag.
Leikur kvöldsins var spennandi og harður þar sem töluverðar sveiflur settu mark sitt á leikinn. Hildur Sigurðardóttir var stigahæst í liði KR með 20 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar en í liði Grindavíkur voru þær Petrúnella Skúladóttir, Ólöf Helga Pálsdóttir og Lilja Sigmarsdóttir allar með 11 stig. Grindavík glopraði niður 13 stiga forskoti sem þær höfðu í upphafi fjórða leikhluta þar sem KR vörnin gerði þeim lífið leitt og margsinnis rann skotklukkan út hjá Grindavík sem annars áttu fínan dag en höfðu ekki bensín í endasprettinn.



